Guðni Einarsson
gudni@mbl.is Ísland, Eistland, Finnland og Írland eru einu Evrópulöndin þar sem styrkur fíns svifryks er undir strangari viðmiðunargildum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) um loftgæði í Evrópu 2020. Hún er byggð á niðurstöðum opinberra mælinga á meira en fjögur þúsund mælistöðvum víðsvegar um Evrópu árið 2018.
Þar segir að aukin loftgæði hafi dregið mikið úr ótímabærum dauðsföllum á síðasta áratug í Evrópu. Þrátt fyrir það sýni nýjustu opinberar tölur að næstum allir íbúar álfunnar líði vegna loftmengunar sem valdi um 400.000 ótímabærum dauðsföllum á ári um alla álfuna.
Styrkur fíns svifryks í andrúmslofti var umfram viðmiðunarmörk Evrópusambandsins (ESB) í sex aðildarríkjum þess, Búlgaríu, Ítalíu, Króatíu, Póllandi, Rúmeníu og í Tékklandi. Fínt svifryk olli um 417.000 ótímabærum dauðsföllum í 41 Evrópulandi árið 2018, að mati EEA. Af þeim urðu um 379.000 í 28 aðildarríkjum ESB. Stefna ESB, einstakra ríkja og sveitarfélaga auk takmörkunar útblásturs á lykilsviðum hefur leitt til aukinna loftgæða í Evrópu, samkvæmt skýrslunni. Losun mengandi lofttegunda eins og t.d. nituroxíða (NOx) frá samgöngum hefur minnkað umtalsvert, þrátt fyrir vaxandi umferð og meðfylgjandi losun gróðurhúsalofttegunda. Mengun frá orkuframleiðslu hefur einnig minnkað mikið en hægar hefur gengið að minnka loftmengun frá byggingum og landbúnaði, samkvæmt frétt EEA.
Þakka má auknum loftgæðum að um 60.000 færri eru taldir hafa dáið ótímabærum dauða vegna fínnar svifryksmengunar árið 2018 samanborið við árið 2009. Áhrif minni losunar niturtvíoxíðs eru hlutfallslega enn meiri. Ótímabærum dauðsföllum vegna hennar fækkaði um nálægt 54% á síðastliðnum áratug.
Hans Bruyninckx, framkvæmdastjóri EEA, segir niðurstöðurnar sýna að fjárfesting í auknum loftgæðum sé fjárfesting í betri heilsu og framleiðni allra Evrópubúa.