Nesstofa „Björn Jónsson var fyrsti lyfsali Íslands og apótekið hans var á Nesi við Seltjörn þar sem hann hafði jurtagarð,“ er rifjað upp í umsögn.
Nesstofa „Björn Jónsson var fyrsti lyfsali Íslands og apótekið hans var á Nesi við Seltjörn þar sem hann hafði jurtagarð,“ er rifjað upp í umsögn. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hilmu Gunnarsdóttur. Útgefendur: Iðunn og Lyfjafræðingafélag Íslands 2020. Innb., 334 bls.

Þetta er fallega útgefin bók, bundin í harðspjöld, prentuð á góðan pappír, myndir skýrar, mættu sumar vera stærri. Innan á bókarspjöldum og á saurblöðum eru nafnspjöld gamalla apóteka, býsna lagleg sum hver. Fyrri helmingur ritsins fjallar um upphaf skipulegrar lyfjagerðar, lög um lyf og lyfsölu og þróun apóteka allt frá 1760 til 2008. Í seinni hluta ritsins er félagsstarf lyfjafræðinga og menntun í brennidepli. Víða er fróðleiksmolum, frásögnum o.fl. skotið inn í meginmál í rastagreinum og krydda þessar greinar efnið.

Segja má að öll lyfjamál hafi umhverfst á sögutíma bókar, öll lyfjagerð var áður unnin með höndum meira og minna heima í hverri lyfjabúð, nú koma nær öll lyf í miklum umbúðum frá alþjóðlegum fyrirtækjum með skýringarseðli á móðurmáli. Lyfjabúðir selja auk þess alls konar aðrar vörur, bætiefni, umbúðir, fæðubótarefni o.s.frv. Flestar meginbreytingar urðu á 20. öld og ber þar hæst nýjungar á borð við pensilín og uppgötvun vítamína (25). Áður voru jurtir uppistaðan í lyfjum, fyrirtæki voru lítil. Nú eru gríðarlegir fjármunir í lyfjagerð og eftirlitsskylda rík (27).

Björn Jónsson var fyrsti lyfsali Íslands og apótekið hans var á Nesi við Seltjörn þar sem hann hafði jurtagarð (46). Það var flutt til Reykjavíkur snemma á 19. öld. Apótek var síðan opnað á Akureyri 1819 og í Stykkishólmi 1838 (42-4). Bannlögin svokölluðu gengu í gildi 1915 og lögðu þá margir hart að læknum sínum að ávísa áfengi á þá með lyfseðli. Dæmi er um lækni sem skrifaði 2.500 slíka seðla á ári (53). Árið 1937 voru níu lyfsalar utan Reykjavíkur dæmdir í sektir fyrir bannlagabrot og sviptir lyfsöluleyfi. Hæstiréttur sýknaði mennina vegna formgalla. Áfengisverslun ríkisins var stofnuð 1921, löngu áður en bannlögum var aflétt, og var forstjóri hennar lyfjafræðingur. Mörkin milli áfengis og lyfja voru mörgum hulin.

Lagagrundvöllur lyfsölunnar var gamaldags enda reistur á tilskipun frá 1672 og kansellibréfi frá 1796. Eftir nokkrar atrennur tókst að setja lög árið 1963 eftir miklar deilur þar sem einkum tókust á Vilmundur Jónsson landlæknir og apótekarar. Í kjölfarið hófst hér formleg lyfjaskráning. Ný lög voru sett 1994 sem juku mjög frelsi í lyfsölu. Apótekum snarfjölgaði í kjölfarið og smám saman urðu til keðjur sem ráða mestu á markaði þótt allmargir lyfsalar séu enn einyrkjar. EES-samningarnir tóku gildi 1994 og hafa haft áhrif hér á lög og reglugerðir. Samhliða hafa öflug lyfjaframleiðslufyrirtæki haslað sér völl.

Lyfjafræðingafélag Íslands var stofnað 1932, en þremur árum fyrr höfðu apótekarar stofnað sitt félag; þeir áttu oft í stímabraki við yfirvöld og hafa verið öflug hagsmunasamtök. Lyfsala varð hins vegar frjáls með lögunum 1994. Stéttarfélag lyfjafræðinga var síðan stofnað 1985 til að fara með kjaramál stéttarinnar. Menntun sína hlutu lyfjafræðingar hér lengst af í apótekum en urðu í framhaldinu að sigla til Danmerkur til að ljúka kandídatsprófi. Lyfjafræðingaskóli Íslands starfaði 1940-1957, stofnun hans bein afleiðing hernáms Þjóðverja í Danmörku. Skólinn brautskráði aðstoðarlyfjafræðinga og nemendur héldu áfram að læra í apótekum eftir sem áður en þurftu enn að leita út fyrir landsteina til að ljúka kandídatsprófi. Nokkrir fóru til Bandaríkjanna meðan Danmörku var lokuð, en eftir stríð komust á hefðbundin tengsl við danska skólann. Lyfjafræði var síðan kennd í H.Í. 1957-82 og aðstoðarlyfjafræðingar brautskráðir. Það er síðan 1987 að samþykkt var að stofna lyfjafræðideild við HÍ og flytja námið alveg heim.

Hér hefur verið tæpt á ýmsu, en skautað fram hjá öðru, svo sem rekstri háskólaapóteks, baráttu gegn bramalífselexír o.fl. Þetta er fróðlegt yfirlitsrit um sögu lyfjafræði og lyfsölu í landinu, skilvíslega vísað til heimilda og bókin líflega skrifuð. Frásagnir einstaklinga af lífi og starfi í apótekum eru upplýsandi. Breytingarnar sem orðið hafa á lyfsölunni eru gagngerar. Mortel eru nú til skrauts í lyfjabúðinni, voru áður þörfust verkfæra.

Sölvi Sveinsson

Höf.: Sölvi Sveinsson