Guðvarður Jónsson
Guðvarður Jónsson
Eftir Guðvarð Jónsson: "Atvinnurekstur þjóðfélagsins þarf að byggjast á vinnuframlagi þjóðarinnar því þegar illa árar stendur öll þjóðin að baki erfiðleikunum."

Mér finnst nauðsynlegt að kynna þjóðinni hversu miklu fjárhagslegu tjóni veiran hefur valdið henni, því hér virðist vera um mörg hundruð milljarða að ræða og fast að þrjátíu mannslíf. Þótt alþingismenn og atvinnurekendur meti ekki líf aldraðra mjög hátt hefur ekki enn verið gefið út aflífunarleyfi á þá. Að vísu hefur komið fram spurning lækna um það hversu miklu megi eyða í að halda við heilsu þeirra sem komnir eru yfir 80 árin. Ef ferðaþjónustan fer aftur á fulla ferð og veiran aftur á flug á að gera ferðaþjónustuna ábyrga fyrir þeim skaða sem hún veldur. Það er ekki hægt að leyfa atvinnugrein að valda þjóðfélaginu ómældum skaða endalaust og almenningi heilsutjóni og dauða.

Það er ljóst að þótt lyf fáist við þessari veiru sem nú er í gangi eiga eftir að koma fleiri afbrigði af alvarlegum sýkingum er ferðamannastraumurinn fer aftur á fullt og geta verið óteljandi. Hver næsti meinvaldur verður og hvaðan hann kemur er ekki hægt að segja til um. Verði hann jafn skaðlegur og sá sem nú gengur yfir mun eitthvað bresta. Það er alrangt að við þurfum að koma ferðaþjónustunni á fullt aftur til að bjarga efnahag þjóðfélagsins. Það yrði eingöngu til að ausa fé í þá valdasjúku og svo til innflutnings á annarra þjóða verkamönnum, sem veldur skaðlegri ofþenslu í þjóðfélaginu. Við eigum ekki að bjarga atvinnuleysi annarra þjóða.

Áður en við settum ferðaþjónustuna í gang var þjóðin vel stæð og lifði góðu lífi. Ferðaþjónustan er fyrir ákveðna forgangshópa sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag og vilja græða á kostnað þjóðfélagsins og komast upp með það. Atvinnurekstur þjóðfélagsins þarf að byggjast á vinnuframlagi þjóðarinnar því þegar illa árar stendur öll þjóðin að baki erfiðleikunum. Þegar há prósenta innfluttra starfsmanna stendur undir þjónustugreinum í landinu og starfsemin leggst að mestu niður eru þessir erlendu starfsmenn ekki ábyrgir fyrir tjóni þjóðfélagsins heldur fara flestir til síns heima og yfirþenslan lendir eingöngu á hinni fámennu íslensku þjóð. Þetta þýðir raunverulega að ferðaþjónustan, eins og hún er rekin, veldur þjóðfélagslegum efnahagsskaða, heilsufarsskaða og lífstjóni. Þetta er óviðunandi ástand.

Í flestum tilvikum væri svona skaðleg atvinnustarfsemi stöðvuð hið snarasta. Þar sem forsætisráðherra og Alþingi kappkosta að viðhalda innflutningi á hinni skaðlegu og lífshættulegu veiru virðast nokkuð sterkar líkur á því að Alþingi sé stjórnað af þeim sterku aðilum sem hafa sérstakan hag af því að halda ferðamannastraumnum gangandi, hvað sem það kostar. Kannski veldur þetta stjórnsýsluástand því að við getum ekki staðfest nýja stjórnarskrá.

Loftslagsmálið þvælist einnig fyrir okkur. Stjórnvöld vilja gera vel en fara öfuga leið. Þeir vilja stækka flugflotann og auka umferð erlendra flugfélaga, þrátt fyrir að flugumferð sé hinn mesti mengunarvaldur. Þar ofan á er hinni fámennu íslensku þjóð að fækka mjög hratt. Kemur þar til að fæðingarprósentan er mjög lág og verulegur innflutningur erlendra aðila. Svona örþjóð er auðvelt fyrir milljónasamfélög að útrýma. 1944 voru Íslendingar stoltir af því að vera sjálfstæð þjóð. Nú glápa menn á hinn bláa bjarma fjarlægðarinnar.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðvarð Jónsson