Hrafnhildur Valdimarsdóttir fæddist 22. nóvember 1941. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 13. júlí 2020. Móðir hennar var Víbekka H. Jónsdóttir húsmóðir, f. 12.12. 1911, d. 5.6. 1990, og faðir hennar var Valdimar Ólafsson hjá rafveitunni, f. 9.1. 1904, d. 20.5. 1978. Bróðir hennar var Örn, f. 4.12. 1936, d. 5.8. 1986.

Hrafnhildur giftist Jóni Ó. Ragnarssyni, f. 29.6. 1939, veitingamanni. Börn þeirra eru tvö: Júlíana, f. 30.11. 1968, og Valdimar, f. 26.6. 1965. Börn Júlíönu eru Jón Högni, f. 1.12. 2000, og Víbekka Íris Yrja, f. 2.1. 2010. Börn Valdimars eru Hrafnhildur Birta, f. 19.6. 1998, Hákon Rafn, f. 13.10. 2001, og Ragnar, f. 4.9. 2014.

Hrafnhildur ólst upp á Leifsgötu og síðar í Meðalholti. Hún gekk í Austurbæjarskóla. Hrafnhildur fór í húsmæðraskóla til Danmerkur, í framhaldi af því lærði hún fótaaðgerðafræði hjá Dr. Scholls í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur vann samhliða manni sínum við hótel- og veitingarekstur. Einnig við rekstur kvikmyndhússins Regnbogans sem þau stofnuðu og ráku um langt skeið.

Síðustu árin dvaldi Hrafnhildur langtímum á Spáni ásamt manni sínum.

Útför Hrafnhildar fór fram í kyrrþey að ósk hennar 23. júlí 2020.

Elsku amma. Takk fyrir okkur og þá daga sem við fengum að njóta með þér á Spáni í sumar. Minning um örláta, hlýja og bestu ömmu lifir með okkur á hverjum deg. Við elskum þig og söknum.

Jón Högni og Víbekka.

Hrafnhildur frænka mín og vinkona varð bráðkvödd í svefni. Andlátið var mjög óvænt enda hafði hún alltaf verið frekar hraust.

Við erum bræðradætur, feður okkar yngstir af 14 systkinum sem fæddust og ólust upp í Stóra-Skógi í Miðdölum í Dalasýslu. Valdimar var einu ári eldri en pabbi og Hrafnhildur níu mánuðum eldri en ég. Við höfum því verið samferða í bráðum 78 ár.

Í æsku voru fjölskyldurnar mikið saman, t.d. alltaf á jólum. Eftir að pabbi keypti bíl var farið í margar ferðir saman um landið og ekki síst vestur í Dali. Öllum pakkað í bílinn og brunað eftir þessum vondu vegum. Þá voru nú engar reglur um það hversu margir mættu vera í bílnum, eins gott. Við sungum venjulega mikið á leiðinni og aldrei kvörtuðu foreldrar okkar.

Við frænkur gengum báðar í skátahreyfinguna, fórum í útilegur og áttum skemmtilegar stundir. Hrafnhildur var alltaf hress og skemmtileg, mjög jákvæð eins og foreldrar hennar. Við áttum báðar góða og skemmtilega æsku.

Hrafnhildur fór í húsmæðraskóla í Danmörku í eitt ár og svo að vinna í Kaupmannahöfn eftir það.

Hún vann m.a. í mjög virðulegri búð í höfuðborginni, sem heitir Dr. Scholls og er örugglega enn þá til, held ég. Ég heimsótti hana þangað eitt sumarið í hálfan mánuð og við áttum dásamlega daga. Í minningunni var sól og 30 stiga hiti allan tímann.

Við giftum okkur báðar sama árið og eignuðumst okkar fyrstu börn með tveggja mánaða millibili. Síðan tók lífsbaráttan við og samveran minnkaði, en alltaf vorum við mjög tengdar og í góðu sambandi.

Síðustu ár hefur Hrafnhildur dvalið mikið á Spáni, enda elskaði hún hitann og sólina. Hún var nýkomin þaðan þegar hún sofnaði svefninum langa og við höfðum ekki hist í marga mánuði. Ég sá núna þegar ég fór að athuga gömul gögn, að þær mæðgur, Hrafnhildur og Vibekka, voru næstum því jafngamlar þegar þær létust. Örn bróðir hennar var aðeins 49 ára þegar hann féll frá. Það er því öll eldri kynslóð fjölskyldunnar farin.

Þetta er mikið áfall fyrir fólkið hennar, og votta ég þeim Jóni, Valda, Júllu og börnum þeirra mína innilegustu samúð. Sjáumst síðar kæra frænka mín.

Sigríður Gústafsdóttir.

Hrafnhildur mín. Já, aldur er afstæður þegar kemur að vináttu, ég hélt að þú færir ekki á undan mér, sem er þér eldri.

Í dag kveð ég góða vinkonu sem ég kynntist þegar ég fór að vinna hjá fjölskyldu manns hennar á Þingvöllum 1967 og var í þessari Þórskaffifjölskyldu í mörg ár því systkinin voru og ráku þetta fyrirtæki á mörgum stöðum í fleiri ár.

Svo varst þú, Hrafnhildur mín, uppalin í Meðalholtinu og í sama húsi bjuggu foreldrar vinkonu minnar Ingerar sem flutti svo til Danmerkur með danska manninum sínum. Ég kom því oft í Meðalholtið og þá hitti ég oft foreldra þína – yndisleg hjón sem bæði eru látin nú.

Þegar þú, Hrafnhildur mín, varst með börnin þín smá á Þingvöllum hafði ég gaman af að hitta þau og elta um. Valdimar var ekki stór þegar við fórum í berjamó og hann var svo glaður að vera kominn með fleiri ber í fötuna en hann skildi ekki að þetta voru lambaspörð.

Svo liðu árin og við hittumst alltaf af og til og eins og gengur og gerist eignaðist ég stóra fjölskyldu.

Þegar börnin svo stækkuðu fór ég að fara til Spánar, Alicante, og þá voruð þið Jón þar líka. Ég og Siddi maðurinn minn fórum í margar góðar ferðir með ykkur því þið voruð svo góð að hafa okkur með. Við heimsóttum ykkur líka í Seljugerðið þegar við komum í bæinn.

Í vetur eða vor áður en plágan kom hringdi Jón í mig og sagði: „Við hittumst í haust á Spáni!“ og ég hélt það nú.

En svona getur lífið verið, enginn veit sína ævina fyrr en öll er og aldur hefur ekkert með það að gera.

Ég votta Jóni, börnunum og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Samúðarkveðjur,

Bryndís Flosadóttir og Sigtryggur Benedikts (Biddý og Siddi).