Hverfisfljót Núverandi brú er einbreið og farartálmi, byggð árið 1968.
Hverfisfljót Núverandi brú er einbreið og farartálmi, byggð árið 1968.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin hefur kynnt fyrirhugaðar framkvæmdir við nýja brú á hringvegi um Hverfisfljót í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Í tengslum við byggingu nýrrar brúar þarf að endurbyggja hringveginn á kafla.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur kynnt fyrirhugaðar framkvæmdir við nýja brú á hringvegi um Hverfisfljót í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Í tengslum við byggingu nýrrar brúar þarf að endurbyggja hringveginn á kafla. Kostnaður við verkið er áætlaður rúmar 700 milljónir króna.

Nýja brúin, sem er um 20 kílómetra austan Kirkjubæjarklausturs, mun leysa af hólmi einbreiða stálbitabrú með steyptu gólfi sem byggð var árið 1968.

Fyrirhugað er að byggja nýja 74 metra langa og tvíbreiða brú yfir Hverfisfljót á hringvegi, við hlið núverandi brúar, eða 20 metra neðan hennar, auk vega sem tengja nýja brú núverandi vegakerfi. Nýr vegur og brú verða samtals um 2,2 kílómetra löng, þar af verður 1,1 km nýlögn og 1,1 km endurbygging núverandi vegar.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að fækka einbreiðum brúm á hringvegi. Markmiðið er að auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum. Vegagerðin áætlar að vegur og brú verði byggð árið 2021 og hægt verði að taka mannvirkið í notkun um haustið.

Einnig verður byggður nýr áningarstaður við Hverfisfljót í stað núverandi áningarstaðar sem hverfur undir nýjan veg. Á þessum stað er fallegt útsýni í átt að Lómagnúpi og Öræfajökli og því er nauðsynlegt að byggja nýjan, öruggan og stærri áningarstað. Á núverandi stað er aðeins pláss fyrir 3-4 bíla. Á nýjum áningarstað verður eitt rútustæði, þrjú húsbílastæði og 10 fólksbílastæði.

Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra á umhverfið verði sem minnst, segir í kynningu Vegagerðarinnar. Samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og sveitarfélag við undirbúning framkvæmdarinnar. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.

Vegagerðin hefur sent kynningarskýrsluna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Þeir sem vilja veita umsögn um fyrirhugaða framkvæmd hafa frest til 25. nóvember til að skila umsögn til Skipulagsstofnunar.

Hverfisfljót er jökulá með grunnvatnsþætti, segir í kynningu Vegagerðarinnar. Hún fellur úr Síðujökli vestanverðum, meðfram eystri jaðri Eldhrauns niður á Fljótseyrar, rétt vestan Skeiðarársands. Við jökulleysingu að sumarlagi er mikill aurburður í Hverfisfljóti en að vetrarlagi er vatnið að mestu tært.