Rafn Þorvaldsson fæddist 15. september árið 1957 á Akranesi. Hann lést 19. nóvember 2020 á líknardeild Landspítalans.

Foreldrar Rafns eru Þorvaldur Loftsson (11. júní 1933, Vík) og Svanfríður Valdimarsdóttir (21. mars 1934, Akranesi) og eru þau búsett á Akranesi. Rafn var í hópi átta systkina en tvíburabróðir hans lést skömmu eftir fæðingu. Eftirlifandi systkini Rafns eru þau Valdimar Þorvaldsson (1954), Erla Lind Þorvaldsdóttir (1956), Hildur Þorvaldsdóttir (1959), Þorvaldur Svanur Þorvaldsson (1960), Fjóla Þorvaldsdóttir (1961) og Atli Þorvaldsson (1963).

Um tíma bjó hann með Elínu Kristínu Helgadóttir og áttu þau saman soninn Þorvald Sveinsson (29. júlí 1979), maki hans er Alrún Ýr Steinarsdóttir. Börn þeirra eru Elías Ingi Þorvaldsson (2005), Helgi Snær Þorvaldsson (2007), Arnar Freyr Þorvaldsson (2009) og Lilja Rakel Þorvaldsdóttir (2013).

Hann kvæntist Kristínu Auði Elíasdóttur 4. ágúst árið 1984 en leiðir þeirra skildu 1996. Saman áttu þau börnin Hrafnhildi Ýri Rafnsdóttur (19. júní 1984) sem gift er Jóni Ólafi Gunnarssyni og saman eiga þau börnin Mikael Rafn Jónsson (2010), Helgu Birnu Jónsdóttir (2011) og Elmu Kristínu Jónsdóttur (2015). Dag Hákon Rafnsson (27. ágúst 1985) en sambýliskona hans er Eygló Valdimarsdóttir og saman eiga þau Kolbein Yl Dagsson (2020). Friðrikku Árnýju Rafnsdóttur (29. júní 1987) en sambýlismaður hennar er Matthías Matthíasson og saman eiga þau börnin Myrru Hólm Matthíasdóttur (2013), Aron Erni Gunnarsson (2015) og óskírða Matthíasdóttur (2020). Heiðrúnu Örnu Rafnsdóttur (3. nóvember 1993).

Í apríl 2004 kvæntist hann Ásdísi Ásgeirsdóttir (14. september 1963), leiðir þeirra skildi árið 2012. Bjuggu þau saman ásamt börnunum Ernu Sólrúnu Haraldsdóttur (2. júlí 1992) og Andra Viðari Haraldssyni (2. júlí 1992).

Eftirlifandi sambýliskona Rafns er Björk Gunnarsdóttir (30. sept 1952). Börn Bjarkar eru Dagrún Matthíasdóttir (18. september 1971), Guðný Matthíasdóttir (24. mars 1973), Steinunn Matthíasdóttir (2. febrúar 1976) og Gunnar Júl Matthíasson (7. desember 1977).

Rafn ólst upp á Akranesi, í Vík við Steingrímsfjörð og Hveravík. Miðbiki ævinnar varði hann á Vestfjörðum, aðallega á Þingeyri við Dýrafjörð. Hann varði árunum 1997 til andláts á höfuðborgarsvæðinu og einhverjum hluta erlendis á Gran Canaria.

Hugur Rafns beygðist snemma að sjómennsku sem varð hans ævistarf eða fram að árinu 2002.

Útför hans fer fram í Grafarvogskirkju 1. desember 2020 kl. 13 að viðstöddum nánustu aðstandendum og verður streymt á slóðinni https://www.promynd.is/rafn

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Rabbi kom inn í líf okkar systkina þegar við vorum að vinna úr sorg eftir föðurmissi. Nú hefur hann kvatt okkur alltof fljótt og í hjörtum okkar ríkir aftur sorg. Þau eru ófá skiptin sem við systkinin höfum mismælt okkur og sagt pabbi og mamma í stað Rabbi og mamma, enda er okkur hið fyrra tamt í þessu samhengi og svo rímar þetta svo skemmtilega saman. En þótt það komi vissulega enginn fullorðnu börnunum hennar Bjarkar í föðurstað fyllti Rabbi upp í stórt skarð og varð einn af fjölskyldunni. Þannig varðveitum við minningu um góðan mann.

