Þröstur Ingimarsson fæddist 18. apríl 1963. Hann lést 19. nóvember 2020.

Útför Þrastar fór fram 27. nóvember 2020.

Þröstur, minn kæri frændi, dáinn og farinn okkur frá allt of snemma, bara 57 ára gamall. Minnist ég margra tímabila í lífi okkar, allt frá því að hjóla á þríhjólum um hverfið okkar í Kópavoginum, þú þriggja ára, ég sex. Lékum okkur í byssuleik og fótbolta á Þórsgötu 26, auk þess að hengja öskupoka aftan á gangandi vegfarendur í Þingholtunum á öskudaginn. Hlaupa niður trétröppur á laugardagsmorgni klukkan níu og heyra í sömu mund klukkur Hallgrímskirkju klingja, jú, til að horfa á teiknimyndir í svart-hvítu, þú átta ára, ég ellefu. Tindátaleikir (voru reyndar úr plasti ) voru vinsælir, en tindátarnir voru skotnir niður með teygju. Það var alltaf fjör hjá systkinum þínum og mér þótti gaman að vera á staðnum. Ég var alla tíð stoltur af þér Þröstur minn, allt sem þú tókst þér fyrir hendur, skák, bridge eða pílukast, þú varst alger meistari í öllu sem þú stundaðir. Ég man þegar þér var boðið sem gesti að taka þátt í skákmóti hjá Taflfélagi Reykjavíkur þar sem þú vaktir athygli fyrir frammistöðu þína á því móti. Ekkert tap, bara jafntefli og sigrar við ýmis stór nöfn á þeim tíma, árið var 1980 +, hver er þessi Þröstur Ingimarsson sem skyndilega skýtur kolli sínum upp á stjörnuhimininn? kom fram í blaði sem Taflfélag Reykjavíkur gefur út. Þú hefðir örugglega orðið Íslandsmeistari í skák eða meira ef þú hefðir ekki misst áhuga á Taflfélagi Kópavogs hér um árið og snúið þér að bridge, þar sem þú varðst landsliðsmaður. Síðast varstu landsliðsmaður í pílukasti. Þröstur minn, við vorum alla tíð miklir vinir ásamt því að vera systrasynir.

Ég sakna þín Þrössi minn. Guð veri með sál þinni og styrki fjölskyldu þína í hennar sorg. Þinn frændi,

Ingólfur Þór Björnsson.

Góður vinur og mikill höfðingi er fallinn frá. Má segja að Þröstur hafi verið allra. Við kynntumst Þresti í pílukasti eins og flestir ef ekki allir sem spila pílu. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa, leiðrétta og kenna.

Brosið og hláturinn var aldrei langt undan þó að hann hafi haft mikið keppnisskap. Hann varð Íslandsmeistari oftar en 30 sinnum á sínum ferli í pílukasti þannig að hann er og verður alltaf goðsögn í íslensku pílukasti. Fæstir vissu hve oft hann varð Íslandsmeistari þannig að á þessu ári tók hann sig til og fann enn einn Íslandsmeistaratitil sinn í Bændablaðinu. Það væri hægt að skrifa fleiri hundruð skemmtilegar pílusögur og sögur af Þresti. Er það efni í eina góða bók eða jafnvel bókabindi. Allir vildu alltaf spila með honum og var mikið kappsmál að hafa hann með sér í liði, enda tapaði hans lið aldrei.

Grínast var mikið með gáfur Þrastar og talað um að greindarvísitala hans væri hærri en samanlögð greindarvísitala heilu hópanna af fólki! Hann var með mikla réttlætiskennd og það var alltaf gaman að fylgjast með hvernig hann komst að orði í tali eða skrifum til að benda á réttlætið... ENTER.

Þetta ár einkenndist af miklum áföllum í fjölskyldunni. Eiginkona Þrastar, hún Elínborg, lenti í alvarlegu slysi fyrr á árinu og það tók mjög á hann. Hann tók öllu sem gerðist á þessu ári með miklu æðruleysi og trúði því alltaf að þau myndu bæði ná sér og eiga góðar stundir saman í framtíðinni. Skjótur og sorglegur endir hjá fallegri manneskju.

Við munum alltaf minnast þín og sakna!

Rúnar og María.