Til að gera þetta enn neyðarlega stakk hann báðum höndum ofan í naríurnar og nuddaði rasskinnarnar duglega.

Eins og hálf þjóðin sit ég heima og vinn í tölvunni. Þetta hefur bæði kosti og galla. Einn augljós kostur er að ég þarf ekkert að vakna lengur 7.35. Ég get bara vaknað korter í níu, lallað niður á náttbuxum og bol, náð mér í kaffi og sest við tölvuna. Þar sem ég er nánast aldrei á zoomfundum skiptir engu máli hvernig ég lít út. Hver þarf brjóstahaldara? Því geymi ég bara sturtuna, mála mig ekki, greiði ekki hárið, sem lagast hvort sem er ekkert mikið við það þar sem það eina sem gæti bjargað því er klipping og strípur. Sem er ekki að fara að gerast á næstunni.

Ókostirnir eru nokkrir. Það er ansi stutt vegalengd á milli tölvunnar og ísskápsins. Á hálftíma fresti kíki ég þar inn til að athuga hvort eitthvað hafi fyrir kraftaverk vaxið þar síðan ég opnaði hann síðast. Kannski súkkulaðikaka?

Þetta sífellda nasl mun kosta mig blóð, svita og tár síðar meir.

Og þótt undirrituð geti setið eins og haugur við skriftir eru margir sem þurfa að vera í mynd í vinnunni. Fullt af fólki er endalaust á zoom- eða teamsfundum. Má það fólk vera á nærbuxum, náttbuxum eða allsbert? Þegar stórt er spurt.

Því þótt þú sért einn heima eru margir að horfa. Best er að sleppa því að leysa vind eða bora í nef, það gæti orðið ansi hreint neyðarlegt.

Þó varla jafn neyðarlegt og kom fyrir blaðamann hjá New Yorker í Bandaríkjunum. Hann „lenti“ í að fróa sér og það í mynd. Manngreyið vissi ekki að enn væri kveikt á myndavélinni þegar ákveðið var að taka pásu. Hann svipti sig fötum, kveikti á klámi og hófst handa. Það vakti ekki lukku hjá vinnufélögum og endaði með því að hann var rekinn.

Er það nú ekki helvíti hart? Ég meina, þetta var ekki bein útsending heldur einkafundur milli vinnufélaga. Var ekki nóg refsing að þetta færi í heimspressuna?

Annars er ansi fyndið að skoða netið og fletta upp mistökum á svona netfundum. Kona ein tók með sér símann inn á bað, gyrti niður um sig og settist á klósettið. Sú ætlaði ekki að missa af neinu! Hún bara gleymdi að hún væri í mynd, vesalingurinn. Síðan var það maðurinn sem stóð upp, sneri baki í myndavélina og reyndist þá vera á nærbuxum. Til að gera þetta enn neyðarlega stakk hann báðum höndum ofan í naríurnar og nuddaði rasskinnarnar duglega.

Hvað, maður getur nú orðið sár í rassinum að sitja svona heima við tölvu á lélegum stól!