Landslið Gambíu kom á flugvöllinn í Gabon á miðnætti og komst ekki af honum fyrr en sex tímum síðar. Einn liðsmanna, Pierre-Emerick Aubameyang, settir myndir af liðsfélögum á gólfinu á Instagram.
Landslið Gambíu kom á flugvöllinn í Gabon á miðnætti og komst ekki af honum fyrr en sex tímum síðar. Einn liðsmanna, Pierre-Emerick Aubameyang, settir myndir af liðsfélögum á gólfinu á Instagram.
Jóhannesarborg. AFP | Bellibrögð eru snar þáttur í knattspyrnunni í Afríku og fá gestalið oft óblíðar móttökur. Áhorfendur grýta flöskum, á flugvöllum bíða óendanlegar tafir og á hótelum er enginn svefnfriður.

Jóhannesarborg. AFP | Bellibrögð eru snar þáttur í knattspyrnunni í Afríku og fá gestalið oft óblíðar móttökur. Áhorfendur grýta flöskum, á flugvöllum bíða óendanlegar tafir og á hótelum er enginn svefnfriður.

Þessar aðferðir komust í hámæli í vikunni þegar landslið Gabon með stjörnuna Pierre-Emerick Aubameyang, sem leikur fyrir Arsenal, mátti gera sér að góðu að sofa á gólfinu á flugvellinum í Gambíu fyrir leik í undankeppni Afríkubikarsins.

Stjórnvöld í Gambíu sögðu að gestirnir hefðu ekki uppfyllt reglur heilbrigðisyfirvalda vegna kórónuveirunnar, en talsmenn Gabon sögðu að liðið hefði fengið „ómannúðlegar“ móttökur til að draga úr því mátt fyrir viðureign liðanna á toppi síns riðils.

Gabon tapaði 2-1 eftir hrapalleg mistök Anthony Mfa Mezui í markinu og eru liðin nú efst og jöfn í riðlinum þegar tveir leikir eru eftir.

Afríska knattspyrnusambandið hefur fyrirskipað rannsókn á atvikinu sem fór um netheima eins og eldur í sinu eftir að Aubameyang tísti myndum af liðinu sofandi á hörðu gólfinu.

AFP tók saman nokkur þeirra bragða sem gestgjafar beita til að koma andstæðingum sínum úr jafnvægi andlega og líkamlega í þeirri trú að það auki líkur þeirra á sigri.

Flugvellir

Iðulega er áþekkum brögðum beitt og í Gabon til þess að seinka komu liða á hótel sín. Ef enskumælandi lið kemur til fransk- eða arabískmælandi lands án túlks er það auðveld bráð. Skyndilega skilja verðir, sem allajafna eru flugmæltir á ensku, ekki aukatekið orð þegar afgreiða þarf vegabréf, áritanir og önnur ferðagögn. Oft eru vandamál hreinlega búin til í því skyni að kyrrsetja gestina og reyna á þolrif þeirra.

Rútuferðir

Lið eiga von á að þeirra bíði nútímalegar, loftkældar rútur, sem muni flytja þau á hótel, en það getur verið öðru nær. Lið hafa sagt hryllingssögur af ævafornum, vart gangfærum farartækjum, með of fáum sætum, engri loftkælingu og gluggum, sem ekki er hægt að opna þannig að farþegarýmið verður eins og bakaraofn.

Til að bæta gráu ofan á svart er bílstjórinn vís til að velja lengri leið en nauðsynlegt er til að auka á óþægindin.

Ekki er síðan loku skotið fyrir að rútan bili á leiðinni. Þá getur tekið óratíma að bíða eftir öðru farartæki til að koma liðinu í næturstað.

Hótel

Þau eru iðulega þungamiðja tilrauna til að gera gestunum lífið leitt, hvort sem það eru landslið eða félagslið.

Sögur af miklum töfum við innritun, biluðum lyftum og herbergjum fullum af kakkalökkum þar sem aðeins kalt vatn dropar úr krönum ef nokkurt vatn er þá að hafa eru endalausar.

Stundum virka sjónvörpin ekki og símarnir eru sambandslausir. Markmiðið er að leikmenn verði svo viðþolslausir að þeir hugsi ekki um annað en að komast heim.

Lið frá Simbabve, sem leika átti í vesturhluta Afríku, kvartaði undan því að gert hefði verið ráð fyrir að fjórir fullorðnir deildu tvöföldum rúmum og vændiskonur hefðu barið látlaust að dyrum og heimtað peninga á meðan dynjandi tónlist frammi á ganginum kom í veg fyrir að nokkrum manni kæmi dúr á auga.

Æfingar

Knattspyrnumenn, sem eru komnir með upp í kok eftir tafir á flugvöllum, óviðunandi rútur og óboðleg hótel, hugsa um það eitt að komast á æfingu. En þrautagöngunni er ekki lokið. Nú tekur við annað óþarflega langt ferðalag í rútu án loftkælingar með lokaða glugga. Æfingasvæðið reynist vera sandblettur án nokkurra merkinga og vallarvörðurinn með lyklavöldin er hvergi sjáanlegur.

Þegar hann loks birtist er komið myrkur og þar sem engin flóðljós eru á svæðinu þarf að aflýsa æfingunni.

Áhorfendur

Þjálfarar tala sjaldan um að áhorfendur skjóti þeim skelk í bringu því að þeir vilja ekki vera sakaðir um að vera með lélegar afsakanir eftir tap.

Pitso Mosimani frá Suður-Afríku, sem nýlega var ráðinn þjálfari egypska stórliðsins Al Ahly eftir að hann reif upp lið Mamelodi Sundowns í Pretoríu, steig þó það skref.

„Þegar við vorum að spila við Entente Setif í Alsír hljóp einn af leikmönnum mínum [í Sundowns] að hliðarlínunni og flöskum rigndi yfir hann úr áhorfendastæðunum,“ sagði hann. „Þetta snýst allt um að hræða. Áður en við lékum við egypska liðið Zamalek í úrslitum meistaradeildar Afríku 2016 fengu margir okkar líflátshótanir á Instagram, Facebook og Twitter.“