Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 10,4% að raungildi á þriðja ársfjórðungi 2020 miðað við sama tímabil fyrra árs. Til samanburðar er áætlað að landsframleiðsla á evrusvæðinu hafi á sama tímabili dregist saman um 4,4% frá sama tímabili árið 2019. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Eins og bent er á í Hagsjá Landsbankans litast þjóðhagsreikningarnir á þriðja fjórðungi öðru fremur af beinum og óbeinum áhrifum Covid-19-faraldursins sem hefur haft fordæmalaus áhrif á hagkerfi heimsins. Þar segir að samdráttinn á þriðja fjórðungi megi fyrst og fremst rekja til mikils samdráttar í útflutningi en framlag hans til hagvaxtar hafi verið neikvætt um 20,3%. Þann samdrátt megi síðan aftur rekja til mikils samdráttar í ferðaþjónustu en ferðatakmarkanir hafa dregið gríðarlega úr komum erlendra ferðamanna hingað til lands.
Í takt við spár bankans
Daníel Svavarsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að um sögulega mikinn samdrátt sé að ræða á öðrum og þriðja fjórðungi ársins, en hann sé þó í takt við spár Landsbankans. „Við höfum spáð 8,5% samdrætti fyrir árið í heild. Það sem helst kemur á óvart er að samdráttur einkaneyslu á þriðja fjórðungi er minni en við bjuggumst við, en þar kemur aukin bílasala inn í,“ segir Daníel, og bætir við að samdrátturinn í einkaneyslu sé minni en kortavelta hafi bent til.
Annað sem Daníel nefnir sem komi á óvart sé samdráttur í opinberri fjárfestingu. Hann eigi sér stað á sama tíma og mikið sé talað um auknar fjárfestingar ríkisins til að vega upp á móti samdrættinum. „Í reynd eru fjárfestingar ríkisins aðeins að aukast, en aftur á móti eru fjárfestingar sveitarfélaga að dragast saman. Opinberar fjárfestingar mættu gjarnan fara upp á við,“ segir Daníel.
Snarpari samdráttur en í hruni
Spurður um samanburð við fjármálahrunið árið 2008 og kreppuna sem því fylgdi segir Daníel að samdráttur landsframleiðslu hafi þá teygst allt fram á árið 2010, en nú sé samdrátturinn mun snarpari. „Einkaneysla dróst miklu meira saman í hruninu. Höggið sem kom á krónuna var svo mikið að allar innfluttar vörur hækkuðu í verði. Nú erum við hins vegar að missa útflutningstekjur, sem er enn verra.“
Spurður um næstu ár, og hve langan tíma taki fyrir Ísland að ná sér á strik, segir Daníel að hagfræðideild bankans geri ráð fyrir að það taki u.þ.b. þrjú ár fyrir landið að komast aftur á sama framleiðslustig og árið 2019. Áratug eða -tugi gæti hins vegar tekið að greiða niður skuldirnar sem ríkið hefur þurft að stofna til vegna veirunnar.