Viðspyrnan Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér ræða við fjölmiðla í Hörpu um nýkynntar aðgerðir.
Viðspyrnan Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér ræða við fjölmiðla í Hörpu um nýkynntar aðgerðir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þorsteinn Ásgrímsson Melén Karítas Ríkharðsdóttir Jón Sigurðsson Nordal Ríkisstjórnin kynnti í gær á blaðamannafundi í Hörpu margvíslegar aðgerðir til þess að koma til móts við afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

Þorsteinn Ásgrímsson Melén

Karítas Ríkharðsdóttir

Jón Sigurðsson Nordal

Ríkisstjórnin kynnti í gær á blaðamannafundi í Hörpu margvíslegar aðgerðir til þess að koma til móts við afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Fela aðgerðirnar meðal annars í sér að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og hlutabótaleiðin svonefnda framlengd, en auk þess munu fyrirtækjum standa til boða svonefndir viðspyrnustyrkir, hafi tekjur þeirra fallið vegna faraldursins eða sóttvarnaaðgerða stjórnvalda um 60% eða meira á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, frá sama mánuði árið 2019. Þá verða einnig tekjufalls- og lokunarstyrkir í boði.

Hefur trú á hraðari umskiptum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að með aðgerðunum væri verið að teygja sig út til þeirra sem upplifðu tekjuhrun og stæðu eftir með öflugan og farsælan rekstur sem glímdi við forsendubrest. „Þessa aðila viljum við styðja sem og þá sem hafa tapað atvinnu sinni í hamaganginum.“ Kom fram í máli Bjarna að hann hefði trú á því að viðspyrnan yrði hraðari en spár ýmissa aðila, þ.ám. Seðlabankans og ASÍ, gerðu ráð fyrir. „Ég hef trú á því að það leynist ómælanlegur kraftur í íslenska hagkerfinu sem muni losna úr læðingi, og framtakssemi, dugnaður og vilji til að bjarga sjálfum sér séu einkenni sem Íslendingar búa yfir,“ sagði Bjarni.

Skref í rétta átt en ekki nóg

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði hins vegar í samtali við Morgunblaðið að þótt viðspyrnuaðgerðirnar væru skref í rétt átt væru þær ekki fullnægjandi í heild. Þá væru þær seint fram komnar.

„Ég er ánægður með að ríkisstjórnin hlusti loksins á þær tillögur sem Samfylkingin hefur verið með frá því í vor,“ sagði Logi. „Í fyrsta lagi að stigið sé skref til að hækka grunnatvinnuleysisbætur, í öðru lagi að framlengja hlutabótaleiðina og í þriðja lagi að framlengja barnabætur til atvinnulauss fólks, sem Samfylkingin lagði til í vor og var samþykkt.“

Sagði Logi að Samfylkingin hefði lengi verið á því að víðtækari aðgerða væri þörf. „Þetta eru hlutir sem við erum búin að tala um síðan í vor og höfum lagt fram tillögur á þingi sem ítrekað hefur verið hafnað,“ segir hann.