Dóra María Ingólfsdóttir fæddist 20. október 1926. Hún lést 13. nóvember 2020.

Útförin fór fram 30. nóvember 2020.

Í dag kveð ég elskulegu ömmu mína og nöfnu, Dóru Maríu. Amma var sú hlýjasta og yndislegasta manneskja sem til er. Það er óhætt að halda því fram að hver sem varð á vegi hennar myndi fljótt samþykkja að amma hreint og beint geislaði af góðmennsku. Hún umvafði alla með ástúð og hlýju og því ekki að undra að mínar æskuvinkonur kölluðu hana ömmu Dóru.

Ég ólst upp hjá afa og ömmu í Álfheimunum. Ég var eins og skugginn hennar ömmu þegar ég var lítil og margir héldu að ég væri yngsta barnið hennar. Við amma vorum alla tíð mjög nánar þótt seinna meir kæmi fjarlægðin á milli heimsálfa í veg fyrir að við hittumst daglega. Við bættum úr því með að eyða mörgum gæðastundum saman á sumrin þegar ég kom í heimsókn með elstu langömmustrákana. Einnig kom ég oft ein í sérstaka ömmuheimsókn í kringum afmælið hennar í október. Það var oft glatt á hjalla, mikið spjallað, spilað á spil fram á nótt og endalaust hlegið. Amma elskaði að spila á spil. Hún kenndi öllum börnunum og barnabörnunum að spila og það var yndislegt að sjá hana kenna strákunum mínum líka. Þeir voru oft undrandi yfir hve amma langa tapaði oft.

Amma var alltaf mjög glæsileg og vel til höfð, og fór aldrei út úr húsi án þess að setja á sig rauðan varalit og eyrnalokka. Hún var bæði fróð og skemmtileg, mikill krossgátu- og Sudoku-meistari, listakokkur og ekki má gleyma allri fallegu handavinnunni hennar. Hún var líka með svo skemmtilegan og smitandi hlátur. Hún var algjör brandarakerling og stríddi mér oft hvernig stæði á því að ég, nafna hennar, skuli enn ekki kunna að meta staup af koníaki.

Amma var með mikið á sinni könnu. Fyrir utan langan vinnudag við að reka matvöruverslun og sjoppu í Álfheimunum með afa, þá sá hún jafnframt um að halda fallegt heimili og ala upp stóran barnahóp. Hún var alltaf fyrst á fætur og síðust í háttinn, en aldrei varð maður var við að amma hefði ekki tíma fyrir mann. Amma hló dátt þegar ég spurði hana eftir að ég átti mín eigin börn hvernig hún hefði eiginlega farið að þessu. Hún var hreint út sagt ofurkona og það yrði vandfundið að finna ósérhlífnari manneskju en hana ömmu mína. Hún var með hjarta úr gulli.

Elsku besta amma mín,

Þetta eru ótrúlegir tímar. Aldrei hefði ég trúað því að örlögin myndu haga því þannig að ég kæmist ekki til Íslands til að fylgja þér síðasta spölinn. Einnig mikil vonbrigði að hafa ekki getað eytt síðasta sumrinu þínu með þér. Við eigum svo margar góðar minningar en sú sem ég mun ávallt geyma efst í huga er að þétt faðmlag og knús frá þér var allra meina bót. Þótt ég kveðji þig nú með sorg í hjarta, þá hugga ég mig við það, að afi er búinn að bíða lengi og hefur tekið á móti þér með faðminn opinn.

Hvíl í friði, elsku amma og amma langa. Við elskum þig öll.

Dóra María, Eric, Magnús og Thor.

„Neineineineineinei... ertu kominn?“ heyrist með umhyggjusamri röddu sem endar á hátíðni þegar ég hugsa til baka. Kominn til ömmu... kominn í Álfheima 4... kominn heim. Hausinn þinn hallar lítillega til hliðar, hendur koma hljóðlega saman í spenntar greipar og breitt, hlýlegt bros er á andliti þegar þú tekur á móti manni með mjúkum faðmi.

Allt mátti og allar kræsingar voru í boði. Ristað brauð með osti dýft í heitt kakó, gamalt Oreo-kex og mjólk, veiðimaður sem maður tapaði aldrei í og svo virtist sem nammiskápurinn hefði verið einhvers konar ótæmandi auðlind af góðgæti. Töfrum líkast! Í mörg ár stóð ég í þeirri trú að svona væru allar ömmur, en uppgötvaði síðar hversu einstök mannvera þú varst í raun og veru. Alla leið inn í kjarna varstu yndisleg og virkaðir sem viðmið, jafnvel öfgakona fyrir hvað góðmennska og einlægni lítur út í verki. Þú kaust að sjá aðeins það besta í fólki, sem margir hræðast nú á tíðum, því tortryggni og efasemdir eru ákveðinn varnarskjöldur sem fólk setur upp gegn vonbrigðum og sársauka. Í raun er þessi trú á náunga sínum gríðarlegur eiginleiki sem krefst ótrúlegs hugrekkis og dirfsku.

