Sérfræðingarnir sem Biden hyggst tilnefna þykja ekki líklegir til að hafa miklar áhyggjur af framúrkeyrslu ríkissjóðs. Yellen mun líkast til nota fjárhag heimilanna, frekar en verðbréfavísitölurnar, sem mælikvarða á ástand hagkerfisins.
Sérfræðingarnir sem Biden hyggst tilnefna þykja ekki líklegir til að hafa miklar áhyggjur af framúrkeyrslu ríkissjóðs. Yellen mun líkast til nota fjárhag heimilanna, frekar en verðbréfavísitölurnar, sem mælikvarða á ástand hagkerfisins. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Mexíkóborg ai@mbl.is Sem fjármálaráðherra mun Janet Yellen hafa allt önnur tól og tæki til að örva hagkerfið en þegar hún var seðlabankastjóri.

Joe Biden er byrjaður að velja fólk í helstu stöður í nýrri ríkisstjórn og óhætt að segja að bandarískir fjölmiðlar megi ekki vatni halda af hrifningu. Hópurinn sem Biden hefur kynnt til leiks fram að þessu samanstendur af reyndu fólki sem er nægilega óumdeilt og nógu nálægt miðjunni til að geta fallið í kramið hjá bæði demókrötum og repúblikönum.

Þá hafa stjórnmálagreinendur veitt því athygli hvað þjóðflokkur hvítra miðaldra karla á fáa fulltrúa í innsta hring Bidens sem valið hefur öflugar konur og fulltrúa minnihlutahópa í margar lykilstöður. Þannig vill hann skipa Lindu Thomas-Greenfield sem sendiherra gagnvart Sameinuðu þjóðunum, gera Avril Haines að yfirmanni njósnamála, láta Neeru Tanden stýra fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins og gera þær Ciciliu Rouse og Heather Boushey að efnahagsráðgjöfum sínum.

Þegar fréttist að fjölmiðlateymi Hvíta hússins yrði eingöngu skipað konum lét Jennifer Psaki, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Obama, í sér heyra á Twitter og lýsti því yfir að þetta væri „fjölbreyttasti [fjölmiðlafulltrúa]hópur sögunnar“. Var gott að fá það endanlega á hreint að fjarvera karlmanna er allt sem þarf til að koma á fjölbreytni.

Margir af þeim sem Biden hefur valið verða ýmist fyrstu konurnar ellegar fyrsta fólkið af afrískum eða suðurasískum uppruna til að gegna viðkomandi stöðum, að því gefnu að þingið samþykki tilnefningarnar.

Af öllum liðsmönnum Bidens hefur Janet Yellen fengið langmesta athygli og það ekki að ástæðulausu. Yellen, sem var seðlabankastjóri frá 2014 til 2018, á að taka við fjármálaráðuneytinu og verður því í aðalhlutverki við að mjaka hagkerfi Bandaríkjanna upp úr kórónu-kreppunni. Sumir telja Biden varla hafa getað valið betri fjármálaráðherra en aðrir benda á að þótt Yellen sé mörgum kostum gædd sé nýja starfið allt annars eðlis en það sem Yellen er vön: Hún sé vandvirkur fræðimaður og varkár hagfræðinörd en hlutverk fjármálaráðherrans rammpólitískt og kalli á mikla diplómatíska færni.

Alveg ófeimin við örvunaraðgerðir

Þegar fjármála- og hagstjórnarteymi Bidens er skoðað í heild má telja líklegt að næstu fjögur ár verði ekki mikið aðhald í ríkisfjármálum Bandaríkjanna. Í hópnum er t.d. fólk sem hefur þrýst fast á þingið að ganga enn lengra í örvunaraðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Hafa þær Boushey og Rouse gengið svo langt að leggja til að bandarísk stjórnvöld leiði í lög nokkurs konar sjálfvirka innspýtingu sem virkjast ef hagkerfið byrjar að hökta. Rökin eru þau að á meðan beðið er eftir inngripum hins opinbera skaðist efnahagslífið að óþörfu.

Sjálf hefur Yellen hvatt ríkisstjórn Trumps til að draga hvergi af sér í örvunaraðgerðunum og síðast í sumar viðraði hún áhyggjur sínar af að ekki hefði verið gengið nógu langt til að vega upp á móti því tjóni sem smitvarnaaðgerðir og faraldurinn hafa valdið. Sumir greinendur meta það svo að Yellen hefði viljað ganga enn lengra sem seðlabankastjóri; nýta örvunartæki bankans enn meira til að skapa enn fleiri störf og enn öflugri hagvöxt. Ef þetta hugarfar fylgir henni inn í nýja starfið má vænta mikilla ríkisútgjalda og risavaxins fjárlagahalla.

