Samtal Merking orðanna getur stundum verið óljós.
Samtal Merking orðanna getur stundum verið óljós.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtal Lísu í Undralandi og sjálfumglaða eggsins Humpty Dumptys hefur rifjast upp undanfarið. Þau Lísa ræddu um merkingu orðanna, sem Humpty Dumpty taldi sig geta ráðið sjálfur.

Samtal Lísu í Undralandi og sjálfumglaða eggsins Humpty Dumptys hefur rifjast upp undanfarið. Þau Lísa ræddu um merkingu orðanna, sem Humpty Dumpty taldi sig geta ráðið sjálfur. Þegar Lísa skildi ekki hvað hann átti við svaraði Humpty Dumpty því til að auðvitað skildi hún það ekki því hann hefði ekki sagt henni hvað orðið þýddi – í hans munni. Þegar hann notaði orð merktu þau nákvæmlega það sem hann ákvæði að þau skyldu merkja. „Humpty Dumpty viðurkenndi að það væri snúið að stjórna sagnorðunum en hann gæti gert hvað sem er við lýsingarorðin.“

Þegar bækur Lewis Carroll um Lísu komu út á 19. öld – og enn þegar Þórarinn Eldjárn þýddi Ævintýri hennar á mál Jónasar árið 1996 – duldist engum að þessi saga gerðist í Undralandi þótt skírskotanir til valdbeitingar með tungumáli ættu alltaf við. En að þessi persóna myndi stíga útúr raunveruleikasjónvarpi eins og persóna hjá Woody Allen í kvikmyndinni The Purple Rose of Cairo (1985) og gera tilkall til lífs í raunheimum sem eins konar Humpty Trumpty var óhugsandi þar til fyrir nokkrum árum.

Við höfum horft upp á forseta Bandaríkjanna breytast í þessa skrípafígúru úr Lísusögunum, fyrst með því að snúa bara upp á merkingu lýsingarorðanna, sem reyndist auðvelt því hver sem er getur sagst vera „bestur“ og „mestur“ og „gáfaðastur“, en nú síðast líka með því að vilja stjórna sagnorðunum og segjast hafa „unnið“ kosningar sem við hin segjum að hann hafi „tapað“. Þegar svo er komið fer málið að vandast.

Þó að við segjum „að hika er sama og tapa“, er annað mál að segja „að vinna er sama og tapa“. Það er ekki það sama, alveg sama hvernig við snúum útúr merkingu orðanna. Landsliðin okkar „vinna“ að vísu stundum með því að gera jafntefli – en á íþróttasíðunum eru engin dæmi um að menn rugli saman ósigri og sigri, án þess að íþróttafréttamönnum þurfi að hrósa fyrir það. Í kjölfar tilraunarinnar westra til merkingarráns á sagnorðunum var tekin upp sú nýbreytni að gera skoðanakönnun, eftir að úrslit forsetakosninganna voru ljós, um það hvernig fólk héldi að kosningarnar hefðu farið. Fram kom að 3% aðspurðra trúðu persónulegum viðsnúningi forsetans á merkingu ofangreindra sagnorða og töldu að forsetinn hefði unnið. Ekki hefur verið gerð sambærileg könnun hér á landi en af Mogganum má ráða að fulltrúa þessara 3% megi einnig finna meðal Íslendinga.

Í skáldsögu Ben Eltons frá 2001, Dead Famous , er því lýst hvernig merkingu þess sem gerist fyrir framan myndavélarinnar er rænt og það sett í nýtt samhengi fyrir útsendingu í raunveruleikasjónvarpi. Það eru eðlileg vinnubrögð í sagnagerð en verði yfirstandandi merkingarránsherferð látin viðgangast öllu lengur í raunheimum er hætt við að orð Þorgeirs Ljósvetningagoða rifjist harkalega upp fyrir heimsbyggðinni: „Það mun verða satt er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.“

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is

Höf.: Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is