Höfundurinn Nýjasta saga Árna Árnasonar, Háspenna, lífshætta á Spáni, er sögð hin „besta skemmtun“ og bæði „spennandi og hressileg“.
Höfundurinn Nýjasta saga Árna Árnasonar, Háspenna, lífshætta á Spáni, er sögð hin „besta skemmtun“ og bæði „spennandi og hressileg“. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Árna Árnason. Bjartur 2020. Innbundin, 226 bls.

Barna- og unglingabókin Háspenna, lífshætta á Spáni er sjálfstætt framhald bókarinnar um Friðberg forseta sem kom út fyrir síðustu jól. Líkt og fyrri bókin er sögusvið bókarinnar náin framtíð en að þessu sinni er sögusviðið, eins og nafnið gefur til kynna, Spánn.

Lesendur bóka Árna Árnasonar kannast við systkinin Sóleyju og Ara og ævintýri þeirra. Eftir ævintýrin í síðustu bók er móðir þeirra barna nú orðin forseti Íslands og sjá systkinin því minna af móður sinni en áður, en dagskrá forseta getur verið æði þétt.

Ákveðið er að fjölskyldan haldi í frí til Spánar þar sem móðirin, eða forseti Íslands, ætlar á ráðstefnu og síðan ætla þau fjögur að slaka á saman í sólinni. Það sem átti að vera þægilegt frí í sól og sumaryl breytist skyndilega þegar skuggalegir menn birtast í kringum systkinin og enn fremur menn sem eiga alls ekkert að vera á Spáni.

Við tekur hröð og spennandi atburðarás þar sem Sóley, Ari, Rakel, vinkona þeirra frá Íslandi, og systkinin Helena og Hugo, sem bjuggu á Spáni, þurfa að hafa hraðar hendur svo illmennunum takist ekki ætlunarverk sitt.

Uppbygging bókarinnar er skemmtileg þótt hraðinn hefði ef til vill mátt vera eilítið meiri í byrjun. Eftir nokkuð hæga byrjun færist hins vegar mikið fjör í leikinn þar sem krakkahópurinn berst gegn illum mönnum sem ekki verða nafngreindir hér til að eyðileggja ekki spennuna fyrir væntanlegum lesendum.

Á köflum hugsaði 32 ára bókadómarinn að þetta eða hitt væri ef til vill nokkuð fyrirsjáanlegt en samt sem áður voru ýmis atriði sem komu á óvart. Vert er að benda á að bókin er ætluð börnum og unglingum og því segir lítið þótt karlmaður á fertugsaldri telji sig skarpan og átti sig nokkurn veginn á því sem muni gerast á næstu síðu eða síðum.

Heilt yfir er bókin spennandi og hressileg þótt hún sé ekki alveg jafn fersk og sagan um Friðberg forseta. Enda er kannski ekki hægt að ætlast til þess að ná að feta alveg í fótspor þeirrar frábæru bókar. Háspenna, lífshætta á Spáni er hins vegar besta skemmtun og aðdáendur Friðbergs ættu ekki að láta hana fram hjá sér fara.

Jóhann Ólafsson

Höf.: Jóhann Ólafsson