Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Samningur Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins um makrílveiðar rennur út um áramót. Á sama tíma verða Bretar sjálfstætt strandríki við útgöngu úr ESB.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Samningur Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins um makrílveiðar rennur út um áramót. Á sama tíma verða Bretar sjálfstætt strandríki við útgöngu úr ESB. Færeyingar hafa gert rammasamning við Breta um fiskveiðimál og samkvæmt upplýsingum frá Færeyjum er reiknað með að viðræður um veiðiheimildir hefjist um miðjan desembermánuð.

Mikilvægt er fyrir Færeyinga að fá áfram leyfi til makrílveiða við Bretland, sem þeir höfðu samkvæmt samningi fyrrnefndra þriggja strandríkja. Meðal annars hafa þeir veitt mikið af makríl við Hjaltlandseyjar fyrstu vikur ársins. Við bætast áhyggjur af því að færeysk skip hafa ekki náð kvótum þessa árs og eiga eftir að veiða 36 þúsund tonn. Um 25 þúsund tonn af þessum heimildum falla niður um áramót verði ekki samið um annað. Færeyingar veiddu um 60% makrílafla síns í færeyskri lögsögu í fyrra og um helming tvö ár þar á undan.

Ekki hefur verið gengið frá samningum um stjórnun makrílveiða á næsta ári frekar en á öðrum deilistofnum í NA-Atlantshafi. Þó svo að heildarsamningur hafi ekki verið gerður hafa strandríkin þó sammælst um að leggja ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, til grundvallar við veiðarnar. ICES leggur til að leyft verði að veiða rúmlega 850 þúsund tonn, nokkru minna en sem nemur ráðgjöf þessa árs. Eftir sem áður ákveður hvert strandríki eigin kvóta út frá sínum viðmiðunum.

Fylgjast með loðnuleit

Frá stöðu viðræðna um makrílveiðar var greint í Færeyska útvarpinu í síðustu viku og sömuleiðis fréttum af loðnuleit Polar Amaroq fyrir norðan land. Færeyingar hafa heimild til að veiða 5% af loðnukvótanum við Ísland, en þó aldrei meira en 30 þúsund tonn. Því skiptir ákvörðun um upphafskvóta þá miklu máli.