— Ljósmyndari/Ragnar Th. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Örn Thorlacius: "Bjarni hafði lagt metnað sinn í nýbygginguna. Jósef Reynis arkitekt teiknaði húsið og Bjarni pantaði meira og minna allt í húsið frá útlöndum."

Þriðji september 1965 var stór dagur hjá Bjarna R. Jónssyni, forstjóra G J Fossberg vélaverslunar, og starfsmönnum hans. Þann dag var verslunin flutt úr kjallaranum á Vesturgötu 3 í stórhýsi að Skúlagötu 63 sem Fossberg hafði reist yfir starfsemina. Stórhýsið stendur enn en telst víst standa nú við Bríetartún 13 vegna nafnabreytinga á götum í hverfinu.

Gunnlaugur Jónsson Fossberg vélstjóri (1891-1949) hafði stofnað fyrirtækið árið 1927 en hafði árið 1930 ráðið 25 ára mann, nýútskrifaðan úr Verslunarskólanum, sem skrifstofustjóra fyrirtækisins. Þetta var Bjarni R. Jónsson (1905-1996). Eftir ótímabært andlát Gunnlaugs árið 1949 tók Bjarni formlega við forstjórastarfinu og stjórnaði fyrirtækinu til ársins 1989 og hélt áfram að koma til starfa eftir það í nokkur ár. Starfsaldurinn var því rúm 60 ár.

Bjarni hafði lagt metnað sinn í nýbygginguna. Jósef Reynis arkitekt teiknaði húsið og Bjarni pantaði meira og minna allt í húsið frá útlöndum. Allt gler í gluggana var t.d. flutt inn frá Belgíu, lögð var vinna í glæsilega flísalögn undir verslunargluggunum og í stéttina fyrir framan inngangana var greypt merki fyrirtækisins eins og enn má sjá. Loksins var G J Fossberg komið í eigið húsnæði og þvílíkur munur.

Ef einhver hefði nú hvíslað því að Bjarna þennan septemberdag að timburhúsið á Vesturgötunni þar sem fyrirtækið hafði verið rekið við þrengsli í 30 ár myndi standa langt fram á 21. öld og jafnvel lengur, en stórhýsið sem hann var búinn að reisa yrði hins vegar rifið eftir 55 ár, hefði hann auðvitað hlegið að slíkri vitleysu. Og það hefðu reyndar allir gert. Mér er minnisstætt að Stefán Hermannsson þáverandi borgarverkfræðingur sagði við mig á sínum tíma að Fossberg-húsið bæri af öðrum húsum á þessum reit. Og það gerði það svo sannarlega.

Efsta hæðin og hluti 2. hæðar voru leigð út og geta má þess að Kjartan Sveinsson byggingatæknifræðingur rak teiknistofu sína þar árum saman og í þessari byggingu teiknaði hann öll sín hús. Utanríkisráðuneytið leigði einnig stóran hluta hússins undir varnarmálaskrifstofu sína í mörg ár og þar fóru öll opinber samskipti við varnarliðið fram. Einkaleyfastofan var þar einnig um tíma.

En þótt þetta fallega hús væri teiknað fyrir rekstur vélaverslunar hafði það ákveðna galla. Erfitt var að koma stórum málmiðnaðarvélum eins og rennibekkjum og fræsivélum inn í verslunarrýmið. Verra var þó að vörugeymslan var í loftlágum kjallara undir versluninni. Það fór því svo að verslunin var flutt í annað hentugra húsnæði árið 2000 og húsið selt.

Undanfarin ár hefur hafist mjög stórkarlaleg uppbygging á þessum reit sem nú er kenndur við Höfðatorg. Þetta er kynnt á þann veg að Höfðatorg sé umgjörð um fjölbreytt mannlíf og margvíslega þjónustu. Öll starfsemi þar miðist við að skapa „hlýlegan miðbæjarkjarna sem þjónar íbúum, starfsfólki, nágrönnum, gestum og gangandi“. Þarna hafa hins vegar verið reistar kuldalegar risavaxnar byggingar í andstöðu við umhverfið og nú er svo komið að einungis standa eftir tvö upphafleg hús á reitnum og er annað þeirra Fossberghúsið. Þessi hús standa nú eins og illa gerðir hlutir vegna nýbygginganna og búið er að sækja um niðurrif á þeim.

Hvað Fossberghúsið snertir er ekki hægt að segja annað en að um eyðileggingu verðmæta verði að ræða og grátlegt að þessar stórkarlalegu og risavöxnu nýbyggingar beri eldri og fallegri byggingar ofurliði í bókstaflegri merkingu. Mér skilst að þetta skipulag hafi verið samþykkt í valdatíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra. Ég verð að segja sem gamall Reykvíkingur að ég kann honum og öðrum sem hlut áttu að máli litlar þakkir fyrir.

Þess má að lokum geta að Fossberg-fyrirtækið er enn rekið með myndarbrag í Dugguvogi í Reykjavík og er sennilega elsta starfandi verkfæraverslun landsins.

Höfundur er dóttursonur Gunnlaugs Jónssonar Fossberg og starfaði hjá Fossberg samfleytt 1983-2002. einarornth58@gmail.com

Höf.: Einar Örn Thorlacius