Þakkargjörð Nokkur örtröð var á bandarískum flugvöllum fyrir helgi vegna þakkargjörðar. Er óttast að smitum muni fjölga þar mjög á næstunni.
Þakkargjörð Nokkur örtröð var á bandarískum flugvöllum fyrir helgi vegna þakkargjörðar. Er óttast að smitum muni fjölga þar mjög á næstunni. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna lýsti því yfir í gær að það hygðist sækja um leyfi fyrir bóluefni sínu gegn kórónuveirunni hjá bandarískum og evrópskum heilbrigðisyfirvöldum, en lokaniðurstöður prófana benda til þess að það sýni 94,1% virkni.

Stephane Bancel, framkvæmdastjóri Moderna, sagðist í yfirlýsingu sinni trúa því að bóluefni fyrirtækisins yrði nýtt og öflugt tæki til að breyta stefnu heimsfaraldursins og hjálpa til við að koma í veg fyrir sjúkrahúsvist og dauðdaga.

Byrja um miðjan desember

Moderna stefnir á að geta byrjað að gefa fólki fyrri skammtinn af tveimur sem þarf um miðjan desember, verði leyfi veitt til þess, og er gert ráð fyrir að um 20 milljón skammtar af efninu verði fáanlegir í Bandaríkjunum fyrir lok þessa árs. Þá stefnir fyrirtækið á að framleiða allt frá 500 milljónum til eins milljarðs skammta af efninu á næsta ári.

Bandaríski lyfjarisiinn Pfizer og þýska líftæknifyrirtækið BioNTech sóttu um svipuð leyfi í síðustu viku, og er gert ráð fyrir að bóluefni þeirra, sem þótt hefur sýna svipaða virkni og bóluefni Moderna, fari í dreifingu í Bandaríkjunum eftir 10. desember næstkomandi.

„Bylgja ofan í bylgju“

Tíðindin koma á sama tíma og seinni bylgja kórónuveirunnar er enn í fullum gangi. Féllu markaðir í Asíu og í Evrópu í gær nokkuð á ný, þar sem ekkert lát virðist vera á fjölgun nýrra tilfella.

Anthony Fauci, yfirmaður sóttvarna í Bandaríkjunum, varaði við því í gær að samlandar sínir mættu eiga von á „bylgju ofan í bylgju“, þar sem svo virtist sem fjöldi Bandaríkjamanna hefði verið á ferðinni um þakkargjörðarhátíðina, sem fram fór síðastliðinn föstudag.

Hátíðin markar jafnan upphaf jólahalds í Bandaríkjunum og er venjan sú að efnt sé til mikillar veislu með stórfjölskyldunni. Greindu bandarískir fjölmiðlar frá því um helgina, að þrátt fyrir tilmæli um að slíku yrði haldið í lágmarki í ár hefði umferð um bandaríska flugvelli verið sú mesta í síðustu viku frá upphafi faraldursins.

Jerome Adams, landlæknir Bandaríkjanna, sagði sömuleiðis að gera mætti ráð fyrir stórri bylgju, og hafa helstu forvígismenn heilbrigðisyfirvalda þar lýst yfir áhyggjum sínum vegna komandi jólahátíðar.