Það verður afar áhugavert að sjá hvaða þjálfari tekur við íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og verður arftaki Eriks Hamréns sem stýrði liðinu í síðasta skipti gegn Englandi í Þjóðadeildinni á dögunum.
Það verður afar áhugavert að sjá hvaða þjálfari tekur við íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og verður arftaki Eriks Hamréns sem stýrði liðinu í síðasta skipti gegn Englandi í Þjóðadeildinni á dögunum.

Síðustu tveir landsliðsþjálfarar hafa verið sænskir og það heilt yfir gengið vel, þrátt fyrir að Hamrén mistækist afar naumlega að koma Íslandi á þriðja stórmótið í röð. Ég var aðdáandi Hamréns sem fékk það gríðarlega erfiða verkefni að taka við landa sínum og uppáhaldi Íslendinga Lars Lagerbäck.

Hamrén tókst aldrei að vinna þjóðina á sitt band líkt og Lagerbäck. Liðið tapaði 0:6 fyrir Sviss í fyrsta leik Hamréns og eftir það var það brekka að fá stuðningsmenn með sér í lið. Hann gerðist svo sekur um það „mikla gáleysi“ að ætla að fagna góðum sigri með vindli sem gerði hann enn óvinsælli, þótt mér hafi fundist það mjög skemmtilegt. Ísland hefur ekki úr eins mörgum gæðaleikmönnum að velja og fremstu knattspyrnuþjóðir Evrópu og því ósköp eðlilegt að illa gengi í A-deild Þjóðadeildarinnar, með vængbrotið lið hvað eftir annað.

Þegar Hamrén gat notað bestu leikmenn íslenska liðsins gekk yfirleitt vel. Ísland lék tíu leiki í undankeppni EM og vann sex, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur leikjum. Tvö af þremur töpunum voru gegn heimsmeisturum Frakka.

Heilt yfir var árangurinn nokkuð góður hjá Hamrén í leikjunum sem skiptu mestu máli og þegar bestu leikmenn liðsins voru til taks. Því miður skemmdu fimm mínútur í Ungverjalandi fyrir mínum manni.