Hagtölur eru á ýmsan hátt ólíkar nú og fyrir áratug

Herstjórnendur búa sig jafnan undir síðasta stríð og hagstjórnendur búa sig undir síðustu kreppu. Þó endurtekur sagan sig aldrei, þvert á það sem oft er haldið fram. Nýjar hagtölur eru til að mynda athyglisverðar þegar þær eru bornar saman við sömu tölur fyrir rúmum áratug. Landsframleiðsla dregst saman af svipaðri stærðargráðu nú og árið 2009, um á að giska 8%. Samdráttur í einkaneyslu hefur hins vegar verið mun minni nú en fyrir rúmum áratug, en þá dróst einkaneyslan enn meira saman en landsframleiðslan. Að auki var hún mörg ár að ná sér á strik og það var ekki fyrr en árið 2017 sem magn einkaneyslu var orðið hið sama og 2007.

Þá skiptir máli að hrein staða Íslands við útlönd nemur nú þriðjungi landsframleiðslunnar og hefur aldrei verið jafn sterk. Þetta er þveröfugt við þá stöðu sem Íslendingar stóðu frammi fyrir í síðustu kreppu, en sem betur fer tókst að koma í veg fyrir að þeir sætu uppi með allan þann skuldaklafa sem þá var reynt að hengja á þá.

Staðan í efnahagsmálum er erfið um þessar mundir, mörg fyrirtæki róa lífróður og skuldir hins opinbera fara hratt vaxandi, en voru lágar við upphaf kórónukreppunnar rétt eins og við fall bankanna. Það hjálpar mikið nú rétt eins og þá.

Erlend staða þjóðarbúsins og tiltölulega sterk einkaneysla eru meðal þeirra jákvæðu þátta sem gefa von um að hægt verði að vinna efnahag Íslands hratt upp úr lægðinni þegar rofar til í veirufaraldrinum. Það gerist ekki á þeim mánuði sem eftir er af þessu ári og varla á fyrri hluta næsta árs, en líklega er ekki óhófleg bjartsýni að ætla að eftir það geti landið farið að lyftast.