Jón Vilhjálmsson fæddist 5. maí 1955. Hann lést 13. nóvember 2020.

Útför Jóns fór fram 23. nóvember 2020.

Það er með miklum trega og sorg sem við á Orkustofnun sjáum svo skyndilega á bak starfsmanni og samstarfsmanni okkar í næstum fjóra áratugi. Jón kom til starfa á Orkustofnun að loknu meistaranámi i rafmagnsverkfræði frá bandarískum háskóla 1980. Hann starfaði hjá stofnuninni um sex ára skeið og var deildarstjóri orkubúskapardeildar OS. Í samdrætti og skipulagsbreytingum þess áratugar varð að samkomulagi að hann haslaði sér völl sem sjálfstæður ráðgjafi utan stofnunar en sinnti áfram mikilvægum verkefnum við að þróa og nýta spálíkön fyrir íslenska orkukerfið. Hann hefur alla tíð síðan sinnt því verkefni af miklum metnaði og unnið þétt með orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur stofnana og fyrirtækja sem hafa skyldum að gegna á þessu sviði. Vandaðar orkuspár eru grundvöllur að áætlanagerð og fjárfestingum í orkuvinnslu og orkuflutningi, þær eru mikilvægt tæki til þess að meta nauðsyn gjaldskrárhækkana fyrir flutning og dreifingu raforku og á okkar tímum hefur mikilvægi þeirra aukist enn, en því miður einnig flækjustig, við að meta og fylgja eftir áætlunum um orkuskipti og minnkandi losun koltvísýrings. Jón var gjörsamlega óþreytandi við að kryfja nýjar breytur eins og t.d. sparperur og orkuskipti í samgöngum sem hefðu áhrif á orkunotkun og finna þeim stað og vigt í spálíkaninu. Við sem komum að þessu með honum áttum stundum erfitt með að fylgja honum eftir en hann var beinlínis natinn við að skapa umræður og fá fram sjónarmið sem flestra vegna þess að þróun orkumála er ekki meitluð í stein heldur stjórnast að hluta af væntingum og viðhorfum í samfélaginu.

Við á Orkustofnun og hjá orkuspárnefnd sendum hugheilar samúðarkveðjur til eiginkonu, fjölskyldu og samstarfsmanna Jóns. Við munum reyna að viðhalda því góða verki og úthugsaðri aðferðafræði sem hann skilur eftir sig, og sem á eftir að nýtast með ýmsum hætti í glímunni við loftslagsvandann.

Guðni A. Jóhannesson.

Kveðja frá Verkfræðingafélagi Íslands

Jón Vilhjálmsson rafmagnsverkfræðingur lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1979 og meistaraprófi frá tækniháskólanum í Atlanta í Bandaríkjunum 1980. Að námi loknu starfaði Jón hjá Orkustofnun á árunum 1980-1986, lengst af sem deildarstjóri orkubúskapardeildar. Hann stofnaði verkfræðistofuna Afl árið 1987 ásamt öðrum. Það var einmitt árið sem ég kom sjálf heim að loknu framhaldsnámi í raforkuverkfræði og leiðir okkar lágu fljótlega saman vegna verkefna sem við unnum að fyrir sömu aðila.

Á árinu 2008 sameinaðist Afl þremur öðrum fyrirtækjum undir merkjum Eflu verkfræðistofu, sem í dag er ein stærsta verkfræðistofa landsins. Þar stýrði Jón orkusviði frá 2010 fram á þetta ár og sat í stjórn fyrirtækisins um skeið. Jón átti afar farsælan feril innan verkfræðinnar og eftir hann liggur fjöldi greina og skýrslna um orkumál og orkustefnu hér á landi.

Jón var dyggur liðsmaður Verkfræðingafélags Íslands og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hann sat í menntamálanefnd VFÍ á árunum 1983-1990, þar af sem formaður um tveggja ára skeið, og kom síðan aftur í menntamálanefndina 1996-1999. Jón vann ötullega að eflingu endurmenntunar og símenntunar verkfræðinga og tæknifræðinga og var lengi formaður nefndar um þau mál. Jón var í matsnefnd Háskóla Íslands um nám í verkfræði 1986-1987 og var um langt skeið formaður námsmatsnefndar Evrópusamtaka verkfræðinga og tæknifræðinga, FEANI, á Íslandi. Jón hafði skilning á mikilvægi VFÍ við að standa vörð um gæði náms í verkfræði og starfsheitið og var tilbúinn að leggja sitt af mörkum. Það var gott að leita til Jóns um ýmis fagleg málefni. Hann var fyrirlesari á fundum og ráðstefnum hjá félaginu og veitti meðal annars ráðgjöf við umsögn félagsins um fyrsta áfanga orkustefnu stjórnvalda á árinu 2018.

Verkfræðingafélag Íslands er stærsta og öflugasta félaga tæknimenntaðra á Íslandi. En styrkur félagsins er ekki einvörðungu metinn út frá fjölda félagsmanna. Hann felst ekki síst í því að góðir og traustir fræðimenn eru tilbúnir að leggja félaginu lið og vilja hag þess sem mestan. Fyrir það viljum við þakka Jóni Vilhjálmssyni.

Á persónulegri nótum langar mig að geta þess að leiðir okkar Jóns lágu margoft saman, í atvinnulífinu, vegna raforkumála og innan VFÍ. Samskipti okkar voru alla tíð afar ánægjuleg og traust. Hugurinn reikar til Parísar árið 2014 þar sem við sóttum bæði ráðstefnu CIGRE, alþjóðaráðs um stór raforkukerfi, og áttum ánægjulega daga saman ásamt stjórnendum Landsnets. Ég á fallega mynd af okkur öllum saman þar sem við stöndum brosandi úti á götu í París. Jóhönnu Rósu, eiginkonu Jóns, vantar því miður á myndina því hún tók hana. Á þessa mynd horfi ég nú, þegar þessi minningarorð eru rituð.

Við minnumst Jóns með hlýju og vottum Jóhönnu Rósu og fjölskyldu þeirra Jóns innilega samúð.

F.h. Verkfræðingafélags Íslands,

Svana Helen Björnsdóttir, formaður.