Vilhjálmur Þórhallsson fæddist á Seyðisfirði 14. júní 1931. Hann lést 15. nóvember 2020 á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ.

Faðir hans var Þórhallur Vilhjálmsson, f. á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð f. 25. júlí 1899, d. 15. janúar 1961. Móðir Vilhjálms var Sigríður Jónsdóttir, f. á Breiðavaði í Hjaltastaðaþinghá 13. september 1895, d. 7. júlí 1970.

Vilhjálmur kvæntist Sigríði Guðmannsdóttur 22. júlí 1960, f. í Keflavík 6. febrúar 1932, d. 16. maí 2014.

Börn þeirra: 1) Þórhallur, f. í Keflavík 19. nóvember 1961. 2) Guðrún, f. í Keflavík 2. mars 1964. 3) Ólafía Sigríður, f. í Keflavík 13. nóvember 1977. Eiginkona Þórhalls er Sólveig Bjarnadóttir f. á Akureyri 21. febrúar 1961. Eiginmaður Guðrúnar var Sveinn Númi Vilhjálmsson, þau slitu samvistir 1999. Eiginmaður Ólafíu Sigríðar af fyrra hjónabandi er Ásgeir Freyr Guðmundsson, f. í Bandaríkjunum 1975. Seinni eiginmaður Ólafíu Sigríðar er Nathan Balo, f. í Bandaríkjunum 1980. Börn Þórhalls og Sólveigar eru Vilhjálmur Reyr, f. á Akureyri 1982, og Elín, f. í Reykjavík 1984. Eiginkona Vilhjálms Reyrs er Berglind Guðmundsdóttir, f. 1983, og þeirra synir eru Þórhallur, f. 2012, og Guðmundur, f. 2017. Sambýlismaður Elínar er Aðalsteinn Ragnar Benediktsson, f. í Reykjavík 1984. Börn Guðrúnar og Sveins Núma eru Sigríður, f. í Keflavík 1991, og Marsibil, f. í Keflavík 1993. Sambýlismaður Sigríðar er Óli Þór Arnarson, f. á Akureyri 1991. Dóttir þeirra er Karen Lilja, f. 6. febrúar 2019. Sambýliskona Marsibilar er Kristín Pétursdóttir, f. 1997 í Kópavogi. Dóttir Ólafíu og Ásgeirs er Sara Rós, f. í Keflavík 2004. Börn Ólafíu Sigríðar og Nathans eru Ari Edward, f. í Bandaríkjunum 2010, og Óðinn Einar, f. í Bandaríkjunum 2012.

Vilhjálmur var yngstur fjögurra systkina. Elstur var Birgir, f. 1925, d. 8. febrúar 2017. Næstelstur var Bragi, f. 1927, d. 1948, sem lést úr berklum. Guðbjörg var næstyngst, f. 1929, d. 2015.

Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1953 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1960. Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 1961 og fyrir Hæstarétti 1965. Hann starfaði allan starfsferil sinn sem lögmaður á Suðurnesjum. Fyrst á skrifstofu sinni í Keflavík frá 1960. Um skeið starfaði hann sem bæjarlögmaður Keflavíkur og síðustu starfsár sín á lögfræðiskrifstofu Suðurnesja. Vilhjálmur var virkur í félags- og trúnaðarstörfum. Hann var m.a. formaður Skákfélags Keflavíkur 1957 og sama ár formaður félags ungra jafnaðarmanna. Formaður stjórnar Sjúkrasamlags Keflavíkur 1968-1981. Hann var einn stofnfélaga Oddfellowreglunnar Njarðar 1976. Félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur 1963-1979 (formaður 1970) og félagi í Málfundarfélaginu Faxa í Keflavík frá 1987-1993.

Vilhjálmur verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju í dag, 1. desember, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á:

https://www.facebook.com/groups/utforvilhjalms

Virkan hlekk á streymi má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Þegar ég hugsa um föðurbróður minn, Vilhjálm Þórhallsson hæstaréttarlögmann, sem nú er nýlátinn, finnst mér sem hann muni verða mér lengi minnisstæður af ýmsum ástæðum, en ekki síst vegna sterkrar nærveru sem hann hafði og sem var óvenjuleg að því leyti að hún helgaðist ekki aðeins af þeim mörgu gáfum sem hann var gæddur og miðlaði til samferðamanna heldur einnig og ekki síður af því hvernig hann hlustaði. Sagt er að hann hafi stundum verið annars hugar og djúpt sokkinn í sína þanka, en mín reynsla er sú að í samræðum hafi hann hlustað af mjög einbeittri athygli á viðmælanda sinn. E.t.v. var þessi eiginleiki honum í blóð borinn en gæti líka hafa eflst í þeirri þjálfun hugans sem lögmennskan krefst. Athygli hans virtist hvorki vera óvirk né hlutlaus, heldur var eins og hann hlustaði og væri jafn harðan að vega og meta hugmyndirnar sem reifaðar voru líkt og þegar sótt er og varið í réttarsal. Hann spurði mig stundum um eitthvað sem ég þóttist vita að hann kynni fyrir fram svar við, en þá var það líklegast til að gefa mér tækifæri til að skýra mál mitt betur en í fyrstu tilraun svo að sannleikurinn yrði á endanum ljósari en áður. Ég hef fyrir satt að í störfum sínum sem lögmaður hafi hann átt auðvelt með að samsama sig málstað skjólstæðinga sinna þegar hann taldi sig að athuguðu máli vita hið sanna um málavexti og hafi þá átt auðvelt með að fylgja málum eftir. Það mætti segja mér að eiginleikar af þessu tagi séu ómetanlegir í fari lögmanns, að vilja athuga allar hliðar máls, en hafa jafnframt eðlislæga löngun til að leiða sannleikann í ljós. Ég minnist orða sem hann lét einu sinni falla í mín eyru: „Veistu, frændi, ég hef eiginlega bara haft eitt prinsipp í minni lögmennsku og það er þetta: að segja umbjóðendum mínum sannleikann um stöðu mála, undanbragðalaust, – og veistu: þetta hefur gefist mér mjög vel.“ Og öðru sinni heyrði ég hann segja að hann reyndi yfirleitt að kanna til þrautar hvort hægt væri að sætta málsaðila fremur en leita til dómstóla. Þetta hygg ég að lýsi frænda mínum vel. Hann var velviljaður að eðlisfari og friðarins maður, en jafnframt réttsýnn, heiðarlegur og hreinskiptinn. Ekki spillti fyrir hve stutt var í brosið sem lýsti hlýhug og góðu hjartalagi, og hlátur hans var smitandi og gleymist seint. Blessuð sé minning Vilhjálms Þórhallssonar.

Snorri Sigfús Birgisson.