Utan frá séð segðu flestir hversu heppin þú varst að eiga mikið af góðu fólki í kringum þig sem veitti þér sífellda umhyggju, félagsskap og eftirlit. Ég tel þetta síður en svo vera heppni. Þú veittir þessum kjarnahópi í kringum þig uppeldi, leiðsögn og ótakmarkaða ást sem skilaði sér margfalt aftur til þín. Því var engin lukka í þínum spilum heldur uppskarstu það sem þú sáðir.

Dauðinn er óumflýjanlegur en styrk til að takast á við sorgina finn ég í boðskapnum sem þú skilur eftir þig. Að gefa sífellt af sér, sýna góðmennsku og þakklæti, hafa ósigrandi jákvæðni og hugarfar um að allt muni blessast að lokum. Þessum boðskap finn ég mig skyldugan til að lifa eftir og kenna áfram.

Takk fyrir mig amma. Ég elska þig.

Sigurður (Siggi).

Elsku besta amma Dóra kvaddi þennan heim hinn 13. nóvember síðastliðinn.

Amma var mjög ástrík, kærleiksrík og hlý og alltaf tók hún á móti okkur systkinunum með opinn faðm, tilbúin að spila, púsla eða lita með okkur. Þessi einstaka hlýja sem umlukti ömmu var engu lík og okkur leið ofboðslega vel hjá henni. Amma var líka mikill húmoristi og oft veltumst við um af hlátri saman.

Við áttum margar góðar stundir með afa og ömmu bæði á Spáni og í Álfheimunum þar sem þau pössuðu okkur. Þegar við áttum að fara heim settum við upp leik og þóttumst vera sofandi svo við gætum gist hjá ömmu og afa og það tókst oft hjá okkur.

Amma var sú sem maður gat alltaf treyst og sýndi mikinn áhuga á því sem við vorum að gera hverju sinni. Þegar við Siggi vorum í dansinum var hún okkar stuðningsmaður númer eitt, mætti á keppnir bæði innanlands og utan. Amma var hannyrðakona mikil og nýttist það vel þegar þurfti að laga og sauma danskjóla.

Eftir að afi dó og amma flutti í Miðleitið áttum við margar dýrmætar stundir þar tvær saman þar sem spjallað var um heima og geima. Amma var alltaf áhugasöm um það sem við barnabörnin vorum að gera og fylgdist vel með því.

Ég er afskaplega þakklát fyrir að börnin mín Karitas og Markús Alexander hafi fengið að kynnast ömmu (löngu) Dóru. Eftir að hún flutti á Seltjörn komum við oft eftir leikskóla í heimsókn. Alltaf ljómaði amma þegar hún sá okkur, og ljómaði hún enn meira þegar hún sá glitta í litla spékoppa. „Hvað er hægt að biðja um meira,“ sagði hún alltaf.

Ég kveð ömmu mína með sorg, en á sama tíma er ég svo glöð og þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum um hana.

Takk amma fyrir að hafa verið svona góð við okkur, við söknum þín.

Þín

Sandra.

„Taktu hár úr hala mínum og leggðu það á jörðina. Legg ég á og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru fjalli, að enginn komist yfir nema fuglinn fljúgandi.“

Amma svæfði mig oftar en ég get talið með sögunni af Búkollu, þegar ég gisti hjá ömmu og afa í Álfheimunum. Þær eru ófáar minningarnar sem ég á um samverustundirnar þar.

Í gömlu brúnu kojunni, amma sá til þess að búa svo um að ekki myndi drengurinn rúlla fram úr um nóttina. Um morguninn fékk ég yfirleitt heitt kókó og ristað brauð til að dýfa í. Þær eru óteljandi spilastundirnar, hvort sem það var olsen-olsen eða veiðimaður þá stóð ég yfirleitt á einhvern óskiljanlegan hátt eftir sem sigurvegari og þá sagði ég alltaf „amma er svooo aum“. Við rifjuðum þetta oft upp síðar meir og höfðum gaman af. Í seinni tíð eftir að amma þurfti á meiri aðstoð að halda þá sagðir hún við mig:

„Æ, Alex minn, nú er amma orðin aum.“

Minningarnar eru óteljandi, öll ferðalögin sem við fórum í um Evrópu og sérstaklega allar samverustundirnar á Spáni.

Þær eru mér svo minnisstæðar og dýrmætar sögurnar sem amma sagði mér um gömlu tímana, þegar hún var ung og hvernig lífið var í þá daga.

Ég er svo þakklátur fyrir að hafa átt þig sem ömmu.

