Bond Frumsýningu á No Time To Die hefur tvisvar verið frestað í ár.
Bond Frumsýningu á No Time To Die hefur tvisvar verið frestað í ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
sviðsljós Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Svonefndar stórmyndir hafa þurft að bera hallann af kórónuveirufaraldrinum líkt og margt annað.

sviðsljós

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Svonefndar stórmyndir hafa þurft að bera hallann af kórónuveirufaraldrinum líkt og margt annað. Þannig hefur frumsýningu á væntanlegri James Bond-mynd, No Time To Die, tvisvar verið frestað, leikna Disney-myndin Mulan var frumsýnd á streymisveitum og Top Gun: Maverick hefur ekki enn birst á hvíta tjaldinu. Vegna þessa hafa erlendir miðlar dregið upp dökka mynd og jafnvel gengið svo langt að spá endalokum hollywoodstórmynda. Þorvaldur Árnason, framkvæmdastjóri Samfilm, gefur lítið fyrir þessar vangaveltur og segir að starfsemin muni komast í eðlilegt horf þegar faraldrinum slotar.

„Við erum bjartsýnir á að bíóin muni lifa góðu lífi eftir að þessu lýkur,“ segir Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið.

Myndirnar verði á endanum frumsýndar, þótt það verði ekki fyrr en á næsta ári.

„Þessar myndir munu allar verða stórar í bíó alveg eins og þær voru. Að sjálfsögðu verður það þegar ástandið er orðið eðlilegra og fólk verður óhræddara við að vera í fjölmenni,“ segir hann. Eftir að fjöldatakmarkanir verði afnumdar muni markaðurinn taka við sér.

„Ég held að fólk þyrsti í að fara í bíó. Eftir að þú ert búin að vera heima að horfa á efni held ég að þig langi til að fara á góða „blockbuster“-mynd í bíó. Þig langar að koma út og upplifa þetta á stóra tjaldinu,“ segir hann.

Eðli málsins samkvæmt muni þó fjöldi mynda, sem einhvern tímann hafa verið hugsaðar sem bíómyndir, verða endurhugsaður og settur á streymisveitur.

„Ekki í fyrsta sinn sem bíóunum er spáð dauða“

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bíóum er spáð dauða. Þau hafa alltaf plumað sig og íslenski markaðurinn hefur verið sérstaklega góður bíómarkaður í gegnum tíðina,“ segir hann en streymisveitur á borð við Netflix og Hulu fara sístækkandi og hafa því margir spurt sig hvort kvikmyndahúsið sé einfaldlega barn síns tíma.

„Það má segja með íslenska bíómarkaðinn að vandamálin okkar eru ekki endilega fjöldatakmarkanir sem við búum við. Hvort sem það voru 50 eða 100 manna fjöldatakmarkanir í sumar var vandamálið okkar að önnur lönd voru í svo erfiðum málum vegna Covid. Okkur vantaði að fá efni til landsins og við erum mjög háð því,“ segir hann. Myndin Tenate eftir Christopher Nolan hafi komið sterk inn í lok sumars en fram að því tóku íslensku myndirnar Veiðiferðin og Amma Hófý sviðsljósið.

„Þessar myndir keyrðu markaðinn svolítið áfram þangað til við fengum loksins Christopher Nolan-myndina Tenate í ágúst. Hann er ötull stuðningsmaður bíóhúsa og var harður á því að myndin yrði sýnd – við yrðum að fá eina góða mynd í bíó,“ segir hann.

Þó svo að takmarkanir séu í gildi deyja íslensku bíóhúsin ekki ráðalaus – enn er opið í Áldabakka og hefur kvikmyndarisinn Warner Bros tilkynnt að Sambíóin fái að sýna Wonder Woman í desember.

„Það er staðfest að hún kemur til okkar um jólin. Nú bíðum við bara eftir hvað verður tilkynnt,“ segir hann að lokum.

Ekkert mál að sýna í Kína

Í Kína er staðan frábrugðin því sem þekkist hér á landi og einkum í Bandaríkjunum, þar sem meirihluti kvikmyndahúsa er lokaður. Wonder Woman 1984 verður sýnd í öllum helstu kvikmyndahúsum Kína samkvæmt umfjöllun BBC og er Asía á góðri leið í endurreisn kvikmyndabransans. Stórmyndin The Eight Hundred kom út á árinu og fullyrðir í því samhengi kínverski kvikmyndagagnrýnandinn Stevie Wong, að Kína hafi orðið stærsta landið í kvikmyndabransanum á árinu 2020. Evrópa stendur betur en Bandaríkin og er Dönum heimilt að sækja kvikmyndahúsin, svo lengi sem þeir bera grímu fyrir vitunum, að því er Þorvaldur Árnason benti á í samtali við Morgunblaðið.