Flugstarfsemi Miðstöð innanlandsflugsins er á Reykjavíkurflugvelli.
Flugstarfsemi Miðstöð innanlandsflugsins er á Reykjavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Reykjavíkurborg leggst eindregið gegn því að Alþingi samþykki tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem nú er til meðferðar í þinginu. Ekki komi til greina að svipta Reykjavíkurborg skipulagsvaldi yfir flugvellinum.

Reykjavíkurborg leggst eindregið gegn því að Alþingi samþykki tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem nú er til meðferðar í þinginu. Ekki komi til greina að svipta Reykjavíkurborg skipulagsvaldi yfir flugvellinum.

Þetta kemur fram í umsögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Ebbu Schram borgarlögmanns um tillöguna. Umsögnin var kynnt í borgarráði á fimmtudaginn.

Fulltrúar meirihlutans í ráðinu bókuðu að umrædd tillaga til þingsályktunar væri í andstöðu við stjórnarskrárvarinn sjálfsstjórnarrétt og skipulagsvald sveitarfélaga. Þá sé bent á í umsögn borgarlögmanns og borgarstjóra að niðurstaða slíkrar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu getur hvorki bundið Reykjavíkurborg né haggað gildi lögmætra skipulagsáætlana sem gilda um Reykjavíkurflugvöll. Loks er bent á að nú þegar er að störfum hópur sem kannar Hvassahraun til hlítar sem nýtt flugvallarstæði. Sá hópur á að skila niðurstöðu fyrir lok árs 2022.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, lagði fram svohljóðandi bókun: „Reykjavíkurborg krefst þess að vera sjálfstæð og þá sérstaklega í skipulagsmálum. En þegar kemur að bágum fjármálum borgarinnar á ríkið að koma með gríðarlegt fjármagn inn í reksturinn. Umsögn borgarlögmanns er sláandi þegar litið er til samnings ríkisins við Reykjavíkurborg um framtíð Reykjavíkurflugvallar frá 29. nóvember 2019. Ég hef nú þegar skrifað stjórn umhverfis- og samgöngunefndar bréf þar sem ég lýsti yfir forsendubresti Reykjavíkurborgar við samninginn.“ sisi@mbl.is