Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Áhrif samfélagsmiðla á líf og líðan ungs fólks eru tvíbent. Hin jákvæðu eru möguleikar sem bjóðast til þess að fylgjast með atburðum og umræðum um mál líðandi stundar, vera í samskiptum við fólk og fá upplýsingar, ráðleggingar, afþreyingu og innblástur. Neikvæðar hliðar eru aftur á móti hættan á að eðlileg mannleg samskipti bjagist, að notendur falli fyrir freistingum og kostaboðum eða láti um of stjórnast af tískustraumum og glansmyndum. Mikið er um slíkt í netheimum, þar sem margir telja sig dvelja of lengi. Þetta er meðal helstu niðurstaðna í meistaraverkefni sem Sveinbjörg Smáradóttir varði við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri nú á dögunum.
Efnið oft óáreiðanlegt
Í MA-verkefni Sveinbjargar tóku 25 manns á Norðurlandi, 20-30 ára, þátt í rýnihópum og svöruðu spurningum. Upplegg í starfinu voru svonefndir Þróunarvísar norðurslóða, vísindatæki sem notaðir eru til að fylgjast með lífsgæðum fólks sem byggir nyrstu slóðir veraldar. Vísarnir eru efnahagsleg velferð, menntun, heilsa, menning, tengsl við náttúru og stjórn á eigin örlögum. Niðurstöður þessa verkefnis verða nú teknar inn í vísindastarf Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri, en þar er Sveinbjörg sérfræðingur í norðurslóðamálum.„Viðmælendur mínir í rannsókninni sögðu að þeim þætti miður hve efni á samfélagsmiðlum sé oft óáreiðanlegt. Einnig að umræður og rökræður um samfélagsleg og pólitísk málefni vilji vera erfiðar, ósanngjarnar og ómálefnalegar. Því er gagnrýnin hugsun mikilvæg við alla notkun á þessum miðlum,“ nefnir Sveinbjörg. Mikil notkun ungs fólks á samfélagsmiðlum og nánast sítenging sumra við þá kalli á vitundarvakningu og fræðslu um hóflega notkun.
„Ég tel mikilvægt að draga úr skjátíma svo við eyðum ekki meiri tíma og orku í að fylgjast með öðrum, heldur njótum okkar eigin tilveru. Fyrir mína parta vildi ég helst sjá samfélagssáttmála um að ung börn fengju ekki snjallsíma eða að nota samfélagsmiðla fyrr en þau hafa náð tilteknum aldri, vegna mikillar ábyrgðar sem þau eru kannski ekki fær um að standa undir. Við sendum börnin okkar ekki ein út í umferðina á reiðhjóli fyrr en þau hafa náð þroska til. Ég vil svipaða nálgun á snjallsíma og samfélagsmiðla.“
Facebook hefur misst vægi
Sveinbjörg segir marga viðmælendur hafa nefnt hve háðir þeir séu samfélagsmiðlum og notkun þeirra. Að þeir ótengdir séu að missa af einhverju og finnist mikilvægt þegar kveikt er á símum að athuga strax þegar heyrist hljóð, til dæmis frá Facebook .„Mér finnst eins og við séum líka orðin háð því að hafa eitthvað fyrir augunum og meðtaka upplýsingar, hversu vel sem þær svo sitja í minni. Við kunnum ekki lengur að sitja bara og gera ekki neitt og horfa út í loftið,“ segir Sveinbjörg og bætir við að notkun, vægi og hlutverk einstaka félagsmiðla breytist hratt um þessar mundir. Facebook hafi augljóslega misst vægi sitt sem flotti miðillinn og sé orðinn vettvangur fyrir hagnýtar upplýsingar, meðal annars í afmörkuðum hópum. Instagram sé fremur notað fyrir afþreyingu, skemmtun og til að byggja upp ímynd út á við. Í dag sé miðillinn TikTok svo í mikilli sókn, stækki hraðar en aðrir miðlar og muni breyta myndinni.
„Samfélagsmiðlar veita þeim sem eru veikir félagslega auðvelda leið til að draga sig inn í skel og forðast samskipti við aðra. Miðlarnir geta aukið á tilfinningalegan og félagslegan vanda þeirra sem glíma við slíkt, án þess að vera bein orsök. Á hinn bóginn geta samfélagmiðlar líka hjálpað fólki að finna jafningja sína og stuðning og þannig eflt félagsleg samskipti.“