Þórey Erla Ragnarsdóttir fæddist 27. júní 1941 í Reykjavík. Erla andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 8. nóvember 2020. Foreldrar Erlu eru Ragnar Þorsteinsson, f. 1895, d. 1967 og Alda Jenný Jónsdóttir, f. 1911, d. 1998.

Systkini Erlu eru Þorsteinn Guðni Þór, f. 1939, d. 1998, Halldór S. Hafsteinn, f. 1942, Ragnheiður Sigurrós, f. 1946 og Guðmundur Ragnar, f. 1954. Hálfsystkini Erlu eru föðurmegin Gunnar Aðalsteinn, f. 1922, d. 1954 og móðurmegin Unnur Lilja, f. 1930, Oddný Þorgerður, f. 1931, d. 2017 og Sigrún Hanna, f. 1934, d. 1986. Erla giftist Rögnvaldi Ólafssyni 26. desember 1962, foreldrar hans voru Ólafur Haraldur Stefánsson, f. 1908, d.1986 og Sólrún Elín Rögnvaldsdóttir, f. 1906, d. 1972. Erla og Rögnvaldur eignuðust fjögur börn:

1) Sólrún Elín, f. 1960, maki Sigurður Ingason og eru dætur þeirra Þórey Erla, sambýlismaður hennar er Atli Vignisson og eiga þau tvo syni, Róbert Inga og Silla Þór, og Hulda Sigrún, sambýlismaður hennar er Arnar Freyr Þrastarson og eiga þau tvo syni, Elmar Elís og Viktor Helga.

2) Ragnar, f. 1962, dóttir Ragnars er Emilía Ruth, f. 1989 og á hún 2 dætur, Selmu og Sofíu. Sonur Ragnars er Rögnvaldur Ágúst.

3) Rögnvaldur Þór, f. 1965, maki Rakel Sigurðardóttir. Sonur þeirra er Bjartur. Fyrir átti Rögnvaldur Daníel og Rakel Eirík Atla.

4) Alda Jenný, f. 1967, maki Arne Sólmundsson og eru börn þeirra Alex Berg og Jana Ruth.

Erla ólst upp í Reykjavík og vann við ýmis störf við verslun, eigin heildsölu og á leikskólanum Múlaborg en síðustu starfsárin var hún hjá fjármálaráðuneytinu. Erla og Rögnvaldur bjuggu lengst af í Reykjavík fyrir utan 3ja ára búsetu á Dalvík. Rögnvaldur andaðist 12. ágúst 1992.

Erla giftist Finnboga Guðmundssyni 26.6. 2008 en hann andaðist 1. janúar 2018. Börn hans eru Ágústa, Guðmundur, Arnbjörg og Ragnhildur.

Erla var mikil hannyrðakona og hafði mikinn áhuga á bæði útsaum og prjónaskap.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mamma okkar hefur kvatt þessa jarðvist og haldið á braut í sumarlandið þar sem ástvinir hennar hafa tekið vel á móti henni. Mamma var kletturinn í lífi okkar systkinanna, hún kenndi okkur heiðarleika, réttsýni og að vera góðar manneskjur. Mamma hafði mikla réttlætiskennd, ól okkur þannig upp og minnti okkur reglulega á að koma fram við aðra eins og við vildum að aðrir kæmu fram við okkur. Við höfum alltaf reynt að hafa það að leiðarljósi og gátum ekki fengið betra uppeldi. Við vitum að hún var stolt af okkur og okkar fjölskyldum.

Í bæninni fann mamma frið og ró og hún spjallaði oft við okkur um kærleikann og ljósið sem fylgdi henni alla tíð. Mamma var næmari en flestir og skynjaði hluti sem við hin sáum ekki. Oftar en ekki var hún búin að hringja í okkur ef eitthvað var að, þar sem hún var búin að finna það á sér.

Mamma var mikill dugnaðarforkur sem kvartaði aldrei þrátt fyrir veikindi og áföll sem hún þurfti að takast á við í lífinu. Hún var mjög sjálfstæð manneskja sem tókst á við sín verkefni í lífinu af krafti, eljusemi og æðruleysi er við átti. Fallegur engill hefur nú kvatt okkur og við minnumst mömmu með þakklæti, hlýju og söknuði og yljum okkur yfir fallegum minningum sem aldrei gleymast.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Ómar Ragnarsson/Gísli á Uppsölum)

Ef sérð þú gamla konu, þá minnstu

móður þinnar,

sem mildast átti hjartað og þyngstu

störfin vann

og fórnaði þér kröftum og fegurð

æsku sinnar

og fræddi þig um lífið og gerði úr

þér mann.

