Arnljótur Bjarki Bergsson
Arnljótur Bjarki Bergsson
Eftir Arnljót Bjarka Bergsson: "Það er stílbrot að taka ekki heimsmarkmið um ekkert hungur, nýsköpun, líf í vatni og samvinnu með sem mælikvarða varðandi hagsæld og lífsgæði."

Heimsmarkmiðin, markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030, voru kynnt til leiks árið 2015. Þau tóku við af þúsaldarmarkmiðunum sem snerust fyrst og fremst um þróun sk. „þróunarlanda“. Markvisst er unnið að því að ná þeim. Ísland lætur sitt ekki eftir liggja og eru markmið og mælikvarðar ríkisfjármála tengd við heimsmarkmiðin. Eins ljóst og það ætti nú að vera hve mikilvægt var og er að nota góð ár til að búa í haginn fyrir þau sem síðri eru er mikilvægt að fara varlega með það sem safnast í sameiginlega sjóði.

Í fjármálaáætlun eru 39 mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði hátt skrifaðir enda var þróun þeirra nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í júní 2018 samþykkti ríkisstjórnin 65 forgangsmarkmið af 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna. Unnið hefur verið að margvíslegri stefnumótun ólíkra málefnasviða vegna ákvarðana ráðherra og ríkisstjórnar m.t.t. heimsmarkmiðanna. Það er stílbrot að „stefnustjórnin“, ríkisstjórn sem mótar heildstæðar stefnur til framtíðar, taki ekki heimsmarkmið 2: ekkert hungur, 9: nýsköpun og uppbyggingu, 14: líf í vatni og 17: samvinnu um markmiðin með í mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Þannig mætti tengja vinnu að auknum lífsgæðum og hagsæld beint heildrænt við ákvarðanir um ráðstöfun sameiginlegra fjármuna landsmanna á mikilvægum sviðum.

Forgangsmarkmið um hagsæld og lífsgæði?

Undirmarkmið 2.1 tekur til fæðu-, matvæla- og næringaröryggis, þátta sem skipta máli fyrir líf og lífsgæði landsmanna, og er í forgangi í alþjóðasamstarfi. Undirmarkmið 9.1 fjallar um þróun innviða til að styðja við efnahagsþróun og velmegun með áherslu á jafnt aðgengi fyrir alla. Undirmarkmið 9.5 fjallar um eflingu vísindarannsókna, að ýtt verði undir nýsköpun og fjölgun starfa í rannsóknum og þróun, m.a. með aðkomu einkaframtaks. Auk mælikvarða 9.C er fjallar um aukið aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni og þá sérstaklega fyrir almenning í þróunarlöndum og er í forgangi innanlands.

Innanlands er vinna gegn súrnun sjávar, undirmarkmið 14.3, forgangsmarkmið um líf í vatni. Í alþjóðasamstarfi er horft til 14.1; að draga úr og koma í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar eigi síðar en árið 2025, 14.7; að smá eyríki sem eru þróunarlönd hafi hlotið efnahagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda eigi síðar en árið 2030 og 14.C; um verndun og eflingu sjálfbærrar nýtingar hafsins og auðlinda þess með framfylgni alþjóðalaga sbr. slík ákvæði í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Þá átti að ganga vel um vistkerfi sjávar; 14.2, hvort tveggja innanlands og í alþjóðasamstarfi, eigi síðar en árið 2020.

Undirmarkmið 17.17 um skilvirk samstarfsverkefni með útsjónarsemi hjá hinu opinbera, milli opinberra aðila og einkaframtaks og meðal borgaranna byggt á reynslu fyrri samstarfsverkefna, er forgangsverkefni innanlands.

Önnur forgangsmarkmið þessa heimsmarkmiðs eiga við um alþjóðasamstarf.

Hagsæld og lífsgæði í fjármálaáætlun

Auk 34 mælikvarða með 44 tengingar við 29 undirmarkmið heimsmarkmiðanna, 17 þeirra eru forgangsmarkmið, voru valdir fimm mælikvarðar sem tengjast tilgangi markmiðanna. Fjögur heimsmarkmið eru ekki tengd við þessa mælikvarða. Í fjármálaáætlun eru flestum málaflokkum sett skýr markmið með skilgreindum mælikvörðum. 174 markmið málaflokka fjármálaáætlunar eru tengd heimsmarkmiðunum og töluverðar tengingar eru í fjármálaáætlun við heimsmarkmið 2, 9, 14 og 17, þá skýtur skökku við að hafa ekki tekið þessi fjögur heimsmarkmið með í hagsældarreikninginn í ljósi tengslanna. Í fjármálaáætluninni tengjast:

Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, stjórnun landbúnaðarmála, stjórnsýsla fiskveiða og fiskeldis auk rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi og eldi við heimsmarkmið 2.

Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar, utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, byggðamál, sýslumenn, samgöngur, fjarskipti, netöryggi og póstmál, stjórnun landbúnaðarmála og málefni fatlaðs fólks stefna að heimsmarkmiði 9.

Landhelgi, utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, stjórnsýsla fiskveiða og fiskeldis og rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi og fiskeldi tengjast heimsmarkmiði 14. Hvorki er vísað til mælikvarða 14.C né forgangsmarkmiðs 14.3 í fjármálaáætlun. Hins vegar er vísað til mælikvarða 14.B um aðgang að sjávarauðlindum og mörkuðum.

Forsætisráðuneyti, utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs, skattar og innheimta og sjúkraflutningar eru tengd heimsmarkmiði 17. Þá er 17.1 undirmarkmið um styrkingu úrræða heimamanna til að bæta skattkerfi og aðra tekjuöflun, m.a. með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, hluti markmiðssetningar skatta og innheimtu.

Vonandi er enn hægt að íhuga útvíkkun á umræddum mælikvörðum hagsældar og lífsgæða. Þar sem heimsmarkmiðin fjalla um sjálfbæra þróun má kannski segja að öll ríki veraldar sem vinna að framgangi þeirra séu þróunarlönd, sjálfbær þróunarlönd, við erum að þróa okkur í sjálfbærni.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur.

Höf.: Arnljót Bjarka Bergsson