Rabbi fékk stóran titil innan fjölskyldunnar þegar fyrsta langömmubarnið fæddist mömmu. Honum þótti vænt um að fá titilinn langafi og eiga það hlutverk í lífi barns, jafnframt því að mynda fjölskyldutengsl við barnabörn og börn sambýliskonu sinnar. Í hjörtum okkar ríkir mikið þakklæti fyrir þann velvilja og hlýhug sem Rabbi bar til okkar allra. Rabbi og mamma tóku eitt barnabarnið í fóstur í vetur svo hægt væri að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og það fór vel um ungan framhaldsskólanema á heimili ömmu og Rabba.

Ævintýrið á Kanarí var þeim Rabba og mömmu gott en þar leigðu þau sér íbúð og nutu vetrardvalar í sólarlandinu þar sem hlýtt loftslag hafði einnig jákvæð áhrif á líkamlega líðan þeirra beggja. Ætlunin var að halda Kanaríeyjaævintýrinu áfram í vetur eftir sumardvöl á Íslandi en til að byrja með var það ástand Covid-heimsfaraldurs sem frestaði þeirri ferð. Eftir á að hyggja erum við þakklát fyrir að Rabbi og mamma voru heima á Íslandi þegar áfallið kom og alvarleg veikindi Rabba tóku völdin. Veikindin voru stutt og tók fljótt af. Rabbi, þessi dásamlegi hvatvísi dugnaðarforkur, sýndi einstaklega mikið æðruleysi og tók því sem komið var. Hans ósk var að verja sínum seinustu dögum með konu sinni og kveðja þetta líf í hennar örmum, sem Guð gaf. Og þakklátur var hann fyrir heimsóknir barna sinna og kveðju frá dóttur sinni í Danmörku sem einnig var væntanleg til landsins þegar kveðjustundina bar að.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til mömmu, barna og barnabarna Rabba, tengdabarna, foreldra, systkina og vina.

Guð blessi minningu Rafns Þorvaldssonar.

Bjarkarbörnin,

Dagrún Matthíasdóttir, Guðný Matthíasdóttir,

Steinunn Matthíasdóttir og Gunnar Júl Matthíasson.

Rabbi minn! Nú ert þú kominn heim, stendur í blómabrekkunni og bíður eftir gömlu kerlingunni tengdamóður þinni, þú þurftir að yfirgefa mína fjölskyldu allt of fljótt. Það fannst mér leiðinlegt, ég gat ekki aðhafst neitt í því sambandi, nema það eitt sem ég sagði þér alltaf, þú hættir aldrei að vera tengdasonur minn. Þegar þú kvaddir mig fyrir nokkrum árum sagðist þú vilja biðja mig bónar, ég sagði ég skal verða við henni ef ég get. Bónin er sú að ef þú ferð á undan mér, viltu þá taka á móti mér þegar ég kem, auðvitað jánkaði ég því skilyrði að ef þú færir á undan kerlingunni tækir þú á móti mér. Við handsöluðum þetta og þú varst sæll og ánægður þegar þú lokaðir dyrunum. Ekki höfum við haft mikil samskipti á síðustu árum, ég hef þó alltaf haft fréttir af fyrrverandi tengdasyni, þú varst og ert alltaf besti tengdasonur minn að hinum ólöstuðum. Þú vildir allt fyrir mig gera eftir að tengdapabbi þinn dó, þegar þú varst í landi. Þið, þú og synir mínir, voruð svo mörg ár á togaranum Framnesi ÍS 708. Voruð þið góðir vinir alla tíð og ég er viss um að þeir bera þér góða sögu alla þá tíð, samanber það þegar þegar þið voruð nærri búnir að missa Hrólf, minn yngsta son, í sjóinn, hann fór út með trollinu og þegar þið voruð að ná honum inn þá varðst þú til þess að ná í höndina á honum og hann ánægður að sjá þig og sagði við þig „hvað segir kall?“ Nú vona ég að þú sért laus við allar þjáningar, það er nú meira en von, það er vissa og að þér líði vel í blómabrekku framhaldslífsins. Rabbi minn, bestu þakkir fyrir allt og allt. Ég mun alltaf hugsa hlýlega til þín Rabbi minn.

Far þú í friði

að framandi strönd.

Og finnur ferskan í liði

framrétta hönd.

(ksv)

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir.