Rjúpa Rjúpnastofninn er vaktaður og vel fylgst með stofnbreytingum.
Rjúpa Rjúpnastofninn er vaktaður og vel fylgst með stofnbreytingum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Holdafar rjúpna í haust var í meðallagi hjá fullorðnum fuglum en undir meðallagi hjá ungum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Holdafar rjúpna í haust var í meðallagi hjá fullorðnum fuglum en undir meðallagi hjá ungum. „Ferlarnir fyrir holdastuðul stefna niður á við og bæði fullorðnir og ungir fuglar 2020 voru mun rýrari en 2019,“ segir í minnisblaði dr. Ólafs K. Nielsen, vistfræðings og rjúpnasérfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Heilbrigði rjúpunnar var rannsakað á árunum 2006-2018. Í því skyni var fuglum safnað í fyrstu viku október ár hvert í Þingeyjarsýslum.

„Eitt af því sem kom í ljós var að mikill munur var á holdafari rjúpna eftir árum; ungfuglar voru að jafnaði í lakari holdum en fullorðnir fuglar en breytingar á milli ára voru þær sömu hjá báðum aldurshópum. Þessi mælikværði á „hreysti“ rjúpunnar endurspeglar eitthvað sem fuglarnir hafa reynt í lífi sínu mánuðina á undan, þ.e. yfir sumar og haust. Einnig virðast vera tengsl á milli vetraraffalla og ásigkomulags fuglanna í upphafi vetrar,“ skrifar Ólafur.

Hann segir að í ljósi þessara niðurstaðna hafi verið ákveðið að halda áfram að meta holdafar rjúpna en nota nú fugla frá veiðimönnum. Fyrsta kastið var unnið á sama svæði og heilbrigðisrannsóknin náði til. Alls fengust 212 fuglar til skoðunar. Fuglarnir voru skotnir 1.-16. nóvember í haust. Flestir náðust í S-Þingeyjarsýslu, fáeinir í N-Þingeyjarsýslu og 20 fuglar voru veiddir í Víðidal á Fjöllum.

Til stendur að þetta verði hluti af árlegri vöktun rjúpnastofnsins og er tilgangurinn sá að auka skilning á stofnbreytingum rjúpunnar.