Höfundarnir Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir. Þeim tekst „vel að gera persónur bókarinnar fjölbreyttar og fá ólík sjónarmið til að mætast“.
Höfundarnir Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir. Þeim tekst „vel að gera persónur bókarinnar fjölbreyttar og fá ólík sjónarmið til að mætast“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur. JPV, 2020. Innbundin, 137 bls.
Hingað og ekki lengra fjallar um þrjár þrettán ára stúlkur, Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar, sem ætla sér að breyta heiminum. Eins og allir vita sem hafa ætlað sér í slíka hetjuför þá koma slíkar breytingar ekki án blóðs, svita og tára og það er nákvæmlega það sem Vigdís Fríða og vinkonur hennar þurfa að reyna á eigin skinni. Þær ganga jafnvel svo langt að fremja glæp fyrir málstaðinn og úr verður spennandi og spaugilegur söguþráður.

Málstaðurinn er dýravelferð og að einhverju leyti umhverfisvernd. Stelpurnar átta sig skyndilega á því sem þær telja vera skekkju í nútímasamfélagi, því að mannfólk leggi sér enn dýr til munns, og ákveða að grípa til aðgerða þegar í stað.

Sama á hvaða skoðun lesendur kunna að vera um dýraát þá er Hingað og ekki lengra sprenghlægileg og spennandi bók sem er tilvalin fyrir hressa krakka og unglinga sem vilja láta sig málin varða, eða vilja jafnvel helst bara lesa um aðra krakka sem láta sig málin varða.

Teikningarnar í bókinni, sem eru eftir Helgu Valdísi Árnadóttur, eru líflegar og skemmtilegar og er hæfilega mikið af þeim. Þær krydda söguna passlega og bæta gjarnan við húmorinn sem bókin er smekkfull af.

Höfundum tekst sérlega vel að gera persónur bókarinnar fjölbreyttar og fá ólík sjónarmið til að mætast. Söguþráðurinn er skemmtilegur og vel ígrundaður. Hann talar beint inn í samtímann þar sem ungt fólk er í auknum mæli farið að velta fyrir sér einmitt því sem Vigdís Fríða og félagar brenna fyrir, dýravelferð og framtíð jarðarinnar. Foreldrar Vigdísar Fríðu, sem eru í eldri kantinum, standa fyrir fortíðina og hafa önnur gildi í heiðri en stúlkurnar en bókin birtir fallega mynd af því hvernig fortíð og framtíð geta mæst í nútíð og gert málamiðlanir.

Ragnhildur Þrastardóttir

Höf.: Ragnhildur Þrastardóttir