Takk, elsku amma, fyrir alla góðu tímana. „Eigum við ekki að splitta einum?“

Þinn

Alex.

Elsku amma kvaddi okkur á fallegum heiðskírum degi þann 13. nóvember.

Það er svo margt sem við höfum upplifað saman í gegnum tíðina: púslað á Spáni, spilað í eldhúskróknum í Álfheimunum, ferðalög um Evrópu og svo margt, margt annað.

Amma hefur alltaf verið stór hluti af mínu lífi. Ég var aðeins nokkurra vikna gömul þegar ég fór í pössun til ömmu fyrst. Þessar samverustundir áttu eftir að verða margar og góðar, alltaf var opið ömmu- og afahús ef ég vildi gista hjá þeim sem var nokkuð oft.

Við eigum sérstaklega margar minningar frá húsinu á Spáni þar sem við eyddum mörgum góðum stundum. Nýkreistur ferskur appelsínusafi vekur upp góðar minningar, en amma var alltaf með tilbúið kreist handa mér á hverjum morgni.

Ég var svo heppin að fá að fara ein í frí með afa og ömmu þegar ég var 5 ára. Stjórnin var að spila á Benidorm og lagið „Við eigum Samleið“ var uppáhaldslagið mitt á þeim tíma – laglínan „á milli okkar er strengur, sterkari en stál“ á svo vel við samband okkar ömmu og við lögðum sérstaka áherslu á þessa línu þegar við sungum lagið saman aftur og aftur.

Ég var svo stolt þegar hún kom í útskriftina mína í Sviss og ég fann að hún var það líka.

Ég vildi óska þess að hún hefði haft heilsu til að koma í brúðkaupið mitt í Cornwall, vegna þess að hún var alltaf hluti af stóru stundunum í mínu lífi.

Í seinni tíð þegar elsku amma var hætt að geta ferðast ræddum við oft um minningar sem við áttum saman.

Hennar uppáhaldssaga var þegar amma, mamma, Sandra og ég þriggja ára þurftum að millilenda á Heathrow-flugvelli á leiðinni heim til Íslands – það var að sjálfsögðu mikill farangur sem fylgdi okkur og það var víst ekki mikill tími á milli flugvéla, smá stress. Ég hélt á minni eigin tösku og fylgdist með þeim burðast með allt annað sem okkur fylgdi, en mér hefur greinilega ekki fundist þær vera með nógu margar töskur eða kannski bara að ég vissi hversu mikil ofurkona hún amma var. Þá sagði ég við ömmu: „Þú mátt alveg halda á minni tösku líka.“ Það varð víst smá spennufall hjá mæðgunum og ekki annað hægt en skellihlæja á þessu augnabliki. Við höfum svo oft rifjað upp og hlegið að þessari sögu, ég heyri hláturinn hennar núna.

Elsku amma mín, mér þykir svo vænt um síðasta símtalið okkar, en það var örfáum dögum áður en þú kvaddir þennan heim. Þú söngst fyrir mig og kvaddir mig með: „Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum.“ Það er svo sannarlega gagnkvæmt því ég hef og mun elska þig alla tíð.

Á milli okkar er strengur

sterkari en stál.

Á meðan þú við hlið mér gengur

ríkir gleði í minni sál.

(Jóhann G. Jóhannsson)

Elsku amma, ég veit að þú munt alltaf ganga við hlið mér og vernda mig.

Þín

Díana.

Tárin streyma niður kinnarnar þegar ég sit hér og reyni að finna orð til þess að kveðja þig. Það er bara svo óraunverulegt að geta ekki lengur kysst mjúku kinnarnar þínar, haldið í höndina á þér, spjallað um heima og geima, heyrt smitandi hlátrasköllin þín eða sungið með þér.

Þú umvafðir mann kærleika og hlýju og einhvern veginn léstu mér alltaf líða eins og ég væri einstök. Þegar ég kom í heimsókn til þín fannstu alltaf strax á þér ef eitthvað var að angra mig og þú varst ekki lengi að kippa því í liðinn. Áður en ég vissi af voru allar áhyggjur heimsins á brott og ekkert var til fyrirstöðu lengur. Þegar ég kom út frá þér fannst mér ég vera ósigrandi ofurkona – eins og þú.

„Nú setjumst við,“ sagðir þú alltaf þegar maður var með fréttir sem þú varst spennt að ræða. Þegar við hittumst aftur verða heldur betur endurfundir og þá setjumst við, elsku amma. Setjum í okkur carmenrúllur, skellum á okkur rauðum varalit og setjum lit í brúnirnar. Ég myndi spyrja þig hvernig ég náði að plata þig til þess að leyfa mér að fara í alltof stórum háhæluðum leðurstígvélunum niður í bæ á 17. júní þegar ég var 10 ára. Síðan ræðum við allt sem hefur drifið á okkar daga á meðan þú spennir greipar og snýrð þumalputtunum hring eftir hring hvorum utan um annan, rifjum upp Spánarferðirnar okkar, fáum okkur kannski nýkreistan appelsínusafa eða heitt kókó og ristað brauð með osti og miklu smjöri, leggjum kapal og spilum gömlu jónku, fléttu og Svarta Pétur langt, langt fram á nótt.