Þú veist, að gömul kona var ung og

fögur forðum

og fátækasta ekkjan gaf drottni

sínum mest.

Ó, sýndu henni vinsemd í verki og

í orðum.

Sú virðing sæmir henni og móður

þinn best.

Því aðeins færð þú heiðrað og metið

þína móður,

að minning hennar verði þér alltaf

hrein og skír,

og veki hjá þér löngun til að vera

öðrum góður

og vaxa inn í himin – þar sem

kærleikurinn býr.

(Davíð Stefánsson)

Elsku mamma, minning þín er ljós í lífi okkar og við þökkum þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Við erum mjög stolt og þakklát fyrir að hafa fengið að vera börnin þín. Takk mamma.

Sólrún, Ragnar,

Rögnvaldur og Alda.

Elsku amma okkar lést á Landspítalanum eftir stutt en erfið veikindi.

Amma var sú sem hægt var að leita til, alltaf svo skilningsrík og heiðarleg. Hún kenndi manni margt í gegnum árin. Ömmu þótti vænt um fólkið sitt og átti fjöldann allan af barna- og barnabarnabörnum sem munu sakna hennar nú þegar hún er farin.

Minningarnar um ömmu munu lifa hjá okkur öllum, takk fyrir allt elsku amma okkar.

Við kveðjum þig, kæra amma,

Við kveðjum þig, kæra amma,

með kinnar votar af tárum.

Á ást þinni enginn vafi,

til okkar, við gæfu þá bárum.

Horfin er hönd þín sem leiddi

á hamingju- og gleðifundum,

ástúð er sorgunum eyddi,

athvarf á reynslustundum.

Margt er í minninga heimi

mun þar ljósið þitt skína.

Englar hjá guði þig geymi,

við geymum svo minningu þína.

(Höf. ók.)

Þórey Erla og Hulda Sigrún.

Látin er elsku Erla okkar.

Það var sárt að missa þessa yndislegu konu, sem var hluti af okkar lífi.

Þegar við rifjum upp þann tíma sem við áttum samleið þá situr eftir þakklæti og heiður að hafa fengið að njóta allra þeirra stunda sem við áttum saman.

Erla kom inn í líf okkar systkina og fjölskyldna fyrir 25 árum þegar pabbi og Erla felldu hugi saman. Þau áttu yndisleg ár saman og nutu lífsins enda komin á þann aldur að kunna að njóta og geta leyft sér að njóta.

Eftir því sem við kynntumst Erlu betur þá var augljósara hvernig hún vildi búa að hlutunum til lengri tíma og að mikilvægt væri að gefast aldrei upp, hlusta ekki á úrtölur eða dvelja of lengi við yfirborðið.

Hún horfði fram á veginn og var aldrei að velta sér upp úr hlutum sem skiluðu engu.

Það var áhugavert að sjá hversu Erla og pabbi áttu samleið með þessa lífssýn.

Margar eru sögurnar af góðri nærveru hvort heldur sem farið var í ferðalag hér heima eða erlendis, svo ekki sé minnst á stangveiði eða bústaðaferðirnar þar sem ávallt var nóg fyrir stafni.

Hefðbundnar rammíslenskar matarstundir með Erlu og pabba áttu sinn sess og dreifðust jafnt út árið því bæði voru þau miklir matgæðingar.

Síðustu árin þegar faðir okkar var á lífi nutu þau þess að dvelja vetrarlangt á Spáni. Erlu fannst yndislegt að komast þar í birtuna og hlýjuna.

Erla var einstök á svo marga vegu. Hún var umfram allt kærleiksrík, skemmtileg, hörkudugleg og traust kona, sem ávallt var tilbúin að rétta hjálparhönd.

Það var dýrmætt að hafa átt hana að og gott að minnast hennar.

Nú kveðjum við Erlu og erum þakklát fyrir það sem hún kenndi okkur.

Við biðjum fyrir góðri leið í sumarlandið og vitum að vel verður tekið á móti henni en við hin í jarðríki munum reisa henni minnisvarða í hugum okkar.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Hvíl í friði,

Finnbogabörn,

Ágústa, Guðmundur, Arnbjörg, Ragnhildur

og fjölskyldur.