Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir — Morgunblaðið/RAX
Andrés Magnússon andres@mbl.is Þingflokkur sjálfstæðismanna afgreiddi í gær nýjustu útgáfu fjölmiðlafrumvarps Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, en þingflokkar framsóknarmanna og vinstrigrænna afgreiddu það deginum áður.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þingflokkur sjálfstæðismanna afgreiddi í gær nýjustu útgáfu fjölmiðlafrumvarps Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, en þingflokkar framsóknarmanna og vinstrigrænna afgreiddu það deginum áður.

„Ég er mjög ánægð með þessa þróun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir í samtali við Morgunblaðið. „Þetta er skref í rétta átt en nú leggjum við áherslu á að klára það í þinginu. Það er ekki búið fyrr en það er búið.“

Frumvarpið er mjög áþekkt því styrkjakerfi, sem beitt var vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á rekstrarstöðu fjölmiðla í sumar, nema hvað skilyrði til styrkveitinga hafa verið rýmkuð. Þannig nefna menn að skv. frumvarpinu verði sérhæfður miðill líkt og fótbolti.net styrkhæfur. Þannig er ekki litið til hins sérstaka, lýðræðislega hlutverks fjölmiðla eða fjölbreytni í efnistökum þeirra, heldur aðeins rekstrarsjónarmiða.

Undirtektir sjálfstæðismanna voru þó frekar dræmar, en nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu það fyrir sitt leyti aðeins með fyrirvörum, svo fram kunna að koma breytingartillögur við frumvarpið í meðförum þingsins. Þá mun hafa fram komið að ekki geti allir þingmenn flokksins stutt frumvarpið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ber þar einkum á óánægju með að verið sé að búa til styrkjakerfi með gamla laginu undir úthlutunarnefnd og með tilsjón fjölmiðlanefndar, en einnig þykir þeim sumum súrt í brotið að ekkert skuli hafa verið hróflað við yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins og þvert á móti líklegt að það fái frekari fjárveitingar, sem skekki samkeppnisstöðuna enn frekar.

Frumvarp til þess að styrkja rekstrarforsendur einkarekinna miðla hefur verið lengi í pípunum. Fyrra frumvarp Lilju náði ekki afgreiðslu í þinginu vegna mikillar andstöðu í þingflokki sjálfstæðismanna.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að smíða nýtt frumvarp, sem sjálfstæðismenn gætu fellt sig við, og var meðal annars í bígerð að beita skattkerfinu til þess frekar en að koma á nýju, flóknu og matskenndu styrkjakerfi hins opinbera. Sú leið reyndist hins vegar fleiri þyrnum stráð en ætlað var og segja þingmenn, sem blaðið ræddi við, frumvarpið sem nú er fram komið einu færu leiðina sem allir stjórnarflokkarnir þrír gátu fellt sig við, en fulltrúar þeirra allra komu að samningu þess.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir að það þyki þó ekki öllum duga til og munu samhliða þessu vera til athugunar í ráðuneytinu sérstakar ráðstafanir til styrktar smáum og staðbundnum miðlum.

Fjölmiðlafrumvarp

» Tímabundinn styrkur vegna rekstrarkostnaðar

» Aðeins veittur vegna kostnaðar við ritstjórn fjölmiðla

» Aldrei hærri en 25% rekstrarkostnaðar fjölmiðilsins

» Enginn einn fái meira en 25% styrkfjárins hverju sinni

» 400 milljónir kr. í pottinum