Ég er svo þakklát fyrir það að eitt af því síðasta sem ég náði að segja þér var að ég væri ófrísk og þú ættir þar af leiðandi von á níunda langömmubarninu þínu. Ég hlakka til að kenna því allt sem þú hefur kennt mér í gegnum ævina eins og til dæmis að borða nóg, klæða mig vel, halda alltaf í höndina á mömmu á leiðinni yfir bílagötu og að beiskur brjóstsykur sé allra meina bót.

Ég legg lokahönd á þessi orð með ljóðinu, sem ég samdi fyrir þig, „Góða ferð amma“.

Með trega og söknuði ég þig kveð,

þar til ég fæ að vera með þér.

Minningar okkar ég ávallt geymi.

Ég veit þú vakir yfir mér,

fallegasti engill í heimi.

Þú ert fyrirmyndin mín og verður alltaf.

Elska þig,

þín

Snædís.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist

endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson) Elsku hjartans amma, engladrottningin okkar. Þá er komið að kveðjustund. Minningar og tár streyma en fyrst og fremst minnumst við þín með óendanlegu þakklæti og kærleika. Þakklæti fyrir allan þann góða og dýrmæta tíma sem við áttum saman, allt sem þú gerðir fyrir okkur og kenndir okkur, barnabörnunum og langömmubörnunum. Í huga okkar varstu holdtekja góðmennskunnar, einstök fyrirmynd, alltaf ljúf, góð og falleg með hlýjan, mjúkan faðminn og svignandi hlaðborð af góðgæti. Nærvera þín var einstök, alls staðar þar sem þú varst nærri varð allt betra, fallegra, jákvæðara, öruggara og gleðilegra. Þú komst alltaf auga á lausnir, sást alltaf það góða og fallega í öllu og öllum.

Minningarnar eru óteljandi um þig elsku hjartans amma, að spila „Bertu“ í sumarbústaðnum, ráða krossgátur í sólbaði á Spáni, reiðandi fram konunglegar krásir í Álfheimunum á hátíðisdögum í fínu stofunni og dýrindishversdagskaffi í eldhúskróknum, alls staðar var dásamleg gleði og gaman þar sem þú varst nærri og allir svo mikið meira en velkomnir inn á þitt heimili. Þú varst mikill tónlistarunnandi og fannst alltaf gaman að hafa góða músík og fjör í kringum þig og söngst þá gjarnan með og dillaðir þér með bros á vör eins og unglingsstelpa þrátt fyrir að vera orðin mikið veik undir það síðasta. Elsku amma, þú hefur kennt okkur svo ótrúlega margt sem er okkur dýrmætt veganesti út í lífið, þrautseigju, að gefast ekki upp þótt á móti blási, jákvæðni og bjartsýni, að halda alltaf í vonina þó að allar dyr virðist lokaðar, góðvild og náungakærleika, að sjá alltaf það góða og fallega í öllu og öllum og láta gott af sér leiða.

Elsku hjartans amma, megi Guðs englar taka á móti þér með þeim glæsileik og útgeislun líkt og þú tókst ávallt á móti þínum gestum. Blessuð sé minning þín einstaka perla.

Sesselja, Lilja, Edda,

Konráð og Unnar Leo.

Mín fyrstu kynni af Dóru voru fyrir 13 árum, er hún flutti inn í næstu íbúð við okkur hjónin.

Það var mitt lán, því með okkur tókst fljótt einlæg vinátta sem aldrei bar skugga á.

Hún var einstaklega hlý kona, alúðleg og móðurleg, en jafnframt bráðskemmtileg, spaugsöm og mikill húmoristi. Við áttum margar góðar stundir saman yfir kaffisopa og jafnvel víntári.

Dóra var ættfróð og minnug með afbrigðum og gat rifjað upp kímnislegar sögur af löngu liðnum atburðum.

Dóra glímdi við mikla vanheilsu undanfarið ár, en ekki heyrðist hún kvarta.

Hún naut fáheyrðrar og aðdáunarverðrar umhyggjusemi barna sinna alla tíð, svo ekki sé minnst á sólarhringsvöktun þeirra síðustu vikurnar.

Það er með mikilli eftirsjá sem við hjónin kveðjum Dóru Maríu Ingólfsdóttur.

Við samhryggjumst börnum hennar og þeirra fjölskyldum.

Blessuð sé hennar minning.

Edda Gísladóttir.