Skógarhögg Fullkomið og fjölhæft tæki frá fyrirtækinu 7, 9, 13 hefur verið notað við að fella tré, snyrta bolina og fjarlægja í Haukadalsskógi undanfarið.
Skógarhögg Fullkomið og fjölhæft tæki frá fyrirtækinu 7, 9, 13 hefur verið notað við að fella tré, snyrta bolina og fjarlægja í Haukadalsskógi undanfarið. — Ljósmynd/Trausti Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Mörg handtök eru unnin þessar vikurnar við að höggva jólatré og koma þeim á markað. Í Haukadalsskógi hefur einnig verið unnið að því að afla viðar í bálhús sem á að rísa í Vaglaskógi á næsta ári.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Mörg handtök eru unnin þessar vikurnar við að höggva jólatré og koma þeim á markað. Í Haukadalsskógi hefur einnig verið unnið að því að afla viðar í bálhús sem á að rísa í Vaglaskógi á næsta ári. Einnig hefur gæðaviður verið höggvinn þar í haust til að nota í göngubrú yfir Þjórsá.

„Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá þessi verðmæti verða til í skóginum og koma að notum. Núna tökum við ekki bara litlu ljótu trén þegar við grisjum heldur veljum við gæðaefni og höggvum stór tré í svona flotta nýtingu,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður hjá Skógræktinni á Suðurlandi.

Viðurinn úr Haukadal

Bálskýlið í Vaglaskógi verður ekki ósvipað slíku skýli, sem tekið var í notkun á Laugarvatni fyrir tveimur árum, með snyrtingum og góðri aðstöðu fyrir ferðamenn. Húsið á Vöglum verður þó heldur voldugra en á Laugarvatni þar sem gert er ráð fyrir meiri snjóþunga fyrir norðan, þakið verður brattara og þéttara á milli sperra og lekta. Búið er að saga klæðningarefnið og verið að taka efni í uppistöður, mænisása, sperrur og lektur í skóginum. Trausti segir að sitkagrenið sé 17 cm í þvermál í mjórri endann, en um 25 cm í uppistöðunum.

Kristján Magnússon, sem rekur fyrirtækið 7, 9, 13 ehf., hefur verið drjúgur við skógarhöggið í haust eins og oft áður og kom með sínar öflugu skógarhöggsvélar austan af Héraði.

20 metra tré úr Hákonarlundi

Timbur í göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá nálægt Þjófafossi, úr Búrfellsskógi yfir í Landsveit, kemur að mestu úr Haukadalsskógi. Tré voru felld vegna verkefnisins í fyrravetur og hefur verið unnið við að saga efnið í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal. Undanfarið hefur aðeins verið bætt við og gæðaefni sótt í skóginn. Jarðvinna er hafin og vinna við undirstöður brúarinnar, sem verða steyptar. Á stálbita koma síðan límtrésbitar og loks tvöföld klæðning, en allur viður er íslenskt sitkagreni úr Haukadalsskógi.

Viður í bálhúsið og brúna kemur aðallega úr tveimur lundum í Haukadal; Braathens-lundi og Hákonarlundi. Í þann fyrrnefnda var gróðursett 1962 og segir Trausti að þetta sé í þriðja skipti sem grisjað sé í skóginum, síðast fyrir tíu árum, og síðan þá hafi trén bætt á sig miklum massa. Í Hákonarlundi, sem er nefndur eftir Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra, var fyrst gróðursett 1949 og síðan bætt við 1961. Meðalhæð trjáa sem felld voru í Braathens-lundi var 16 metrar og um eða yfir 20 metrar í Hákonarlundi.

Jólin undirbúin í skógunum

Trausti segir að nú sé undirbúningur jólanna á fullu í skógunum, búið sé að fella tré, en þá er eftir að ná í þau í skógana og koma þeim á markað. Hann áætlar að úr þjóðskógunum á Suðurlandi í Þjórsárdal, Haukadal og Tumastöðum í Fljótshlíð, auk Mosfells í Grímsnesi, fari 7-800 heimilistré á markað, en einnig rúmlega 30 torgtré, sem eru talsvert stærri. Auk Skógræktarinnar komi jólatré frá skógræktarfélögum og skógarbændum víða um land.

„Mest af því sem við seljum er stafafura og furan er í raun íslenska jólatréð,“ segir Trausti. Auðvelt sé að rækta hana svo hún verði fallegt jólatré og hún sé nánast 100% umhverfisvæn því hún fái aðeins 10-15 grömm af áburði við gróðursetningu. Nokkuð sé um rauðgreni og blágreni meðal jólatrjáa, en mest er samkeppnin við danskan normannsþin.

Samvinna við Litla-Hraun

Trausti segir að Skógræktin hafi í haust verið í samvinnu við fangelsið á Litla-Hrauni. Fyrir jólin verði þannig tvær nýjar, en þó gamlar vörur á boðstólum. Starfsmenn Skógræktarinnar sæki köngla og greinar í skóginn, en fangar á Litla-Hrauni flokki, setji í búnt og merki vöruna áður en hún fer í verslanir.

Trausti skógarvörður á Suðurlandi er með starfsstöðvar í Haukadal, Þjórsárdal og á Tumastöðum í Fljótshlíð og eru nú sex manns starfandi þar. Meira er oft umleikis þegar sjálfboðaliðar, sumarstarfsmenn, starfsnemar og verktakar eru við störf í skógunum.