Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir vöxtinn í fiskeldinu styðja við krónuna.
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir vöxtinn í fiskeldinu styðja við krónuna. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Krónan hefur styrkst að undanförnu. Sérfræðingar eiga ekki von á mikilli styrkingu næstu mánuði. Þróun bóluefna geti þó haft áhrif.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir nokkra þætti skýra styrkingu krónunnar að undanförnu. Vísbendingar séu um að tíðindi af þróun bóluefna hafi haft áhrif á væntingar.

Evran kostar nú 158 krónur en kostaði mest tæplega 166 krónur í byrjun september (sjá graf).

„Eftir því sem ég kemst næst er nærtækasta skýringin [á styrkingu krónunnar] gjaldeyrisinnflæði um mánaðamót. En útflytjendur selja jafnan gjaldeyri þegar nær dregur mánaðamótum til að greiða laun, opinber gjöld og annað sem þarf að greiða fyrir í krónum. Þau áhrif eru mögulega með sterkara móti þessa dagana. Útflytjendur hafa enda margir hverjir líklega dregið að selja gjaldeyri vegna þess hvað krónan veiktist mikið vikurnar á undan, eða þar til Seðlabankinn gaf í gjaldeyrisinngripin í októberlok og nóvemberbyrjun,“ segir Jón Bjarki.

Minni þrýstingur

Þá sé ekki sami þrýstingur á krónuna vegna eignasölu erlendra aðila og verið hefur síðustu mánuði og fremur lítið ójafnvægi í utanríkisviðskiptunum almennt.

Þannig sýni nýjar tölur um viðskiptajöfnuð tiltölulega hóflegan halla á vöru- og þjónustuviðskiptum og nær engan viðskiptahalla þegar búið er að taka aðra þætti með í reikninginn. Það hafi orðið greinilegur samdráttur í vöru- og þjónustuinnflutningi.

„Það er í raun með nokkrum ólíkindum, í ljósi þess hvað höggið á útflutningstekjurnar er mikið, að ekki skuli vera meiri halli á utanríkisviðskiptunum,“ segir Jón Bjarki.

Vegur upp verðlækkun

Uppgangur í fiskeldi eigi þar hlut að máli.

„Fiskeldið hefur bjargað heildartekjum sjávarútvegsins. Þróunin hefur verið mótdræg í sumum sjávarafurðum og verðið gefið eftir en aðrar hafa haldið sér í verði. Selt magn dróst saman en nú eru markaðir með sjávarafurðir að jafna sig aftur. Það ásamt veikari krónu vegur upp verðlækkun í sumum afurðum,“ segir Jón Bjarki.

Niðurstaðan sé að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé nánast jafn mikið fyrstu níu mánuði ársins og sama tímabil í fyrra.

Jón Bjarki segir aðspurður að tíðindi af þróun bóluefna hafi ekki veruleg áhrif á markaðinn. Þó sé ekki hægt að útiloka að þau skapi hvata hjá útflytjendum til að fara í gjaldeyrisviðskipti, enda hafi líkur minnkað á að það verði til lengdar á brattann að sækja fyrir krónuna.

„Þegar væntingar glæðast hefur það að lokum áhrif á hvort menn vilja færa tekjur og eignir úr gjaldeyri yfir í krónur. Það er komin meiri vonarglæta um að næsta ferðasumar verði þokkalegt. Krónan mun að lokum styrkjast, en það gerist annaðhvort þegar og ef erlendir aðilar sækja aftur í innlendar fjáreignir, en eign þeirra í skuldabréfum í krónum er nú í algjöru lágmarki, eða með hagstæðari utanríkisviðskiptum,“ segir Jón Bjarki.

Auknar líkur á afgangi

„Og þegar ferðaþjónustan braggast förum við aftur að sjá viðskiptaafgang en líkur á að það verði fyrr en seinna hafa batnað við góðar fréttir síðustu vikna. Gjaldeyrismarkaðurinn okkar er þó auðvitað smár og fábreytilegur að því leyti að það er mjög lítið um spákaupmennsku eða önnur gjaldeyrisviðskipti sem eingöngu byggjast á væntingum, heldur er um undirliggjandi tilfærslu á fjáreignum eða tekjustrauma inn og út úr hagkerfinu að ræða,“ segir Jón Bjarki.

Leiðir til minni verðbólgu

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, telur ólíklegt að krónan styrkist mikið á næstunni. Líklegra sé að gengið haldist nokkuð stöðugt.

„Það er enn smávægilegur halli á vöru- og þjónustuviðskiptum og viðbúið að það verði frekar litlar breytingar á núverandi gengi,“ segir Gústaf og bendir á að gjaldeyrismarkaðurinn á Íslandi sé grunnur og aðeins brot af utanríkisviðskiptum fari beint í gegnum hann.

„Þannig að það þarf oft lítið til að sveifla krónunni fram og til baka. Seðlabankinn hefur hins vegar þá stefnu að koma í veg fyrir að sveiflurnar verði of miklar.“

Spurður um tíðindin af þróun bóluefna segir Gústaf að þau geti vissulega haft áhrif á væntingar þeirra sem höndla með gjaldeyri.

„Ég held þó að þær væntingar hafi ekki breyst mikið. Væntingar markaðarins eru væntanlega í þá átt að hjarðónæmi vegna bólusetningar verði náð um mitt næsta ár. Ef bóluefni er hins vegar alveg handan við hornið breytist myndin og þá gætum við mögulega séð einhverja frekari styrkingu en hún verður væntanlega mjög hófleg,“ segir Gústaf.

Ólíklegt sé að fjölgun ferðamanna verði mikil á næsta ári, jafnvel þótt bóluefni komi mun fyrr en vænst hefur verið. Það muni taka nokkurn tíma fyrir flugsamgöngur að taka við sér á ný þannig að áhrifin á krónuna verða væntanlega lítil í upphafi.

Varðandi gengisþróun og verðbólguhorfur segist Gústaf telja að ef gengið haldist stöðugt muni áhrif gengisveikingarinnar á þessu ári fjara út og verðbólga hjaðna frá og með öðrum fjórðungi á næsta ári.