Scott Morrison
Scott Morrison
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, fordæmdi í gærmorgun tíst sem Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, setti á Twitter-síðu sína um helgina, en þar mátti sjá sviðsetta ljósmynd af áströlskum hermanni, sem hélt á blóðugum hníf...

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, fordæmdi í gærmorgun tíst sem Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, setti á Twitter-síðu sína um helgina, en þar mátti sjá sviðsetta ljósmynd af áströlskum hermanni, sem hélt á blóðugum hníf upp að hálsi afgansks barns.

Saksóknarar í Ástralíu rannsaka nú meinta stríðsglæpi 19 ástralskra hermanna, sem voru mögulega framdir á árunum 2005-2006.

Sagði Morrison að myndbirtingin hefði verið ógeðfelld og svívirðileg móðgun gagnvart herafla Ástralíu og hvatti hann Twitter til þess að fjarlægja færsluna, en hún birtist á opinberum reikningi í eigu kínverska ríkisins. „Þetta er algjör svívirða og ekki réttlætanlegt á nokkurn hátt. Kínversk stjórnvöld ættu að skammast sín alfarið vegna þessa,“ sagði Morrison. „Þetta er þeim til minnkunar í augum heimsbyggðarinnar.“

Áframhald á fyrri deilum

Hua Chunying, talskona utanríkisráðuneytisins, varði hins vegar myndbirtingu samstarfsmanns síns, og gaf til kynna að áströlsk stjórnvöld ættu að skammast sín fyrir framferði hermanna sinna. Sagði hún það staðreynd að ástralskir hermenn hefðu „slátrað saklausum borgurum“ í Afganistan.

Málið þykir enn eitt dæmið um versnandi samskipti Ástrala og Kínverja, en hinir síðarnefndu tóku því illa þegar Ástralar studdu kröfur um óháða alþjóðlega rannsókn á upptökum kórónuveirufaraldursins.

Hafa Kínverjar sett ofurtolla á ástralskar vörur og hafa ríkisfjölmiðlar ráðist á Ástralíu ítrekað undanfarna mánuði.