Flytjendurnir Antonía Hevesi píanóleikari og Bjarni Thor Kristinsson bassi. Hann segir frábært að fá þetta tækifæri til að syngja fyrir fólk.
Flytjendurnir Antonía Hevesi píanóleikari og Bjarni Thor Kristinsson bassi. Hann segir frábært að fá þetta tækifæri til að syngja fyrir fólk. — Ljósmynd/Áslaug Íris Friðjónsdóttir
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Við Antonía ætlum að vera með bland í poka á þessum tónleikum.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Við Antonía ætlum að vera með bland í poka á þessum tónleikum. Við flytjum svolítið af óperutónlist sem hefur bæði beina og óbeina tengingu við jólin, og svo flytjum við tvær Ave Maríur og einhverja jólatónlist að auki. Þetta verður fjölbreytt blanda í hálftíma,“ segir Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari um tónleika þeirra Antoníu Hevesi píanóleikara sem hefjast í Hafnarborg kl. 12 í hádeginu í dag, þriðjudag. Vegna samkomutakmarkana verða engir gestir í salnum en tónleikarnir sendir út í streymi. Hægt er að tengjast því á heimasíðu Hafnarborgar.

Þetta verða síðustu hádegistónleikar ársins í Hafnarborg og þar sem aðventan er gengin í garð verður efnisskráin sveipuð hátíðlegum blæ. Verkin sem Bjarni Thor syngur og minntist á eru eftir Sigvalda Kaldalóns, Mozart, Puccini og fleiri.

Til Þýskalands í febrúar

Bjarni Thor er hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hafa hvað lengst á erlendri grund. Eftir söngnám hér heima hélt hann til Vínarborgar árið 1994 og nam þar við óperudeild Tónlistarháskólans. Vorið 1997 var Bjarni ráðinn aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann sér einungis að lausamennsku. Hefur hann sungið mörg kunn bassahlutverk við fjölda óperuhúsa í mörgum löndum. Mörg undanfarin ár hefur Bjarni því einkum starfað erlendis við óperuhús á veturna en vegna veirunnar er þessi aðventa ólík því sem hann er vanur.

„Oftast hef ég verið einhvers staðar að syngja á þessum tíma úti í heimi. En þegar ég hef verið á Íslandi í desember hef ég oft tekið þátt í tónleikaflóðinu en það er miklu minna að gera núna. Þess vegna er frábært að fá þetta tækifæri í Hafnarborg til að syngja svolítið.

Fyrir marga söngvara sem starfa fyrst og fremst á Íslandi er aðventan uppgripatíminn og þar af leiðandi er mikill tekjumissir nú hjá mörgum.“

Bjarni Thor er bæjarlistamaður Garðabæjar og var með aðra streymistónleika þar á dögunum. Hvernig finnst honum að halda tónleika svona fyrir tómum sal?

„Það hefur kosti og galla. Auðvitað saknar maður samspilsins sem er alltaf við áhorfendur á tónleikum. Það er ekki til staðar þegar maður syngur inn í myndavélina. En ég reyni að sjá fyrir mér fólkið sem ég syng fyrir og ef vel tekst til þá er gaman að það sé til í streymi eða upptöku. Þetta er staðan í dag og ég fagna því að geta sungið fyrir fólk á þennan hátt.“

Hefði faraldurinn ekki skollið á væri Bjarni nú í Þýskalandi að syngja. „Ég verð að halda mér við og í febrúar hefjast mín verkefni í Þýskalandi og verða fram á vorið. Eins og staðan er í dag bendir ekkert til þess að þau verði felld niður. Ég horfi því fram á bjartari tíma,“ segir hann.