Síminn tilkynnti með formlegum hætti fyrir síðustu helgi að þátturinn með Helga Björns og félögum sl. laugardagskvöld hefði verið sá síðasti þetta árið. Það voru Ljósvaka vonbrigði að heyra og vonar að hafi verið misheyrn.
Helga hefur tekist að halda lífi í landanum, sem er að drepast úr farsóttarþreytu og almennum lífsleiða. Þríeykið hefur staðið sig frábærlega í faraldrinum en er farið að hökta, og er nema von. Svandís ætti hið snarasta að ráða Helga Björns til starfa sem fjórða hjólið undir vagninn, halda uppi stuði í þjóðinni þannig að hún komist í gegnum Covid-skaflinn heil á geðsmunum.
Einfaldast væri að Alþingi setti Helga Björns og félaga á fjárlög, hann hefur líka sýnt að hann deilir út auðnum og fær til sín frábæra gesti í hvern þátt. Ef þetta næst ekki í gegn ætti Síminn að hafa jólaþátt með Helga á hverju laugardagskvöldi til jóla. Gæti í leiðinni safnað til góðgerðarmála, líkt og gert var síðasta laugardag með myndarlegum hætti til mæðrastyrksnefndar, þegar meira en 20 milljónir króna söfnuðust. Glæsilegt!
Ljósvaka varð að ósk sinni í síðasta þætti og fékk að heyra Helga syngja hið ódauðlega jólalag Ef ég nenni. Við viljum meira svona. Ef Helgi nennir ekki meiru þá er Ingó veðurguð næstbesti kostur.
Björn Jóhann Björnsson