Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra með tillögum um næstu sóttvarnaaðgerðir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra með tillögum um næstu sóttvarnaaðgerðir. Núverandi reglugerð rennur út á morgun en Þórólfur vildi á upplýsingafundi í gær ekkert gefa upp um sínar tillögur.

Búist er við að Svandís leggi tillögurnar fyrir fund ríkisstjórnarinnar í dag og í kjölfarið verði ný reglugerð gefin út.

Á fundinum í gær sagði Þórólfur ekki mikið rými til almennra tilslakana ef fólk vildi ekki fá bakslag í faraldurinn. Hann sagði vel koma til greina að hafa sóttvarnaaðgerðir svæðisbundnar í ljósi þess að flest smit væru á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt covid.is eru 160 í einangrun á höfuðborgarsvæðinu, níu á Norðurlandi eystra og færri í öðrum landshlutum. Alls greindust átta kórónuveirusmit innanlands á sunnudag, af þeim voru sjö greindir við einkennasýnatöku.