[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Pálsson fæddist í Reykjavík 21.11. 1970. Hann ólst upp á Neðri-Hálsi í Kjós til sex ára aldurs með afa sínum og móður. „Við mamma fluttum í bæinn og bjuggum þar með Elínu ömmu og Lindu frændsystur minni.

Arnar Pálsson fæddist í Reykjavík 21.11. 1970. Hann ólst upp á Neðri-Hálsi í Kjós til sex ára aldurs með afa sínum og móður. „Við mamma fluttum í bæinn og bjuggum þar með Elínu ömmu og Lindu frændsystur minni. Það heimili var eins og umferðar- og félagsmiðstöð og við krakkarnir fengum gott rými til leikja og lesturs. Flest sumur dvaldi ég í sveitinni, fyrst við leik en svo var manni tyllt á traktor. Valtandi nýræktir tíu ára gamall, í fyrsta gír í lága drifinu, svo hamingjusamur að ég söng úr mér lungun.“

Arnar fór í Álftamýrarskóla og þaðan í MH. „Í baksýnisspegli er freistandi að sjá í fortíðinni skref sem leiddu til núverandi starfs, í mínu tilfelli sem líffræðings. En í raun var hugurinn og áhuginn á miklu flökti. Mér fannst meira gaman að teikna og lita, en t.d. að tala. Ég finn til mikillar samkenndar með fólki sem vill ekki segja of mikið og vera í einrúmi, því ég þagði í gegnum næstum allan barna- og gagnfræðaskóla. Í menntó sökk ég í nýbylgjutónlist, og við vinirnir spiluðum argasta hroða og perlur ýmsar í þættinum Neðanjarðargöngunum á Útrás – útvarpi framhaldsskólanna. Við gerðum okkur gildandi, endursögðum tíðindi úr enskum tónlistarblöðum og lékum vikulega ævintýri ofurhetjunnar Klisjumanns og hans hvursdags andhverfu Fígó Flörensen, sem Hjálmar félagi vor skóp.“

Eftir menntaskóla vann Arnar eitt ár í sveitinni og við lagerstörf á Reykjalundi. „Amma Hlín var þar í endurhæfingu, eiginlega komin í hring því hún og afi Árni kynntust á berklahæli en bjuggu við Reykjalund í áratugi því afi var í allskonar störfum hjá SÍBS og á tímabili forstjóri staðarins.“

Eftir það fór Arnar í háskólann. „Ég var svo lánsamur að læra líffræði við HÍ undir leiðsögn margra frábærra kennara. Eftir því sem ég lærði meira, óx og dýpkaði áhuginn, ekki bara á þekktum fyrirbærum eða lífverum, heldur ekki síður á því óþekkta eða hvernig við getum svarað spurningum um eiginleika lífvera og vistkerfa. Alla tíð hefur mér reynst erfitt að einbeita mér bara að einu og ég fékk mikinn áhuga á erfðum og þroskun, og ekki síst þróun lífvera og það er starfsferill minn. Það sem hefur heillað mig mest er dulinn erfðabreytileiki, þ.e.a.s. breytileiki í genum sem ekki hefur áhrif á eiginleika lífvera nema við sérstakar aðstæður, t.d. annað hitastig eða jafnvel erfðaaðstæður, þ.e. þegar viss stökkbreyting er til staðar. Þetta fyrirbæri virkar næstum yfirskilvitlegt, en er það þó ekki, en birtist og hverfur eins og tálsýn. Greg Gibson, leiðbeinandinn minn í doktorsnáminu í Norður-Karólínu, hefur síðan heimfært þetta líkan yfir á menn, sem bendir til að sumir erfðagallar séu alvarlegir í dag vegna þess að genin okkar séu í nýju umhverfi, t.d. ofgnótt hitaeininga og hreyfingarleysi.“