Fjármagnið til fólksins

En um leið býður starf fjármálaráðherra upp á allt aðrar áherslur og útfærslur en starf seðlabankastjóra. Hjá seðlabankanum gat Yellen aðeins gert þrennt: breytt stýrivöxtum, breytt bindiskyldu bankanna og keypt eða selt skuldabréf. Allt eru þetta aðgerðir sem hafa almenn áhrif sem koma alla jafna fyrst fram í fjármálageiranum. Sem fjármálaráðherra eru Yellen hér um bil engin takmörk sett ef hún vill t.d. grípa til örvunaraðgerða sem beinast sérstaklega að tilteknum hópum innan samfélagsins.

Þar komum við að því sem verður kannski helsti munurinn á hagstjórn Trumps og Bidens. Trump hefur notað hlutabréfavísitölurnar sem aðalmælikvarðann á árangur sinn í starfi og hafa efnahagsaðgerðir hans einkum miðað að því að létta byrðum af atvinnulífinu með ýmsum hætti. Hlutabréfaverð hefur rokið upp í forsetatíð Trumps svo að þegar (og ef?) hann kveður Hvíta húsið mun hann geta hreykt sér af að Dow Jones-vísitalan hefur styrkst um u.þ.b. 50% frá ársbyrjun 2017. Trump gæti bent á að samhliða þessu hafi t.d. atvinnuleysi minnihlutahópa verið á hraðri niðurleið og ekki verið minna frá því mælingar hófust en gagnrýnendur myndu svara með því að aðgerðir Trumps geti varla verið sjálfbærar og að hlutfallslega lítið hafi skilað sér til þeirra tekjulágu og jaðarsettu á meðan dansinn dunaði á Wall Street.

Yellen, aftur á móti, er vís til að líta á fjárhag bandarískra heimila sem besta mælikvarðann á heilbrigði bandaríska hagkerfisins. Það mótaði Yellen á uppvaxtarárunum að hún var dóttir heimilislæknis í hverfi hafnarverkamanna í Brooklyn. Í gegnum störf föður síns upplifði hún hversu hörmuleg áhrif atvinnuleysi getur haft á líf fjölskyldna og hefur alltaf verið henni mikið hjartans mál að atvinnustig sé eins hátt og hagkerfið þolir. Yellen er hagfræðingur sem lætur gögnin vísa sér leið en hún lætur hagtölurnar ekki byrgja sér sýn og stefnir alltaf að einu marki: að bæta líf venjulegs fólks.

Varkári fræðimaðurinn

Yellen mun þurfa að huga að mörgu fleiru. Ríkisstjórn Bidens er t.d. vís til að vilja herða aftur tökin á fjármálageiranum og er því spáð að fjárfestingarfélög megi vænta meira aðhalds í nafni þess að minnka áhættu í fjármálakerfinu. Yellen mun líka verða í aðalhlutverki við að móta alþjóðaviðskiptastefnu Bandaríkjanna. Þar erfir hún deilu Trumps við Kína en fréttaskýrendur telja ólíklegt að Biden vilji (eða treysti sér til) breiða út faðminn á móti ráðamönnum í Peking. Það mun hins vegar verða auðsótt fyrir Yellen að bæta tengslin við Evrópu enda vel liðin og virt af evrópskum fjármálaráðherrum og seðlabankastjórum sem hún kynntist í gegnum störf sín hjá bandaríska seðlabankanum.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvernig Yellen mun farnast í svona pólitísku hlutverki. Seðlabanka Bandaríkjanna hefur stundum verið líkt við munkaklaustur þar sem fræðimenn sökkva sér ofan í gögn og formúlur og vandamálin eru leyst með akademískum hætti. Fjármálaráðherra þarf að kunna að beita öðrum tólum og vera allt öðruvísi talsmaður út á við en seðlabankastjóri. Gott ef bandaríski fjármálaráðherrann þarf ekki að vera smávegis tuddi á köflum.

Yellen er enginn tuddi og virðist ekki vera sú týpa sem fer létt með að spinna flóknar pólitískar fléttur. Þvert á móti er hún, eins og fyrr segir, varkár að eðlisfari og vill alltaf hafa vaðið fyrir neðan sig. Til að gefa lesendum hugmynd um hvers konar manngerð Yellen er þá er frægt að hún mætir mjög snemma í flug til að forðast óvæntar uppákomur og þegar blaðamannafélagið í Washington hélt árlega veislu sína árið 2014 mætti Yellen á undan öllum öðrum – við öllu búin og með allt á hreinu. Í skóla þótti hún slá öllum öðrum námsmönnum við þegar kom að því að gera vandaðar glósur.

Á móti kemur að Yellen þykir rökföst og sannfærandi. Hún gasprar ekki og giskar heldur íhugar málin vandlega og tjáir sig ekki fyrr en að vandlega athuguðu máli. Þá halda innanbúðarmenn því fram að það reyni töluvert á pólitíska fimi innan seðlabanka Bandaríkjanna og kúnst að fá stjórn bankans og deildir til að vinna vel saman.