Baksvið
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Ekki er unnið að umsókn um skráningu neins staðar hér á landi á skrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um staði sem teljast vera einstakir og alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði. Nokkrar minjar eru á gamalli yfirlitsskrá Íslands yfir hugsanlega heimsminjastaði og samkvæmt upplýsingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins er íslenska torfhúsahefðin líklegust af þeim til að fara í formlegt undirbúningsferli.
Þrír staðir hér á landi eru skráðir á heimsminjaskrá, Þingvellir, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarður. Fjórðu umsókninni var hafnað. Það var tilnefning víkingaminja hér og í nágrannalöndunum. Ekki náðst sú samstaða sem Unesco krefst.
Almenningur tilnefnir hefðir
Frá því Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur hefur ekki verið unnið að umsókn á heimsminjaskrá. Hins vegar hefur verið safnað á landsskrá tilnefningum um óáþreifanleg menningaverðmæti, svokallaðar lifandi hefðir á samnefndum vef. Tilnefningarnar koma frá almenningi en eru yfirfarnar af starfsfólki verkefnisins áður en þær birtast á landsskránni. Þar kennir margra grasa, eins og sjá má á listanum.
Af þessum óáþreifanlegu minjum hafa Norðurlöndin ákveðið að tilnefna saman á heimsskrá hefðbundna smíði báta með súðbyrðingslagi. Þá hefur mennta- og menningarmálaráðherra falið Stofnun Árna Magnússonar að undirbúa tilnefningu laufabrauðshefðarinnar.
Gömul og úrelt yfirlitsskrá
Sérstök heimsminjanefnd var starfandi í mörg ár. Hún gerði tillögur að yfirlitsskrá Íslands og vann að framgangi tilnefninga á heimsminjaskrá. Ný nefnd hefur ekki verið skipuð frá því skipunartími síðustu nefndar rann út á árinu 2013. Vinnan hefur farið fram innan viðkomandi ráðuneyta.
Samkvæmt upplýsingum mennta- og menningarmálaráðuneytisins mun ný heimsminjanefnd taka til starfa í upphafi nýs árs. Hún verður vettvangur samráðs um heimsminjar hér á landi og ráðuneytinu til ráðgjafar um framkvæmd heimsminjasamnings Unesco. Í því felst meðal annars að fjalla um endurskoðun yfirlitsskrár, sem greinilega er löngu tímabært því gildandi yfirlitsskrá er úr sér gengin, og ræða forgangsröðun nýrra tilnefninga áður en tillaga er gerð til ráðherra.
Íslenska Unesco-nefndin telur afar mikilvægt að ný heimsminjanefnd verði skipuð sem fyrst. Hlutverk Unesco-nefndarinnar er að vera ríkisstjórn og sendinefnd Íslands til ráðuneytis og tengiliður við íslenskar stofnanir. Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni Unesco hér á landi, meðal annars á vefsvæði. Sæunn Stefánsdóttir, formaður nefndarinnar, segir um starf heimsminjanefndar hér að mikilvægt sé að halda utan um þennan málaflokk. Ísland eigi glæsilegar heimsminjar og aðrar mikilvægar tilnefningar bíði afgreiðslu.
Viðamikil vinna
Eftir að ríkisstjórnin ákveður að tilnefna stað eða minjar á heimsminjaskrá Unesco fer í gang mikil vinna við skýrslugerð og rökstuðning. Það kostar verulega fjármuni. Vinnan getur tekið nokkur ár og matsferli heimsminjaskrifstofu tekur sömuleiðis langan tíma. Tilnefningin er að lokum lögð fyrir ársfund alþjóðlegu heimsminjanefndarinnar þar sem fulltrúar allra aðildarríkjanna sitja. Svo bíða menn með öndina í hálsinum eftir því hvort staðurinn er samþykktur inn á heimsminjaskrá eða hafnað.
Staður sem fær þennan eftirsótta stimpil er þar með kominn í röð margra af merkustu náttúru- og menningarminjum heims. Staðina þarf að virða og umgangast í samræmi við gildi þeirra og viðmið Unesco enda eru þeir þá orðnir sameign mannkyns. Margt ferðafólk lítur til heimsminjaskrár við skipulagningu ferðalaga sinna.
Verðugt verkefni að tilnefna
Þjóðminjavörður telur það verðugt verkefni að tilnefna torfhúsahefðina á heimsminjaskrá. Margir af þeim torfbæjum sem varðveist hafa tilheyra húsasafni Þjóðminjasafnsins en einnig eru nokkrir bæir utan þess.Margrét Hallgrímsdóttir segir að torfhús Þjóðminjasafnsins séu víða um landið og ef ríkisstjórnin ákveði að tilnefna torfhúsaarfinn varði það landið í heild og einnig þurfi að leita samráðs við nágrannalöndin þar sem slíkum húsum hafi verið haldið við. Hún segir að Þjóðminjasafnið hafi unnið að viðhaldi torfhúsanna síðustu tuttugu ár með það að leiðarljósi að þessi einstaka arfleifð myndi einhvern tímann hljóta tilnefningu á heimsminjaskrá.
Margrét leggur áherslu á að ekki sé einungis átt við torfhúsin sjálf heldur einnig tilheyrandi búsetulandslag og handverk við byggingu þeirra og viðhald.