Flokksmenn fá að segja skoðun sína en ekki hafa áhrif

Það styttist í þingkosningar, sem haldnar verða 25. september á næsta ári og stjórnmálaflokkarnir flestir farnir að setja sig í stellingar. Sumir eru farnir að panta auglýsingapláss, flestir farnir að safna í sjóðinn, málefnavinnan er víða hafin, en mest er sjálfsagt spennan um hvernig skipað verður á lista. Það er ekki nema von, það er orðið býsna langt síðan flokkar héldu síðast prófkjör og forvöl fyrir þingkosningar. Það var ekki gert fyrir kosningarnar 2017 vegna þess hvað það var boðað með skömmum fyrirvara til þeirra og skammt liðið af því kjörtímabili. Eins og vanalega vill nýtt fólk knýja á en hins vegar óvenjufáir þingmenn á útleið. Svona að eigin frumkvæði alltjent, en um það hafa kjósendur auðvitað síðasta orðið.

Nema auðvitað hjá hinni ákaflega lýðræðislegu Samfylkingu í Reykjavík, sem er svo gagnsæ að hún er nánast glær. Þar verður nefnilega ekki efnt til prófkjörs að þessu sinni, heldur var ákveðið af einhverjum að notast við „sænsku leiðina“ til þess að stilla upp á lista, líkt og jafnaðarmenn í Svíþjóð gera. Með misjöfnum árangri þó.

Sænska leiðin er þannig að flokksmenn mega senda tölvupóst til flokksins með uppástungum um frambjóðendur, en síðan verður gerð könnun hjá flokksmönnum um þau nöfn, sem þá verða fram komin, en þó mega þeir aðeins setja „læk“ við tvö og ekki tilgreina röð. Niðurstaðan verður hins vegar ekki birt, heldur hefur uppstillingarnefnd hana til hliðsjónar við listasmíðina, en aðeins þó að því leyti sem hentar. Síðan verður þingmönnum stillt upp í sömu röð og áður og gæðingar flokkseigendafélagsins fá það sem eftir stendur.

Þetta er fólkið, sem les yfir öðrum um lýðræði og umboð, enda fáir sem þekkja lýðræðið af meiri raun en Samfylkingin í Reykjavík. En hver getur verið ástæðan fyrir því að þetta flókna sænska sýndarlýðræði er tekið upp? Fyrir því geta verið nokkrar ástæður og ein útilokar ekki aðra. Eða allar.

Augljósasta skýringin er sú að í flokkseigendafélaginu séu tómir hérar, sem vilji enga áhættu taka á að flokksmenn taki til sinna ráða um skipan listans. En svo getur líka verið að þau séu í tómum vandræðum með að finna fólk til þess að taka þátt í prófkjöri. Einnig getur verið að flokkurinn sé enn á hausnum og hvorki hann né frambjóðendurnir tími að fara í prófkjör. Þá kann að vera að flokkurinn sé svona brenndur af lýðræðinu, eftir allar rafrænu kosningarnar sem fóru í handaskolum, að hann sé búinn að gefast upp á hvers kyns kosningum. Kannski hann ætti þá líka að gefast upp á þingkosningum.