Ekki þarf að leita langt aftur til að finna þá tíma þar sem flestir ef ekki allir forystumenn stjórnmálanna lögðu sameiginlega áherslu á að vernda hið stjórnskipulega frelsi . Þótt sú þjóðlega hollusta hafi vissulega átt við flesta stjórnmálamenn mætti segja að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi öðrum fremur og sérstaklega á gullaldarskeiði flokksins lagt mikinn þunga á það frumhlutverk. Í ræðum, ritum og ekki síður efndum kemur þetta víðsvegar fram enda er hið stjórnskipulega frelsi aflvaki sjálfstæðisstefnunnar. Þangað sækir Sjálfstæðisflokkurinn nafn sitt, flokkshollustu og traust.
Mætti segja að strax við stofnun hafi gullaldarskeið flokksins hafist og staðið í þrjá aldafjórðunga. Sigur eftir sigur með Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni í forystu, stórsigur Geirs Hallgrímssonar á landsvísu árið 1974 (42,7%) og goðsagnakenndur sigur Davíðs Oddssonar árið 1990 hér í Reykjavík sem enn þann daginn í dag er óslegið met (60,4%). Þetta eru nokkur dæmi af mörgum en fleira var sameiginlegt en sigrarnir. Ávallt var borin fyllsta virðing fyrir upprunanum og haldin var hollusta við grunngildin.
Þótt Ísland væri við stofnun flokksins fullvalda samkvæmt sambandslögunum var það ekki stjórnskipulega frjálst eins og Bjarni Benediktsson veik að frægri ræðu. Lög okkar öðluðust ekki stjórnskipulegt gildi fyrr en konungurinn í Kaupmannahöfn staðfesti þau, við fórum ekki með okkar utanríkismál og hin danska þjóð hafði jafnan aðgang að auðæfum landsins á við okkur Íslendinga. Var það almenn afstaða að slíku fyrirkomulagi myndi enginn una til lengdar. Varð því aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins við stofnun nákvæmlega það sem heiti hans gefur til kynna. Ekki einungis það heldur var það einnig meitlað í stein að þegar þeim áfanga yrði náð yrði haldin eilífðar varðstaða þar um. Það reyndist vel. Veitti Bjarni Benediktsson þessu athygli þegar fjörutíu ára afmæli flokksins var fagnað á landsfundi árið 1969. Sagði Bjarni meðal annars:
Reynslan segir, að á þessu fjörutíu ára bili hafi bezt tekizt, þegar eindregnast var fylgt hinni gagnorðu stofnstefnuskrá flokks okkar um frelsi og sjálfstæði þjóðar jafnt og einstaklinga með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Hvorki hin íslenzka þjóð né einstakir Íslendingar fá haldið frelsi sínu og sjálfstæði nema allsherjarhagsmuna sé gætt. En frelsi og sjálfstæði er sá aflvaki, sem Íslendingum hefur bezt dugað. Ef við sjálf dugum þeirri háleitu hugsjón mun Íslandi vel vegna, bæði í bráð og lengd.“
Í þessum orðum liggur viskan sem skapar sál Sjálfstæðisflokksins og hinn breiða stuðning sem flokkurinn hefur fengið. Á þessum gildum er hægt að sigra á ný.
Þessum staðreyndum þarf að halda til haga og varðstöðuna um hið stjórnskipulega frelsi þarf að endurvekja. Sérstaklega hjá hinni ungu kynslóð. Ekki einungis af því það er rétt heldur einnig af því að það er nú einu sinni svo að ef við, sem teljumst til yngri kynslóðar sjálfstæðismanna, viljum eiga einhverja von um að endurheimta það sem ella kann að glatast er sérstaklega mikilvægt að við höldum á lofti á hvaða gildum flokkurinn okkar var raunverulega stofnaður enda eru það þau sem eiga hvað mest undir högg að sækja.
Í því samhengi þarf að þora að ræða þróun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það kann að vera að það hafi talist hagstætt fyrir yfir aldarfjórðungi að semja við undarfara þess Evrópusambands sem við þekkjum í dag. Þá voru mikilvægustu málaflokkarnir ekki undir, samningsbundið var að Alþingi gæti hafnað innleiðingu á evrópsku regluverki. Einnig hafði ofríki sambandsins ekki kunngerst. Ekki var hægt að gera sér í hugarlund þann alvarlega lýðræðishalla sem raun ber vitni í þessum páfagarði hinum nýja (Brussel) en frumforsenda lýðræðisins er auðvitað að þegnarnir geti haft raunveruleg áhrif á gang mála með reglulegum kosningum. Það eru okkar mestu og mikilvægustu réttindi að við Íslendingar sjálfir og engir aðrir ráðum skipan æðstu valdhafa löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvalds.
Lokaorð
Sá hefur lítinn skilning á frelsinu; sem heldur því fram að sá húsbóndi sé frjáls sem nauðbeygður lýtur boðvaldi nágranna sinna eða þarf að sækjast eftir einhvers lags samþykki þeirra um ákvarðanir í eigin málum. Breytir engu hvort slíkur húsbóndi fái í mýflugumynd aðgang að flóknu samráðsferli um sína hagi. Slíkur húsbóndi er ekki sjálfstæður enda felst sjálfstæði hans í frelsi til sjálfsákvarðana. Þetta er ástæðan fyrir því að almennir sjálfstæðismenn vildu ekki innleiða regluverk Evrópusambandsins í orkumálum fyrir skömmu. Okkar hagir eru allt aðrir í þeim mikilvæga málaflokki og hin íslenska orkustefna reyndist afskaplega farsæl fyrir land og þjóð. Sama má segja um sjávarútveg, landbúnað, jarðeignir og íslenskt eignarhald þar á.Höfundur er lyfjafræðingur og situr í stjórn Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.