Arnar kynntist eiginkonu sinni, Sólveigu Sif Halldórsdóttur, í meistaranáminu í líffræðinni. „Þetta var eiginlega svona líffræðiást,“ segir hann og hlær. Þau fóru saman til State University í Raleigh Norður-Karólínu þar sem Arnar lauk doktorsprófi í erfðafræði árið 2003. Þaðan fóru þau til Chicago þar sem hann var nýdoktor við University of Chicago, sem var aðallega rannsóknarstaða en Arnar kenndi þó eitt námskeið. „Hann segir það hafa verið gott að læra í Raleigh, því borgin er róleg og þægileg. Hann segir þó Chicago miklu skemmtilegri borg, meira líf og fjör og meiri fjölbreytni. Árið 2006 fluttu hjónin heim, komin með eitt barn. Arnar vann tæpt ár hjá Íslenskri erfðagreiningu en fékk þá vinnu við Háskóla Íslands, þar sem hann hefur unnið síðan.

Það er greinilegt að Arnar hefur brennandi áhuga á mörgum sviðum innan vísindanna, en eins hefur hann áhuga á því að eiga vísindasamtalið við samfélagið. „Mér finnst merkilegt hvernig við getum lært eitthvað um heiminn og mikilvægt að tala um það við alla, ekki bara kollega mína.“ Arnar hefur skrifað mikið fyrir vísindavefinn og skipulagt málstofur og viðburði sem eru bæði fyrir fræðimenn og eins atburði sem eru fyrir leikmenn. Hann nefnir Jane Goodall sem var vísindamaður en fór síðan að helga sig náttúruvernd og er þekkt fyrir vinnu sína með simpansa í Tansaníu á sjöunda áratugnum. Hópur fræði- og leikmanna skipulagði heimsókn hennar til Íslands árið 2016 þar sem hún hélt fyrirlestur fyrir fullu Háskólabíói, en var einnig með tíma í háskólanum með ólíkum nemendum og hitti unglinga og börn. „Það var virkilega gaman að taka þátt í þessu. Hún talaði mikið um hversu mikilvægt það væri að rannsaka heiminn, en um leið mikilvægt að rannsaka og tala um afleiðingar gjörða okkar á jörðinni.“

Upp á síðkastið hefur Arnar skrifað mikið á vísindavefinn um kórónuveiruna ásamt fleiri fræðimönnum og nefnir hann mikilvægi ritstjóra vefsins, Jóns Gunnars Þorsteinssonar, í því starfi, en hann hafi skynjað þörfina á traustum upplýsingum strax og brugðist við.

Það kemur kannski ekki á óvart að prófessorinn hafi gaman af lestri fræðibóka, en hann segist líka lesa mikið af skáldsögum og sé nýbúinn að kaupa tvær slíkar í Bóksölu stúdenta. „Síðan hef ég alltaf gaman af því að vera úti í náttúrunni, og þar verð ég á afmælisdaginn með fjölskyldunni.“

Fjölskylda

Eiginkona Arnars er Sólveig Sif Halldórsdóttir, f. 18.7. 1971, líffræðingur. Foreldrar hennar eru hjónin Halldór V. Kristjánsson, f. 26.5. 1946, stjórnsýslufræðingur og Guðlaug Gunnarsdóttir, f. 14.9. 1950, d. 11.3. 2012, læknaritari.

Börn Arnars og Sólveigar eru Þorgeir, f. 5.6. 2001, háskólanemi; Áshildur, f. 18.12. 2007, nemi og Teitur, f. 23.9. 2010, nemi.

Foreldrar Arnars eru Ólöf Oddsdóttir, f. 12.9. 1948, d. 28.10. 2020, lífeindafræðingur í Reykjavík, og Páll Árnason, f. 18.6. 1951, tæknifræðingur í Lyngby, Danmörku, giftur Kristínu Önnu Einarsdóttur, f. 26.5. 1953, hjúkrunarfræðingi og deildarstjóra.