Viktoría Karlsdóttir fæddist 6. nóvember 1939. Hún lést 31. október 2020.

Viktoría var jarðsungin 30. nóvember 2020.

Nú ertu farin, æskuvinkonan góða, yfir móðuna miklu. Við kynntumst fyrst í alvöru í Gagnfræðaskólanum í Eyjum og síðan á vinnustað okkar hjá Pósti og síma. Hinum megin við götuna var Höllin þar sem við brugðum okkur í bíó og á böll. Lífið var fjörugt hjá okkur á veturna þegar allt fylltist af vertíðarfólki en fjaraði síðan út, því að á sumrin fóru flestir karlmenn á síld og eftir urðu nokkrir karlar og konur og börn. Það var ákaflega rólegt fram að Þjóðhátíð.

Sumarið 1956 fórum við, Inga, Viggý og undirrituð, þá 17 ára gamlar í sumarfrí. Við sigldum með Heklunni til Þórshafnar, Bergen, Kristiansand, Gautaborgar, Kaupmannahafnar og heim aftur. Þetta var á tímum haftanna og erfitt að verða sér úti um gjaldeyri til lystitúra, en ferðalagið var skemmtilegt og tók um þrjár vikur.

Ég á enn þá bréf frá þér þar sem þú skrifar mér um fæðingu Jónasar og dauð föður þíns. Ég komst við þegar ég las aftur þessi gömlu bréf, eftir að þú fórst.

Þið Gísli óluð upp börnin ykkar bæði hér á landi og erlendis. Þú sýndir bæði dug og dáð þegar þú þurftir oft að ferðast ein með hópinn á eftir Gísla sem var að vinna á vegum FAO. Um áramótin 1988-89 heimsóttum við Sigurður ykkur á eyjuna Dómeníku sem er í Karíbahafinu. Þið Gísli og barnahópurinn fóru í siglingu og létuð okkur eftir húsið ykkar. Við könnuðum eyjuna og komumst að því að í gluggum voru engar rúður, margir sameinuðumst um vatnskrana, einn ljósastaur í hverfinu ykkar, hjá landbúnaðarráðherranum, engin bryggja, ekkert frystihús. Karlarnir drógu fyrir og konurnar komu niður í fjöru með pottana sína og fengu fisk. Konurnar skoluðu þvottinn sinn í ánni og vildu ekki láta taka af sér myndir.

Þegar fjölskyldan kom til baka fórum við með Gísla til að ná í humar sem vinur hans var búinn að klófesta. Humarinn var geymdur í poka sem bundinn var við staur sem rekinn var niður í fjöruborðinu. Fellibyljir höfðu lagt heilu bananahlíðarnar í rúst. Við fórum í sjö tíma gönguferð, ásamt Viktoríu yngri, að skoða eldfjallagíg á kafi í regnskógi, þar sem í bullaði og sauð vatn, Boiling lake. Þessi gígur er annar stærsti af þessu tagi í veröldinni. Sá stærsti er á Nýja-Sjálandi. Minjar frá komu Kristófers Kólumbusar til eyjarinnar voru byssukúlur til þess fallnar að eyðileggja segl á óvinaskútum, voru þarna í stórum bingjum í gömlu virki. Það var sólskin á hverjum degi og hitinn við 30 gráður og það rigndi nokkrum sinnum á dag. Þökk fyrir að við fengum að skoða Dómeníku.

Við gömlu vinkonurnar hittumst sumarið 2019, til að minnast þess að undirrituð hafði orðið áttræð á árinu, drukkum saman kaffi og rifjuðum upp ýmislegt. Þú gafst okkur gjafir sem við þáðum með þökkum. Ég minnist þín Viggý mín og glaða hlátursins sem var svo einkennandi fyrir þig. Þakka þér samfylgdina. Ég votta öllum ástvinum þínum dýpstu samúð.

Bryndís Gunnarsdóttir.