Í bígerð er að allt að fjögur veiðiskip haldi til loðnuleitar á næstunni.

Í bígerð er að allt að fjögur veiðiskip haldi til loðnuleitar á næstunni. Útgerðir uppsjávarskipa standa að undirbúningi verkefnisins í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og yrðu sérfræðingar frá stofnuninni um borð, að sögn Birkis Bárðarsonar fiskifræðings.

Hann segir að samkvæmt gögnum úr loðnuleit Polar Amaroq fyrir Norðurlandi í síðustu viku sé eitthvað af kynþroska loðnu á ferðinni. Hún sé komin austar en sést hafi á þessum árstíma undanfarin ár, en upplýsingar um magn ættu að liggja fyrir um miðja vikuna.

Með loðnuleit fjögurra skipa næðist væntanlega mæling á magni þeirrar loðnu sem er á ferðinni við landgrunnskantinn fyrir norðan land. Hvaða skip fara og hvenær, ef af leiðangrinum verður, ræðst m.a. af veðurútliti og hvernig stendur á hjá skipunum, sem mörg hver hafa verið á kolmunna við Færeyjar undanfarið. aij@mbl.is