Breskir hermenn í Reykjavík á stríðsárunum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Ekki fannst mynd af hetjunni Charles Forster.
Breskir hermenn í Reykjavík á stríðsárunum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Ekki fannst mynd af hetjunni Charles Forster. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
„Í fyrrakvöld vildi það til á Suðurgötunni, að 6 breskir hermenn voru að ónáða íslenska stúlku, sem gekk á götunni.“ Með þessum orðum hófst frétt á baksíðu Morgunblaðsins fyrir 75 árum, miðvikudaginn 21. nóvember 1945.

„Í fyrrakvöld vildi það til á Suðurgötunni, að 6 breskir hermenn voru að ónáða íslenska stúlku, sem gekk á götunni.“

Með þessum orðum hófst frétt á baksíðu Morgunblaðsins fyrir 75 árum, miðvikudaginn 21. nóvember 1945.

Að sögn blaðsins bar þá að amerískan hermann og bað stúlkan hann að hjálpa sér. Gerði ameríski hermaðurinn það og snerist gegn bresku hermönnunum. En við það komst stúlkan undan og þar með úr sögunni. En þeim bresku var lítið gefið um afskiptasemi hins ameríska og kom þarna til slagsmála, sem enduðu með því, að ameríski hermaðurinn varð illa útleikinn. „Liggur hann nú í sjúkrahúsi talsvert meiddur. – En þeir bresku eru í fangelsi. Ameríski hermaðurinn, sem kom stúlkunni til hjálpar heitir Charles Forster og er undirforingi í ameríska landhernum.“

Á baksíðunni kom einnig fram að Rögnvaldur Sigurjónsson hefði haldið píanótónleika í Gamla Bíó kvöldið áður við húsfylli og mikla hrifningu áheyrenda. „Listamaðurinn fjekk marga blómvendi og varð að leika tvö aukalög að síðustu.“