Arnar fæddist 14. apríl 1935. Hann lést 8. nóvember 2020. Útförin fór fram 14. nóvember 2020.

Elsku pabbi. Okkur systur langar að þakka þér fyrir öll yndislegu árin sem við áttum saman. Það er okkur ógleymanlegur tími þegar við bjuggum í Hvammi. Þar voru ævintýri á hverjum degi, við fengum að þvælast með þér í öllu mögulegu. Þú kenndir okkur að keyra bíl þegar við vorum tæpra 12 ára, með þér prófuðum við að skjóta úr byssu og fengum að fara mér þér á sjó til að vitja um grásleppunet. Tókum virkan þátt í bústörfunum og þessi tími er í okkar huga baðaður gleði og birtu. Þú varst mikill jólamaður, og vildir halda þau hátíðleg. Alltaf á slaginu sex á aðfangadagskvöld komst þú og kysstir okkur öll og faðmaðir og óskaðir öllum gleðilegra jóla. Svo var sest að veisluborði þar sem ávallt var borðað heitt hangikjöt með öllu tilheyrandi. Yndislegar minningar. Þröngt var í gamla húsinu í Hvammi þar sem við bjuggum en 1976 flutti fjölskyldan í Sunnuveg 2 á Þórshöfn, þar sem rúmt var um alla. Þá hættuð þið mamma búskapnum, og vinnuvélaútgerðin hófst. Þú varst svo ljúfur og góður maður. Það er sérlega gaman að heyra það frá vinkonum okkar sem voru að koma í heimsóknir í Sunnuveginn, að þær töluðu um hvað þú hefðir alltaf verið hlýr og góður í þeirra garð og þær upplifðu sig svo innilega velkomnar. Þú varst alveg sérstaklega gestrisinn og vinsæll. Ekki var óalgengt þegar þú varst að koma í kvöldmat að þú byðir kannski þremur mönnum með þér í mat án þess að vera búinn að láta neitt vita af því, mamma var því orðin ýmsu vön í þessum efnum. Þú reyndist okkur alveg einstaklega vel, ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd, og ófá eru tilvikin þegar þú lagaðir fyrir okkur bílana og dyttaðir að einhverju í húsunum okkar. Ógleymanlegt var að hitta þig á sumrin á Þórshöfn eftir að við fluttum suður. Þá skein gleðin úr andliti þínu þegar þú faðmaðir að þér barnabörnin, þú varst alveg einstök barnagæla.

Við systur óskum þér góðrar ferðar í sumarlandið, hafðu kæra þökk elsku pabbi fyrir allt og allt.

Góður guð geymi þig.

Arna og Gunnur.

Elsku pabbi, það var afar sárt að fá þær fréttir að þú værir látinn, sérstaklega þar sem þú varst svo hress og kátur þegar ég heimsótti ykkur daginn áður, það hvarflaði ekki að mér að kveðjustundin væri runnin upp en þessa heimsókn mun ég geyma í hjarta mínu alla tíð

Mig langar að þakka þér fyrir það að hafa fengið að fara með þér í gegnum lífið, verða þér samferða í 58 ár. Ég hugsa með söknuði til uppvaxtaráranna með þér og fjölskyldunni í Hvammi, staðnum sem þú ólst líka upp á og var þér svo kær þar sem þú fórst í gegnum bæði gleði og sorgir. Ég hugsa til þess þegar ég flæktist fyrir þér á þríhjólinu úti á verkstæðinu þar sem þú gerðir við bíla og tæki fyrir sveitunga þína, þegar þríhjólinu sleppti fór ég að rétta þér lykla og önnur verkfæri þegar þú lást undir einhverjum bílnum og þú kenndir mér því snemma að þekkja muninn á föstum lykli og skiptilykli. Ég man eftir samverustundum okkar allra í heyskapnum, göngunum og réttunum og þeim samverustundum sem við áttum í fjárhúsinu við að gefa kindunum og hestinum okkar Blesa. Jarðýtuviðgerðir voru algengar og það var farþegasæti í t.d. 14. ýtunni sem ég fékk oft að sitja í. Ég var mjög ungur þegar þú fórst að kenna mér að ýta og nýtist sú reynsla mér enn í dag. Eins var það með bílana, þá lærði ég snemma að keyra, þú kenndir mér snemma að skjóta af byssu og treystir mér býsna ungum fyrir rússanum, veiðiferðir að Miklavatni voru afar skemmtilegar. Að fá að taka þátt í því með þér að byggja Sunnuveg 2, heimilið sem var okkur öllum mjög kært og griðastaður okkar allra. Oft var gestkvæmt í bílskúrnum við Sunnuveg við margvíslegar viðgerðir allt frá jarðýtunni niður í smæstu hluti, þar var oft var glatt á hjalla meira að segja svo að sumum þótti nóg um. Einnig þakka ég fyrir þær fjölmörgu samverustundir sem við áttum uppi við Miklavatn, mikið vorum við tveir saman þar og svo líka með fjölskyldunni þar sem þú naust þess að vera, þar eyddum við saman mestum okkar frítíma til margra ára við vinnu og leik.

Þér og mömmu þökkum við sérstaklega fyrir pössunina á börnunum okkar sem mótuðust af samverunni við ykkur og munu njóta góðs af alla tíð.

Minning þín mun ætíð lifa með okkur og óskum við þér góðrar ferðar í sumarlandið.

Aðalbjörn og Sigríður (Sigga).