Halli á viðskiptajöfnuði minnkaði á þriðja ársfjórðungi og var 1,2 milljarðar króna, samanborið við 5,9 milljarða mánuðinn á undan. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands. Halli á vöruskiptajöfnuði var 33,9 milljarðar og jókst frá fyrri fjórðungi þegar hann var 19,5 milljarðar króna. Hins vegar reyndist afgangur af þjónustujöfnuði 20,4 milljarðar króna og jókst um 17,3 milljarða frá öðrum fjórðungi. Frumþáttatekjur skiluðu 13,5 milljarða afgangi og drógust þær saman um 3,6 milljarða. Rekstrarframlög reyndust neikvæð um 1,1 milljarð en voru neikvæð um 6,7 milljarða á öðrum árfsjórðungi.
Sé þriðji ársfjórðungur 2020 borinn saman við sama fjórðung fyrra árs kemur fram að viðskiptaafgangur er 71 milljarði króna minni í ár. Skýrist það af því að þjónustujöfnuður dróst saman um 87,9 milljarða króna. Munaði þar mest um samdrátt í útfluttri þjónustu sem dróst saman um 133,5 milljarða króna. Innflutt þjónusta minnkaði á sama tíma um 45,6 milljarða króna. Vöruviðskipti voru hins vegar hagfelldari sem nam 14 milljörðum og skýrist það að mestu af 10,7 milljarða minni innflutningi en á sama tíma í fyrra. Útflutningur reyndist þá 3,3 milljörðum meiri nú.
Í lok þriðja ársfjórðungs var hrein staða við útlönd jákvæð sem nam 969 milljörðum króna eða 33,5% af vergri landsframleiðslu. Batnaði staðan um 137 milljarða króna milli fjórðunga og skýrist það af gengis- og verðbreytingum sem lögðu 188 milljarða til hækkunarinnar. Skuldir jukust um 51 milljarð.
Hrein staða íslenska þjóðarbúsins við útlönd hefur aldrei verið jafn hagfelld og nú og hefur hún batnað um 313 milljarða króna frá áramótum.