Aðflug Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir lokun fleiri flugbrauta Reykjavíkurflugvallar á næstu árum. Þingmenn vilja grípa í taumana.
Aðflug Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir lokun fleiri flugbrauta Reykjavíkurflugvallar á næstu árum. Þingmenn vilja grípa í taumana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sveitarfélög og samtök sveitarfélaga sem sent hafa umsagnir um þingsályktunartillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll leggja flest áherslu á að flugvöllurinn fái að starfa óáreittur þar til annar jafngóður eða betri verði tilbúinn. Sum sveitarfélögin styðja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sveitarfélög og samtök sveitarfélaga sem sent hafa umsagnir um þingsályktunartillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll leggja flest áherslu á að flugvöllurinn fái að starfa óáreittur þar til annar jafngóður eða betri verði tilbúinn. Sum sveitarfélögin styðja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bæjarráð Akureyrarbæjar leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að miðstöð innanlandsflugs verði áfram óskert í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur verður tekinn í notkun, segir í umsögn Akureyrarbæjar.

Tillagan um flugvöllinn er flutt af Njáli Trausta Friðbertssyni og 24 öðrum þingmönnum úr alls fimm þingflokkum. Hún gengur út á það að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Tillagan hefur verið flutt nokkrum sinnum áður og umsagnirnar nítján sem nú hafa borist eru líkar fyrri umferðum. Sveitarfélög og samtök sveitarfélaga, utan Reykjavíkurborgar, styðja þjóðaratkvæðagreiðslu eða krefjast þess að flugvöllurinn verði áfram.

Flutningstími lengist ekki

Sama gildir um samtök flugmanna. Þannig styður öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna þingsályktunartillöguna og telur raunar afar mikilvægt að hún fari fram. Að mati nefndarinnar er ljóst að annars muni borgarstjórn Reykjavíkur loka flugvellinum flugbraut fyrir flugbraut. Sú vegferð sé hafin eins og sjáist af lokun brautar 06/24 og gildandi aðalskipulag sýni framhaldið.

Í umsögn Sjúkrahússins á Akureyri kemur fram að undanfarin ár hafi verið farnar um 800 sjúkraflugsferðir á hverju ári með misveika sjúklinga en í 45-50% tilfella sé læknir með í för sem þýði að bráðleikinn sé með þeim hætti að hætta sé á að eitthvað geti komið upp í sjúkrafluginu sem þarfnist læknisfræðilegra inngripa. Í sumum tilfellum er um mjög alvarlega veikt fólk að ræða og einnig er verið að flytja fólk eftir alvarleg slys.

Þetta þýðir, að mati Sjúkrahússins, að mikilvægt sé að ekki bætist langur flutningstími frá flugvelli í Reykjavík á sjúkrahús við þann tíma sem tekur fólk í dreifðari byggðum að komast á flugvöll.