Erik Jensen
Erik Jensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stórtíðindi urðu í grænlenskum stjórnmálum um helgina þegar Erik Jensen felldi Kim Kielsen, formann grænlensku landsstjórnarinnar, í formannskjöri Siumut, stærsta stjórnarflokksins, með 39 atkvæðum gegn 32.

Stórtíðindi urðu í grænlenskum stjórnmálum um helgina þegar Erik Jensen felldi Kim Kielsen, formann grænlensku landsstjórnarinnar, í formannskjöri Siumut, stærsta stjórnarflokksins, með 39 atkvæðum gegn 32. Vivian Motzfeldt, forseti þingsins, var kjörin varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen hlaut kjör sem varaformaður skipulagsmála flokksins.

Kielsen hefur verið formaður Siumut, sem telst til jafnaðarmannaflokka, undanfarin sex ár, en flokkurinn hefur borið ægishjálm yfir aðra í grænlenskum stjórnmálum frá því að landsstjórnin var sett á fót árið 1979.

Stefna Kielsens hefur hins vegar verið umdeild, og kölluðu nokkrir þingmenn Siumut eftir því að hann segði af sér á síðasta ári. Jensen, sem þá gegndi embætti auðlindaráðherra, var á meðal þeirra. Hann kaus hins vegar að sitja hjá í haust, þegar vantrauststillaga var borin fram gegn Kielsen, en tillagan var felld með minnsta mun.

Kielsen gaf til kynna eftir að niðurstaðan var ljós að hann hygðist sitja áfram sem formaður landsstjórnarinnar, þar sem þingræði er við lýði í Grænlandi. Jensen sagðist ekki ætla að þrýsta á Kielsen að segja af sér, en gerði ráð fyrir að hann myndi ræða málið við Kielsen fljótlega. Er talið líklegt að Kielsen muni fljótlega víkja sæti fyrir Jensen, en þingið gerði nýlega vetrarhlé á störfum sínum til næsta febrúar.

Aukin áhersla á sjálfstæði

Jensen sagði í samtali við fréttavefinn highnorthnews.com að hann hygðist leggja meiri áherslu á sjálfstæðismál Grænlands og að Grænlendingar tækju yfir fleiri þætti úr höndum Dana. „Við erum á leiðinni til sjálfstæðis. Það er það sem færir hlýju í hvert grænlenskt hjarta,“ sagði Jensen.

Stefnir Jensen m.a. á að Grænlendingar taki í meiri mæli yfir velferð dýra, innflytjendamál, flutninga og utanríkismál. Þá myndi Grænland sækjast eftir auknum utanríkisviðskiptum.