[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Sjúkrarýmum á Íslandi hefur fækkað töluvert á umliðnum árum og enn hallar undan fæti ef marka má árlegan samanburð OECD á stöðu heilbrigðismála í ríkjum sem gefinn var út í vikunni (Health at a Glance: Europe...

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Sjúkrarýmum á Íslandi hefur fækkað töluvert á umliðnum árum og enn hallar undan fæti ef marka má árlegan samanburð OECD á stöðu heilbrigðismála í ríkjum sem gefinn var út í vikunni (Health at a Glance: Europe 2020). Fjöldi sjúkrarúma á hverja þúsund íbúa var 2,9 á Íslandi árið 2018 og fækkaði lítið eitt frá árinu á undan þegar hér á landi var 3,1 sjúkrarúm skv. samanburði OECD.

Aðrar norrænar þjóðir eru einnig neðarlega á lista þegar dvalarrými á sjúkrastofnunum eru borin saman. Þrjú lönd eru fyrir neðan Ísland í samanburði á sjúkrarúmum miðað við höfðatölu hverrar þjóðar, Bretland (2,5), Danmörk (2,4) og Svíþjóð rekur lestina (2,1). Að meðaltali voru fimm sjúkrarúm á hverja þúsund íbúa í aðildarlöndum Evrópusambandsins á sama tíma. Alls eru 27 lönd fyrir ofan Ísland í þessum samanburði.

Norðurlöndin koma mun betur út þegar lagt er mat á mannafla í heilbrigðisþjónustu og er Ísland yfir meðallagi Evrópulanda í þeim samanburði. Fjölmargir þættir heilbrigðisþjónustu og heilsufars þjóðanna eru bornir saman í skýrslu OECD og kemur Ísland yfirleitt nokkuð vel út varðandi aðgengi og þjónustu, ævilengd o.fl. líkt og í fyrri úttektum OECD.

Alls voru 14,7 starfandi hjúkrunarfræðingar á hverja þúsund íbúa á Íslandi 2018 og er hærra hlutfall aðeins að finna í Noregi (17,7) og Sviss (17,6). Þá hefur starfandi læknum fjölgað á síðustu tíu árum ef miðað er við höfðatölu. Alls voru 3,9 læknar á hverja þúsund íbúa hér á landi árið 2018 og er það lítið eitt fyrir ofan meðallag í Evrópu. Fjöldi tannlækna í Evrópulöndunum er mjög breytilegur og er fjöldi tannlækna á hvern íbúa á Íslandi nálægt meðaltali í Evrópu eða 0,8 á hverja þúsund íbúa.

Sjúkrahúslegur hafa styst í meirihluta Evrópulanda frá aldamótum. Meðaltalsdvöl á sjúkrahúsum hér á landi var 5,9 dagar á árinu 2018, sem er töluvert undir meðallegutíma í Evrópulöndum og eru aðeins fimm lönd með styttri meðallegutíma en Ísland í samanburði OECD.

Útgjöld til heilbrigðismála á hvern íbúa á Íslandi voru talsvert yfir meðaltali Evrópulanda í fyrra en Ísland er þó ekki meðal efstu þjóða í samanburðinum. Umreiknað til sambærilegs verðlags í evrum jafngiltu útgjöldin 3.261 evru á hvern íbúa hér á landi 2019 en t.d. 4.505 evrum í Noregi, 3.919 evrum í Svíþjóð og 3.154 í Bretlandi. OECD ber líka saman heilbrigðisútgjöldin, bæði opinber útgjöld og valfrjálsar tryggingar og greiðslur úr eigin vasa, miðað við landsframleiðslu, og þá kemur í ljós að heildarútgjöldin til heilbrigðismála voru 8,8% af landsframleiðslu hér á landi í fyrra, sem er nokkru yfir meðaltali í löndum ESB (8,3%).

Ísland í áttunda sæti

Íslendingar eru meðal efstu þjóða í Evrópu þegar lagt er mat á ævilíkur við fæðingu. Meðalævilíkur Íslendinga eru nú 82,6 ár og er Ísland í 8. sæti meðal 37 þjóða. Í skýrslu OECD kemur einnig fram að hvergi í Evrópu er að finna lægra hlutfall barna með litla fæðingarþyngd. Aðeins 3,6% barna voru undir 2.500 grömmum við fæðingu hér á landi en meðaltalið í löndum ESB var 6,6%.

Líkt og í fyrri skýrslum OECD kemur fram að meirihluti Íslendinga teljist of þungur. Ofþyngd færist í vöxt í löndum Evrópu og er í skýrslunni sögð vera stórt heilbrigðisvandamál í álfunni. Eitt af hverjum fimm 15 ára ungmennum í Evrópu á við ofþyngd að glíma. Meðal fullorðinna Íslendinga telur ríflega fjórðungur sig vera of þungan og er það hlutfall hvergi hærra meðal ríkja Evrópu nema á Möltu. Tölur um útbreiðslu mislinga í fyrra sýna að tilfellin voru 2,5 á hverja 100 þúsund íbúa hér á landi, nokkru fleiri en annars staðar á Norðurlöndum.