Leiðtogi Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, lengst til vinstri, ætlar sér á fjórða Evrópumótið í röð.
Leiðtogi Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, lengst til vinstri, ætlar sér á fjórða Evrópumótið í röð. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undankeppni EM Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu gæti þurft að bíða fram í febrúar á næsta ári til þess að fá úr því skorið hvort liðið fari beint í lokakeppni EM 2022 eða hvort það þarf að fara í umspil.

Undankeppni EM

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu gæti þurft að bíða fram í febrúar á næsta ári til þess að fá úr því skorið hvort liðið fari beint í lokakeppni EM 2022 eða hvort það þarf að fara í umspil.

Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í F-riðli undankeppninnar á Szusza Ferenc-vellinum í Búdapest í dag en íslenska liðið tryggði sér annað sæti riðilsins með 3:1-sigri gegn Slóvakíu í Senec á fimmtudaginn síðasta.

Ísland á ennþá góða möguleika á því að komast beint í lokakeppnina sem fram fer á Englandi en þrjú lið, með bestan árangur í öðru sæti síns riðils, komast beint í lokakeppnina líkt og þau lið sem enda í efsta sæti síns riðils.

Undankeppnin samanstendur af níu riðlum. Í tveimur riðlanna eru sex lið en í hinum sjö eru liðin fimm. Í riðlunum tveimur þar sem sex lið leika gilda leikirnir gegn botnliði riðilsins ekki, og hefur það umtalsverð áhrif á heildarstigafjölda efstu tveggja liðanna þegar upp er staðið.

Eins og staðan er í dag er Ísland með annan besta árangur allra liða í öðru sæti riðlakeppninnar. Íslenska liðið er með 16 stig en liðið þarf án alls vafa að vera með 19 stig til þess að eiga möguleika á að komast beint í lokakeppni EM.

Í fjórum öðrum riðlum eru liðin í öðru sæti í svipaðri stöðu og Ísland og það gæti vel farið svo að markatalan skæri úr um það að lokum hvaða lið það verða sem fara beint í lokakeppnina. Íslenska liðið er með nítján mörk í plús eins og staðan er í dag og verður með tuttugu mörk í plús að lágmarki, ef liðið vinnur Ungverjaland.

Flókin staða í riðlakeppninni

Í H-riðli er Sviss með 19 stig og Belgía 18 en liðin mætast í Heverlee í Belgíu í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins í kvöld. Allt nema jafntefli yrði óskaúrslit fyrir Ísland.

Í B-riðli mætast Danmörk og Ítalía í Viborg í dag en Danir eru nú þegar búnir að tryggja sér sæti í lokakeppninni. Ítalir eru með 21 stig í öðru sæti riðilsins, 15 ef dregin eru frá stigin sem liðið fékk gegn botnliði Georgíu. Ítalir eiga tvo leiki eftir og því ljóst að danskur sigur myndi setja Ísland ofar Ítalíu.

Í E-riðli er staðan flóknust því þar eru tvær umferðir óleiknar og verða þær umferðir spilaðar í febrúar á næsta ári. Finnland, Portúgal og Skotland berjast um sæti í lokakeppninni en Finnland og Portúgal standa best að vígi með 13 stig þegar þremur umferðum er ólokið. Finnland og Portúgal eiga þó eftir að mætast innbyrðis.

Staðan er því ansi flókin og fari svo að Ísland vinni stóran sigur í Búdapest getur liðið ekki leyft sér að fagna sæti í lokakeppninni fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.

Fari svo að Ísland komist ekki beint í lokakeppnina á liðið ennþá góða möguleika á að komast á fjórða Evrópumótið í röð en liðin sex, sem hafna í öðru sæti en komast ekki beint á EM, fara í umspil sín á milli um þrjú síðustu sætin.

Allt undir gegn Ungverjum

„Þessi leikur leggst mjög vel í mig og allan hópinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, í samtali við Morgunblaðið í gær. „Við vitum allar upp á hár hvað er undir í þessum leik en á sama tíma er alls ekkert öruggt að við séum komnar í lokakeppnina, jafnvel þótt við vinnum á morgun. Þetta snýst um að við klárum okkar og vonandi fara svo hinir leikirnir eins og við viljum að þeir fari.

Ég á von á mjög svipuðum leik og gegn Slóvökunum. Það var sjokk að lenda 1:0-undir í Slóvakíu en að sama skapi var það kannski bara fínt því núna gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að vera á fullu frá fyrstu mínútu gegn Ungverjalandi,“ sagði landsliðsfyrirliðinn sem á að baki 135 A-landsleiki.

Sara Björk segir að íslenska liðið geti ekki leyft sér að vanmeta Ungverjana þrátt fyrir að Ísland hafi unnið nokkuð sannfærandi 4:1-sigur á Laugardalsvelli í fyrri leik liðanna í lok ágúst 2019.

„Ég á von á hörkuleik enda eru þær með fínt lið og fína leikmenn. Við þurfum þess vegna að eiga toppleik til þess að klára þær og við getum ekki leyft okkur að slaka á eða vanmeta þær á einhvern hátt enda gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur.

Það er búið að fara vel yfir allt sem skiptir máli, eins og til dæmis markatöluna, en svo þurfum við líka bara að sjá hvernig leikurinn þróast. Númer eitt, tvö og þrjú er að taka þrjú stig og vinna leikinn og svo, ef við sköpum okkur mörg tækifæri, þurfum við að vera á tánum og nýta þau vel. Við erum með þetta á bak við eyrað og vitum að þetta gæti ráðið úrslitum,“ bætti miðjukonan við í samtali við Morgunblaðið.

Riðill Íslands
Svíþjóð 761034:219
Ísland 751124:516
Slóvakía 73137:1310
Ungverjal. 721411:197
Lettland 80082:390