Guðný Ósk Einarsdóttir fæddist 20. apríl 1939. Hún lést 27. október 2020.

Útförin fór fram 18. nóvember 2020.

Elsku hjartans mamma mín er látin.

Mikið sakna ég þess að geta ekki spjallað við hana áfram á messenger. Ég bjó erlendis í nokkur ár þar sem það var svo mikils virði að geta hist á spjallinu og áfram eftir heimkomuna vegna covid. Fengum hana út til okkar í heimsókn, var það dýrmætur tími þar sem mikið var skoðað og brallað saman. Okkar sameiginlega áhugamál var að dansa, hlusta á góða tónlist og lesa góðar bækur. Stunduðum línudans í meira en 20 ár og vorum saman í bókaklúbb sem var okkur báðum mikils virði.

Mamma sem var kölluð Dúna var fimmta barn foreldra sinna, fjórir strákar og síðast kom lítil stelpa, óskin eins og nafn hennar ber. Tveir fyrstu drengirnir fengu varla að berja heiminn augum, þeir létust rétt eftir fæðingu. Foreldrar hennar skildu þegar Dúna var um tveggja ára. Æskuárin voru því erfið vegna baráttu móður hennar við að koma þeim systkinum til vits og ára og mikið flakk vegna húsnæðiseklu. Dúna stundaði nám í Austurbæjarskólanum. Á sumrin fór hún í sveit, m.a. í Víðidal, V-Hún., á bæ sem hét Melrakkadalur. 14 ára fór hún til sjós á bát, Nönnu GK 25, á síldveiðar.

Mamma elskaði Dalina. Mamma hennar Guðrún Oddný Ingveldur Valdimarsdóttir var fædd í Lambanesi, Saurbæ í Dölum. Mamma fór mjög ung sem vinnukona til afa Steingríms og ömmu Steinunnar að Heinabergi í Dölum. Þar var mikil vinna við að gera matarforða úr því sem jörðin hafði að bjóða en hún var mikil matarkista, æðardúnn og egg sótt út í eyju í Breiðafirðinum, gæsir reyttar, slátur tekið o.fl. Hún eignaðist marga góða vini í sveitinni og man ég eftir heimsóknum með henni í Dalina þegar ég var lítil.

Við mamma bjuggum hjá ömmu Guðrúnu í Melabragganum í Reykjavík fyrstu æviárin mín. Systir mín fæddist fyrir tímann en hún lést skömmu eftir fæðingu. Svo kom Elli bróðir, þá fékk ég að vera litla mamman hans. Hann lést aðeins 46 ára eins og stjúpi okkar. Yngsta barnið Brynjar fæddist þegar við bjuggum í Skerjafirðinum. Við fluttum í Hafnarfjörð 1969 og bjó mamma þar til hinsta dags utan tveggja ára í Vogunum.

Mamma var svo dugleg að sauma á mig, t.d. fermingardressið, dragsíða leðurkápu sem ég notaði upp til agna. Ég á ennþá sendibréfin frá henni þegar ég var í sveitinni 1970 og 1971 en þar eru hennar mestu áhyggjur að stuttbuxurnar eða eitthvað annað sem hún var að sauma passi ekki því hún hafi mig ekki til að máta.

Hún var fræg í fjölskyldunni fyrir fallegu lopapeysurnar sínar sem við öll eigum eftir hana og margir vina okkar.

Eldri drengirnir mínir Kári og Sveinbjörn muna eftir þegar þeir voru litlir að hafa kynnst Star Wars hjá afa Ragga og ömmu Dúnu og var það auðsótt mál að leigja vídeóspólu þegar þeir komu í gistingu. Svo kom amma Dúna yngsta mínum Andra Má líka upp á Star Wars en hann kynntist aldrei afa sínum.

Hún fékk hjartastopp þegar við mæðgur vorum á línudansballi í Básum, þá nýlega orðin sextug.

Þá tókst að bjarga henni með splunkunýju hjartastuðtæki (það hafði aldrei verið notað) og teljumst við heppin að hafa fengið að hafa hana 21 ár í viðbót. Hún fékk hjartaáfall laugardaginn 24. október og lést þrem dögum síðar, 27. október, umvafin kærleika fjölskyldunnar sinnar.

Þín dóttir,

Guðrún Andrea (Adda).